27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (3001)

143. mál, verksmiðja á Skagaströnd, er framleiði sjólax

Björn Pálsson:

Herra forseti. Þeir vita nú gerst um hlutina fyrir norðan, sem hér eru búsettir, skilst mér. Ég hef ekki ómerkari mann fyrir mér en Þórodd Guðmundsson á Siglufirði, ég hef hitt hann tvisvar í vetur og spurt hann um atvinnuástand, og hann sagði, að það væri allt í þessu fina lagi og það hefðu allir nóg að gera, sem vildu vinna. (Gripið fram í.) Nei, en ég býst við, að það megi leggja upp úr hans orðum á þessu sviði a.m.k., því að hann er mikill verkalýðssinni, enda gefur það auga leið, að Siglfirðingar hafa haft öllu meira að gera í vetur en venjulega, því að þeir hafa nú klettinn að grafa í gegn, niðursuðuverksmiðjuna, tunnuverksmiðjuna og allt í þessu fina. Það hefur einhvern tíma verið bágt, ef það hefur verið ómögulegt í vetur, enda sagði hann mér, að það væri með betra móti.

Viðvíkjandi Sauðárkrók, þá hef ég talað við kaupfélagsstjórann og fleiri þar. Þeir sögðu, að fólkið hefði nóg að gera, það væri allt í sæmilegasta lagi hjá þeim. Viðvíkjandi því, að sjómenn þurfi stundum að fara frá Skagaströnd eitthvað að fiska, þá er það nú bara það, sem skeður hér í höfuðborginni. Það fara margir sjómenn héðan austur á land og eru þar á síldveiðum að sumrinu og fram á vetur. Þetta er ekkert annað en það, sem fylgir sjómannalífinu, að það sé ekki unnið alla daga í kauptúnum eða bæjum, þar sem er um fiskveiðar að tala. Það er ekki nema gangur lífsins og hefur alltaf verið. Það er ekki hægt að fiska þegar illviðri er og ekki er hægt að fara á sjó, og þá þarf ekki heldur að flaka fiskinn. Við getum bara aldrei byggt þannig upp atvinnulíf í sjávarplássunum, að það sé vinna hvern einasta dag.

En ég er ekki að tala um, að það sé neitt of mikið að gera í þessum kauptúnum, en það er ekkert unnið við það að vera að gera þetta að einhverjum eymdarstöðum, fólkið sjálft hefur raun af því. Þegar það svo kemur hér suður og biður um einhverja fyrirgreiðslu, þá er sagt: Er ekki allt í eymd hjá ykkur. Það er ómögulegt að lána ykkur. Þetta er allt á hausnum hjá ykkur. — Þetta eru svörin, sem það fær. Þetta eru verkin, sem menn eru að vinna með því að vera alltaf að fjölyrða um það, að þetta sé ekkert nema eymd og bágindi. Fólkið sjálft harmar þetta. Það eru bara vissir aðilar, sem koma öllu þessu vandræðatali af stað.

Það er ekki nema ágætt að njóta fyrirgreiðslu banka og ríkisstj., þegar þarf að gera eitthvað. En það er einmitt það, sem verkar alveg öfugt, þessi barlómur. Þegar þessir menn koma í bankana, er sagt: Það er ómögulegt að lána ykkur. Það er allt á lausnum hjá ykkur. — Þetta hafa mennirnir sagt við mig sjálfir. Það er ekki nóg að fjölyrða um þetta, að það sé eitthvað að, og halda, að þeir komi sér vel við fólkið á því og fái einhver atkvæði út á það. Þetta verkar alveg öfugt. Þeir berja sér minnst, sem standa sig bezt, þau kauptúnin, þau eru ekki að þessu væli. Við eigum að auka manndóm fólksins með því að telja í það kjark og veita því heilbrigða aðstoð, en ekki alltaf að vera að útmála eymd og bágindi fyrir því.

Viðvíkjandi því, að Skagaströnd hafi verið búin til, þegar síldarverksmiðjan var reist, þá er það ekki rétt með farið. Það var þarna kauptún. En þá var spýtt miklum peningum inn í þorpið, og menn notuðu það til að laga húsin og margs fleira.

Nei, það er ekki nóg að berja sér og heimta og heimta. Við þurfum að taka þetta allt saman skynsamlega og byggja atvinnulífið upp á heilbrigðan hátt. Og ef ríkið ætlar að taka að sér að reka eitthvað, þá verður það að vera byggt þannig upp, að það megi treysta eitthvað á það. En annars hef ég meiri trú á því að aðstoða efnilega einstaklinga til að byggja upp atvinnulífið, það verði traustara og farsælla. Það er ekki von, að ein ríkisstjórn geti ráðið við að reka alls staðar atvinnu. Það verður þá að setja einhverja dírektöra þar yfir. Þeir kosta sína peninga og svo hlaupa þeir kannske í burtu, þegar verst gegnir. Ég veit ekki betur en yfirmenn síldarverksmiðjanna á Siglufirði séu fluttir suður í Reykjavík og búi hér í villum, þyki það eitthvað fínna og skemmtilegra. Ef þetta væru atvinnurekendur þarna, væru þeir vafalaust þar. Það er rétt, að einn af þeirra öflugustu atvinnurekendum fór burt, ég veit ekki, hvort hann telur sig þar enn þá, hann flutti að einhverju eða öllu leyti. Hann sagði mér, að það væri m.a. af því, að það væru lögð á sig svo þung gjöld, vegna þess að ríkisfyrirtækin borguðu tiltölulega lítið, það væri varla gerlegt fyrir sig að vera þarna. Það er eitt, sem kemur inn í það, ef ríkið vill reka atvinnufyrirtækja, þá verður það að borga eitthvað hliðstæð útgjöld til þess að gera ekki hinum einstaklingunum ólíft, og það er þannig á Siglufirði, að einstaklingarnir þurfa að borga allt of há útsvör, af því að þeir eiga svo lítið af atvinnutækjum sjálfir, hafa treyst á ríkið. Það er ýmislegs að gæta. Við lögum ekkert með því að vera alltaf að mála púkann á vegginn og telja kjarkinn úr einstaklingunum og auglýsa það fyrir bönkum og öðrum, að þarna sé ekki gerandi neitt fyrir neinn, því að allt sé á hausnum.