13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (2982)

140. mál, takmörkun sjónvarps frá Keflavíkurflugvelli

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég mun eini þm., sem lýst hefur opinberlega afstöðu minni til þessa máls, og þarf ég kannske ekki af þeirri ástæðu að vera mjög langorður um það, en tel þó rétt að ræða till. nokkuð.

Þegar þetta mál hefur verið hér til umr. á Alþ., hafa komið aðallega fram tvenn rök fyrir því, að loka ætti eða takmarka Keflavíkursjónvarpið við herstöðina eina, og er það í fyrsta lagi, að það væri vansæmandi fyrir Íslendinga sem sjálfstæða menningarþjóð að heimila einni erlendri þjóð að reka hér á landi sjónvarpsstöð, og í öðru lagi, að sjónvarp varnarliðsins stefndi íslenzku þjóðerni í hættu. Þessi rök, sem tvær þáltill., sem hér hafa verið fluttar á Alþ., eru byggðar á, þ.e. fyrst þáltill. á þskj. 470 á þinginu 1963—1964, flutt af þeim hv. þm. Gunnari Guðbjartssyni, Bergi Sigurbjörnssyni og Alfreð Gíslasyni, aðalástæðan og aðalrökin, ég vil segja einu rökin, sem koma fram fyrir því frá þessum aðilum, eru, að það sé vansæmandi fyrir Íslendinga sem sjálfstæða menningarþjóð að heimila einni erlendri þjóð að reka hér á landi sjónvarpsstöð. Þessi till. er beint flutt vegna áskorunar 60-menninganna svokölluðu, sem send var Alþ. á þessum tíma. Sú till., sem hér liggur fyrir á þskj. 296, er aðallega og ég vil segja eingöngu byggð á því, að sjónvarp varnarliðsins stefni íslenzku þjóðerni í hættu. Einnig sú till., sem hér er flutt og rædd nú, er fram komin, að því er séð verður á grg. og fskj., sem henni fylgja, vegna áskorana til Alþ. undirritaðra af 600 stúdentum við Háskóla Íslands. Á móti þessum tillöguflutningi og þessum áskorunum, sem þessar tvær till. eru byggðar á, kemur svo áskorun 14600 sjónvarpsnotenda, sem krefjast þess að fá áfram að horfa á Keflavíkursjónvarpið, ef þeir vilja svo vera láta. Þegar þm. flytja till., sem sjáanlega eru fram komnar beint vegna áskorana ákveðinna hópa, hlýtur að vakna sú spurning: Hvernig ætla þeir að svara þeim 14600 sjónvarpsnotendum, sem gera sínar kröfur um að fá að nota þau tæki, sem þeir hafa keypt í þeim tilgangi fyrst og fremst og ég vil segja eina tilgangi margir hverjir að horfa á Keflavíkursjónvarpið? Þetta er að sjálfsögðu spurning, sem þeir aðilar, sem að þessum till. standa, hljóta að verða að svara þessum 14600 sjónvarpsnotendum, sem sína áskorun hafa einnig sent hingað til Alþ. Ef hægt er að hyggja þáltill. á áskorun 60 manna eða áskorun 600 manna, hljóta hinir sömu aðilar einnig að verða að taka tillit til áskorana 14600 aðila.

Í sambandi við þetta sjónvarpsmál hlýtur að vakna önnur spurning, sem ég hef greinilega tekið eftir, að allir þeir, sem tala gegn sjónvarpinu, hafa mjög forðazt að minnast á, en það er Keflavíkurútvarpið. Það er vitanlegt, að tæknifróðir menn halda ákveðið fram, að enginn skilsmunur sé á sjónvarpi og útvarpi. Þessi skoðun hefur einnig komið fram hér á Alþ., og ég hef engan heyrt mæla því gegn, að þetta væri rétt niðurstaða. Ég tel rétt að lofa þm. að heyra a.m.k. það, sem hér var sagt um þetta mál af einum hv. alþm. nú fyrir skömmu. Það var í sambandi við umr. og deilur, sem urðu út af fsp. á þskj. 59. Þá sagði hv. 5. þm. Vesturl., formaður útvarpsráðs, í upphafi sinnar ræðu, sem ég vil, með leyfi forseta, lesa upp:

„Ég vildi aðeins segja örfá orð út af lagalegri hlið sjónvarpsmálsins, sem hefur komið til umr. Ég er algerlega ósammála hv. síðasta ræðumanni um það, að útvarp og sjónvarp séu sitt hvað. Útvarp og sjónvarp eru nákvæmlega það sama, aðeins sá tekníski munur, hvort það, sem sent er út í eterinn og fólk tekur á móti, er hljóðbylgja eða bylgja, sem myndar mynd.“

Þetta er það, sem formaður útvarpsráðs hafði um þessa hlið málsins að segja, og er hún í fullu samræmi við það, sem fram hefur komið hjá tæknifróðum mönnum um málið. Og eins og ég sagði áðan, ég hef engan heyrt andmæla því, hvorki hér á þingi né annars staðar, að þessi skoðun formanns útvarpsráðs væri rétt.

