13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (2971)

139. mál, aðbúð síldarsjómanna

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. þessi er á þá lund, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að vinna að bættri aðbúð síldarsjómanna í helztu löndunarhöfnum, sérstaklega með því að koma á fót sjómannastofum, svo og með því að greiða fyrir bókláni til síldveiðiskipa.

Till. er afleiðing af þeim breytingum, sem hafa orðið á síldveiðum á síðustu árum, sérstaklega því, að veiðarnar eru nú stundaðar fyrir öðrum landshlutum en áður var, og meginmagni síldar er landað í höfnum, sem að mörgu leyti eru enn ekki við því búnar að taka við þeirri umferð, sem löndun síldarinnar fylgir.

Mál þessi hafa verið rædd á fundum í samtökum sjómanna. Sjómannafélag Reykjavíkur skoraði m.a. á aðalfundi sínum á heildarsamtök sjómanna að beita sér fyrir því, að komið verði upp sjómannastofum í stærstu síldarmóttökuhöfnunum á Austurlandi, svo og í Vestmannaeyjum og víðar, þar sem mörg skip landa eða hafa viðlegu. Í samþykktinni var raunar einnig fjallað um bætta aðbúð sjómanna í Reykjavík, og hygg ég, að sjómenn úr öðrum landshlutum muni taka undir þá ósk. Þó að margt sé fyrir hendi í höfuðstaðnum, er ekki víst, að þar sé greiður aðgangur fyrir sjómenn, sem hafa stutta viðdvöl og koma utan af landi, að þeirri þjónustu, sem þeim kæmi bezt.

Þá hefur Farmanna- og fiskimannasamband Íslands á 22. þingi sínu rætt þessi sömu mál. Taldi þingið brýna nauðsyn á, að þau sjávarpláss á Austfjörðum og annars staðar á landinu, sem ekki hafa komið sér upp sjómannastofum, leggi áherzlu á, að í hverri verstöð geti sjómenn fengið samastað, þar sem þeir geti lesið, skrifað eða notið annarrar fyrirgreiðslu. Farmanna- og fiskimannasambandið gerði einnig ályktun, þar sem skorað var á yfirvöld að láta athuga, á hvern hátt heppilegast sé að koma því við, að ætið séu handbærir bókakassar til útlána til fiskiskipa, ekki sízt til síldarflotans fyrir Austurlandi.

Ætla má, að hægt sé að gera ýmsar ráðstafanir, sem mundu koma til móts við óskir sjómanna í þessum efnum, án þess að kostað væri til stórfé eða lagt í dýrar byggingar. Sums staðar ræður ríkið yfir húsnæði, sem mætti nota í þessum tilgangi, og vert væri að athuga, hvort ekki er hægt að hafa gagn af einhverjum þeirra mörgu og dýru félagsheimila, sem reist hafa verið víðs vegar um land, í sambandi við þetta nýja félagslega vandamál. Þess vegna höfum við flm. lagt till. fram og leggjum til, að ríkisstj. verði falið að taka þetta mál til athugunar og úrlausnar, eftir því sem framast er unnt.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til allshn.