27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (2997)

143. mál, verksmiðja á Skagaströnd, er framleiði sjólax

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mér þykir mjög ánægjulegt, að hæstv. forsrh. skuli gera aths. í sambandi við þetta mál, þar sem með því er ljóst, að málið hefur vakið athygli hans. En það er einmitt grundvallarskilyrði fyrir því, að mál nái fram að ganga. Hæstv. forsrh. var hér ekki inni, meðan ég hélt ræðu mína, hvorki þá fyrri og ekki fyrri hlutann af þeirri seinni. Vegna þess að hann taldi, að þarna væru markaðserfiðleikar fyrst og fremst á ferðinni, vildi ég aðeins fá að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að um árabil hefur verið laus markaður til Tékkóslóvakíu fyrir sjólax, sem nemur um 16 millj. kr. Þessi till. hér fjallar einkum um það að nýta sér þennan markað. Það er ekki endilega meiningin að ryðjast inn á Rússlandsmarkaðinn með þessa verksmiðju, enda þótt þar yrðu einnig framleiddir gaffalbitar. Ég vildi láta þetta koma fram, vegna þess að hæstv. forsrh. hafði ekki heyrt þessi orð mín.

En ég vildi líka, vegna þess að hann hefur veitt þessu máli athygli, benda honum á það, að samkv. blaðafregnum eru að spretta upp niðurlagningarverksmiðjur á nokkrum stöðum á landinu. Sumar eru ekki langt á veg komnar, en með aðrar er sýnt, að þær verða örugglega byggðar. Í sumar gerði hæstv. forsrh. samning við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlandi, og í þeim samningi, sem hann undirritaði með eigin hendi, var m.a. þetta loforð: „Ef unnt reynist fyrir forgöngu ríkisvaldsins að afla markaða fyrir verulega aukið magn niðursoðinna eða niðurlagðra fisk- og síldarafurða, verði verksmiðjur á Norðurlandi látnar sitja fyrir um þá framleiðslu, meðan atvinna er þar ófullnægjandi. Reynist verkefni vera fyrir fleiri verksmiðjur, verði stuðlað að því, að atvinnulitlir staðir á Norðurlandi og í Strandasýslu sitji í fyrirrúmi um staðsetningu þeirra.“ Þegar það liggur fyrir, að ýmsir aðilar hér á landi álita markaði vera næga til þess, að ástæða sé til að byggja nokkrar niðurlagningarverksmiðjur til viðbótar, hlýt ég sem fulltrúi þessa byggðarlags að spyrja hæstv. forsrh., hvað hann ætli að gera til þess að framfylgja þessu loforði, sem hann undirritaði með eigin hendi og afhenti verkalýðsfélögunum á Norðurlandi í sumar.