10.12.1965
Neðri deild: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það hefur orðið að samkomulagi, að mál þetta yrði tekið fyrir á þann hátt, sem nú er. Þar sem það var rétt nýlega að komast í hendur okkar þm., höfum við af skiljanlegum ástæðum ekki haft aðstöðu til þess að kynna okkur málið, svo sem eðlilegt hefði verið, og jafnframt hefur verið á það fallizt af sérstökum ástæðum, að umr. yrðu ekki miklar nú við 1. umr. En nægur tími er sem sagt til þess að ræða málið, þegar það kemur úr n. Ég mun því ekki ræða málið hér að þessu sinni nema að sáralitlu leyti.

Ég vil aðeins benda á það, að þetta frv. er eitt af nokkrum, sem ríkisstj. leggur fram til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þótt með nokkuð sérstökum hætti sé. Gert hefur verið ráð fyrir því, að ríkissjóður drægi úr greiðslum til rafmagnsveitna ríkisins, sem verið hafa um alllangan tíma, en í stað þess verði horfið að því ráði að hækka rafmagnsverð í landinu og afla rafmagnsveitum ríkisins á þann hátt nýrra tekna. Hér er raunverulega ekki um verðjöfnun á rafmagni að ræða, eins og minnzt er á í frv. Það er gert ráð fyrir því, að það verði sami mikli verðmismunurinn á rafmagni á hinum ýmsu stöðum á landinu, sem verið hefur. En hins vegar er það lagt til að leggja sérstakt gjald á alla raforkusölu og nota það til þess að styðja rafmagnsveitur ríkisins.

Eins og ég sagði áður, mun þetta mál verða rætt miklu frekar hér, þegar það kemur úr n., og ég mun því ekki ræða það frekar að þessu sinni.