27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (3026)

167. mál, endurskoðun laga um almannavarnir vegna hafíshættu

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég tel, að hér sé hreyft þörfu og góðu máli og það sé næsta eðlilegt að láta fram fara endurskoðun á l. um almannavarnir, eins og hér er farið fram á. Ég vil geta þess í sambandi við flutning þessa máls hér, að hv. 1. flm., Jónas Pétursson, átti tal við mig á s.l. hausti um hættuna af hafísnum og samgöngustöðvunum, sem af hafísnum gæti leitt, og þó sérstaklega í sambandi við hugsanlegan olíuskort á ýmsum stöðum á landinu, eins og nokkuð hafði borið á á s.l. ári. Ég talaði þá við forstjóra almannavarna og bað hann um að athuga þetta mál sérstaklega og hafa samráð við olíufélögin í sambandi við ráðagerðir, sem mér var nokkuð kunnugt um, um áætlanir þeirra um byggingu birgðastöðva úti um landið. En það er eins og hv. 1. flm. sagði, að hér kemur fleira til álita, og það vill svo til, að einmitt 2. flm. till., Matthías Bjarnason, hafði átt tal við mig út af hugsanlegri samvinnu almannavarna eða aðstoð þeirra við ýmsar hjálparsveitir, sem starfað hafa með miklum ágætum hér á landi. Það var erfitt að ráða fram úr slíkum málum, eins og lögin eru, og hefur ekki borið árangur, en ég tel vel koma til álita að endurskoða þau einmitt með hliðsjón af störfum þeirra og öðrum þeim greinum, sem hér eru nefndar.

Það kann vel að vera, að það kunni í samráði við almannavarnir að þykja hentugt að staðsetja tæki eins og snjóbíla á tilteknum stöðum til þess að veita hjálp í neyð, þegar sérstaklega stendur á, og gæti komið að frekara gagni, alls ekki ólíklega í sambandi við læknaþjónustuna, og það er rétt, að sama gæti átt við um þyrilvængjur. Starfræksla á þyrilvængju er aðeins í byrjun hjá landhelgisgæzlunni og var hugsuð þannig, að ef hún gæfi góða raun, mundi þetta geta vaxið stig af stigi, bæði í sambandi við sjálfa landhelgisgæzluna og svo einnig slysavarnir, sem landhelgisgæzlan hefur alltaf haft með höndum, en landhelgisgæzlan hefur alltaf haft töluvert náið samstarf við Slysavarnafélag Íslands, og eins og kunnugt er, er þessi þyrla keypt í samvinnu við Slysavarnafélagið, sem lagði fram sjóð til þeirra hluta, en reksturinn er í höndum landhelgisgæzlunnar. Það eru auðvitað miklu stærri og öflugri tæki, sem völ er á, þó að við höfum ekki treyst okkur til á þessu stigi málsins að fara lengra út í það enn sem komið er.

En ég vildi aðeins láta fram koma af minni hálfu, að ég tel fulla ástæðu til þess að veita athygli þeim málum, sem hér er hreyft í þessari þáltill., og styðja það, að þingið taki undir þessa till., og mundi þá sjálfsagt þessi athugun, sem þar er um að ræða, eða endurskoðun á l. verða látin fram fara fyrir næsta reglulegt þing.