Þegar nú er tekið tillit til þessa, að við erum þarna að tala um tvö atriði, annars vegar Keflavíkurútvarpið og hins vegar Keflavíkursjónvarpið, hlýtur það að vekja undrun, að þeir menn, sem berjast gegn Keflavíkursjónvarpinu, skuli ekki minnast á Keflavíkurútvarpið. Ef það er rétt, sem hér hefur verið haldið fram, að það sé ekki sæmandi fyrir Íslendinga að hafa Keflavíkursjónvarpið og það stefni íslenzku þjóðerni í hættu að hafa Keflavíkursjónvarpið, hlýtur eftir þessum rökum, sem hér liggja fyrir og enginn hefur mótmælt, að gilda það nákvæmlega sama um Keflavíkurútvarpið. Nú er það vitað, að á þessu ári eru liðin sennilega rúm 15 ár, síðan Keflavikurútvarpið var leyft af íslenzkum stjórnvöldum. Tveir flm. að þeirri till., sem hér er verið að ræða í dag, hafa í millitíðinni, siðan það var leyft, verið ráðh. í ríkisstj. Íslands, þ.e. hv. 1. þm. Austf. og hv. 5. þm. Austf., sem í vinstri stjórninni svokölluðu voru ráðh., án þess að nokkuð liggi fyrir um það mér vitanlega, að þeir hafi gert tilraun til þess að fá Keflavíkurútvarpinu lokað. Það hlýtur því að vekja nokkra undrun og eftirtekt, að það skuli aðeins sjónvarpshliðin á þessu máli vera tekin hér til umr. og mótmælt af þeim, þegar þeir allan þennan tíma, bæði meðan þeir hafa setið hér á þingi sem alþm. og einnig þegar þeir hafa setið sem ráðh., hafa aldrei látíð sér detta í hug að fara fram á það, að Keflavíkurútvarpinu yrði lokað.

Ég hef haldið fram opinberlega og held því alveg hiklaust fram hér, að ég tel það beinlínis vantraust á íslenzku þjóðinni að halda því fram, að þjóðerni hennar stafi hætta af Keflavíkursjónvarpinu. Að sjálfsögðu má deila um þetta endalaust, og ef við ættum að taka alvarlega dæmið, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. landsk. þm., var hér með um það, að amerískur milljónamæringur kæmi hér og stofnaði barnaskóla, ég tel, að ef engin sterkari rök eru til í þessu máli gegn Keflavíkursjónvarpinu, er þar um hrein rökþrot að ræða, því að það er svo fjarskylt mál að bera saman, að ég tel, að það séu hrein rökþrot að hafa ekkert annað sterkara fram að færa en það. (Gripið fram í: Hann ætlaði að stofna blöð líka.) Það er alveg rétt, hann var með blöð líka, en ég satt að segja tel ekki, að þingheimur geti tekið slíkar röksemdir alvarlega.

Það hefur verið bent á það áður, sem er alveg rétt og er staðreynd, sem ég held að hv. alþm. og íslenzka þjóðin hafi vel efni á að gera sér grein fyrir, að menning þjóðarinnar og þjóðarmetnaður og þjóðarkennd hefur aldrei staðið styrkari fótum en hún stendur nú í dag. Þetta byggist ekki eingöngu á því, eins og lengi var, að okkar frægð eða okkar menning byggðist eingöngu kannske á fornum bókmenntum og fornri frægð. Þetta byggist fyrst og fremst á því, að Íslendingar eru orðnir jafnokar annarra þjóða, þeir eru orðnir í beinum samskiptum við aðrar erlendar stórþjóðir, eiga sæti og samstöðu með þeim í alls konar samtökum, bæði Sameinuðu þjóðunum og víðar, og eru þar viðurkenndir. Og þeir eru fyrst og fremst viðurkenndir fyrir það, sem hefur verið að gerast nú á síðasta mannsaldri hér á Íslandi, svo að þeir hafa mjög vel efni á því að viðurkenna það, að okkar menning sé ekki svo rýr og svo veik, að henni stafi hætta af Keflavíkursjónvarpinu.

Ég tel, að þetta mál sé komið á það stig, að það sé ekki raunverulega lengur verið að deila um Keflavíkursjónvarpið eða Keflavíkurútvarpið, fyrir mér liggur málið þannig fyrir, að ég tel, að það sé verið að deila um það, hvort Alþ. ætlar inn á þá braut að fara að ákveða, hvað landsmenn megi horfa á í sjónvarpi, horfa á í kvikmyndum, lesa í blöðum eða hlusta á í útvarpinu. Þetta er nákvæmlega það, sem er að gerast með Keflavíkursjónvarpið. Það er, að ég tel, alveg sama aðstaða með það eins og erlendar kvikmyndir, sem hér eru sýndar. Hv. 1. þm. Austf. vildi ekki, að menn minntust hér á kvikmyndir í sambandi við sjónvarp. En hvað er kvikmynd, og hvað er sjónvarp? Þetta er nákvæmlega sama, og mestmegnis erum við hér með erlendar kvikmyndir, sem fylgir erlendur texti og erlent mál, þannig að ef Íslendingar þola ekki að horfa á og hlusta á erlent sjónvarp, þola þeir vissulega ekki heldur að horfa á erlendar kvikmyndir, þannig að ég tel, að deilan standi orðið um þetta, hvort Alþ. ætlar sér að fara inn á það að skerða þennan rétt, sem ég hef haldið fram að ætti að taka af mönnum.

