13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2984)

140. mál, takmörkun sjónvarps frá Keflavíkurflugvelli

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja umr., en það var vegna þessarar fsp. frá hv. 5. landsk. þm. Vissulega hef ég litið á þessa lista, ég hef skoðað þá, þótt ég hafi ekki lesið þá frá nafni til nafns, en þar sem ég þekki menn á þessum listum, veit ég, að þar er um eldri aðila að ræða en 18 ára. (Gripið fram í: 8, sagði hann.) Hann sagði 8. Ég hef engan mann, sem ég þekki þarna, séð þar yngri en 18 ára. Ég kannast við nöfn, og ekkert þeirra er undir þeim aldri, og ég skal ekkert um það dæma, hvort hann hefur rétt fyrir sér eða ekki. Það er náttúrlega enginn vandi að slá því fram, þegar hann veit, að sennilega hefur enginn einasti þm. rannsakað listana þannig, að hann geti dæmt um það, hvort hann fer með rétt mál eða ekki. Ég held, að það sé rétt hjá mér, að það er ekki getið um aldur á neinum aðila þarna. Ég held, að það sé ekki á listunum getið um aldur neins aðila. Það er tekið fram í forsendum fyrir undirskriftum, að það skuli vera menn á þessum aldri, og þeir aðilar, sem ég þekki, eru allir eldri en 18 ára.