Ég hika ekki við að segja það, að þegar þúsundir, — hér sagði ræðumaður kannske: tugir þúsunda, — Íslendinga eru búnir að kaupa sjónvarpstæki, gera það í þeirri góðu trú og þeirri vissu, að þeir eru að gera það með fullu leyfi íslenzkra stjórnvalda að kaupa þessi tæki, og þeir gera það með fullri vissu um það, að þeir hafa leyfi til þess, það eru engin íslenzk lagaákvæði, sem geta bannað þeim að horfa á Keflavíkursjónvarpið, er þar bókstaflega verið að taka af þeim rétt til þess að haga sér í þessu sambandi eins og þeir sjálfir kjósa að gera. Ég tel ekki, að Alþ. eigi að fara inn á það að grípa þarna inn í og segja þeim fyrir verkum, hvað þeir megi hlusta á í Keflavíkursjónvarpi eða Keflavíkurútvarpi.

Hv. l. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, eyddi nokkuð miklu af sínum ræðutíma í það, að það væru deilur á íslenzkum heimilum um, hvort ætti að kaupa sjónvarpstæki til að horfa á Keflavíkursjónvarpið, og það væru deilur um það, hvort ætti frekar að horfa á sjónvarpið eða hlusta á útvarp. En hvað skeður, þegar íslenzka sjónvarpið kemur? Geta þá ekki orðið alveg eins deilur um það á heimilum, hvort það eigi að kaupa sjónvarp eða ekki eða hvort eigi að horfa á íslenzka sjónvarpið eða hlusta á íslenzka útvarpið? Ég held, að það sé nákvæmlega sama aðstaða með það, að ef þetta er fyrir hendi, þá getur orðið nákvæmlega það sama fyrir hendi, þegar íslenzka sjónvarpið kemur. Það geta orðið deilur innbyrðis á heimilum um það, hvort eigi að taka og hvort eigi að horfa á og hvort eigi að hlusta á, þannig að það eru engin rök fyrir því, að Íslendingar megi ekki, ef þeim sýnist svo horfa á Keflavíkursjónvarpið.

Ég tel, að það þurfi ekki að vera að ræða það, sem hv. 1. flm. þessa frv. hélt hér fram í sinni framsöguræðu í dag, þegar hann líkti Keflavíkursjónvarpinu við það, að taka ætti upp kennslu í öllum skólum hér á landi á erlendu máli eða ætti að fara að prédika í kirkjum landsins á erlendu máli fyrir Íslendinga. Ég tel þetta svo fjarstæðukennt og ólíkt, að það er um það nákvæmlega eins og um staðhæfingar hv. 5. landsk. þm. um skóla hins ameríska auðkýfings eða blöð, að þarna er sjáanlega ekki um nein eðlileg rök að ræða.

Það, sem ég vil leggja aðaláherzlu á, er að spyrja flm. frv. um, hvers vegna þeir krefjast þess ekki í sinni till., að Keflavíkurútvarpið sé einnig takmarkað við Keflavíkurvöllinn, eins og þeir krefjast, að Keflavíkursjónvarpið sé takmarkað við þann stað einan, og ég ítreka það, sem ég sagði, að það hafa verið færð hér á Alþ. og annars staðar alveg greinileg rök fyrir því, að sjónvarp og útvarp er nákvæmlega það sama. Hvort tveggja getur verið áróðurstæki og kann að vera, ef því er þannig beitt, og þess vegna væri það eðlilegt, að slík till. eins og hér liggur fyrir næði einnig yfir þennan þátt málsins. Við þessu hlýtur maður að geta ætlazt til, að komi grg. og svar frá þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli og að þessari till. standa.

Ég skal nú við þessa umr. ekki orðlengja þetta meira. Það er greinilegt, að bæði hér á Alþ. og án efa utan Alb. eru skiptar skoðanir um það, hvort almenningur hér á landi á að fá leyfi til að horfa á Keflavíkursjónvarp eða hvort á að takmarka það við herstöðina eina. Ég hygg, að það sé öllum alveg ljóst, en fyrir Alþ. liggur það alveg greinilega, að það er miklu stærri hópur, sem hingað hefur sent sitt álit, sem vill, að almenningur fái að velja eða hafna um það, hvort hann horfir á Keflavíkursjónvarpið eða ekki. Það er miklu stærri hópur en þeir hópar, sem hingað hafa sent áskorun um að takmarka það eða loka því.