09.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (3041)

56. mál, húsaleigulög

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. treystir sér ekki til að lýsa því yfir, að frv. til nýrra húsaleigulaga verði lagt fyrir Alþingi nú í vetur. Þar með tel ég, að þessi till. mín eigi fullt erindi inn í þingið, og vænti þess, að hún fái fulla þinglega afgreiðslu.

Það var á s.l. vori, að samþykkt voru ný ákvæði inn í lögin um húsnæðismálastofnun, m.a. inn í 7. gr., staflið A, ákvæði um lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum. Þegar búið var að gera þessa samþykkt um þessar leiguíbúðir, þá var hæstv. ríkisstj. það að sjálfsögðu ljóst, að fyrst og fremst bar henni að setja reglugerð um þessar leiguíbúðir, svo sem fyrir er mælt í lögunum, og í öðru lagi var hætt við, að slík reglugerð kæmi til með að stangast á við gildandi ákvæði í húsaleigulögum. Henni átti því að vera það ljóst þegar s.l. vor, að þörf var á ekki aðeins afnámi húsaleigulaga, heldur líka setningu nýrra húsaleigulaga. Ert þetta hefur hæstv. ríkisstj. gersamlega vanrækt að gera, og fyrir það ber að vita hana, með því að þetta var henni þá þegar ljóst. Í stað þess lætur hún í tæka tíð semja reglugerð um hámarksleigu þeirra íbúða, sem um ræðir í þessum staflið 7. gr., og undirbýr afnám húsaleigulaga, en vanrækir gersamlega það, sem mestu máli skiptir fyrir landslýðinn, og það er að láta semja ný húsaleigulög. Það er ekki fyrr en í október, að stigin eru einhver byrjunarspor í þá átt að undirbúa slíka löggjöf. Fyrir þessu er náttúrlega engin afsökun í sjálfu sér. Hér er annaðhvort um vítavert hirðuleysi og skeytingarleysi að ræða eða þá hitt, sem allténd getur verið, að það séu öfl innan hæstv. ríkisstj., sem ekki gráti það, þótt engin húsaleigulög séu til í landinu. Og það er einmitt það, sem ég hef grun um. Ég gruna ekki hæstv. félmrh. um, að hann vilji ekki hafa húsaleigulög eða ákvæði um hámarkshúsaleigu í landinu. En það geta verið önnur öfl meðal hans bandamanna í hæstv. ríkisstj., sem þess óska. Þess vegna er það í sjálfu sér eðlilegt, að hæstv. ráðh. geti ekki lýst yfir, að hann ábyrgist, að frv. til nýrra húsaleigulaga verði lagt fram á þessu þingi. Það er alls ekki víst, að það sé í hans valdi.

Fyrir ári, það var í nóv. 1964, gerði borgarstjórn Reykjavíkur samþykkt í sömu átt og þessi till. fer. En samþykktin, sem borgarstjórn Reykjavíkur gerði þá, fyrir ári, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Borgarstjórn telur rétt að beita sér fyrir því, að sett verði ný lög um leigu íbúðarhúsnæðis, og felur borgarráði að fylgja málinu eftir við Alþ. og ríkisstj. Borgarstjórn leggur jafnframt áherzlu á nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja framkvæmd slíkrar lagasetningar.“

Þetta samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur fyrir einu ári, og ég veit ekki betur en borgarráð hafi skömmu eftir samþykkt þessarar till. snúið sér til hæstv. ríkisstj. og gert henni kunnugt um þessa samþykkt. Ekki bólaði neitt á því, að hæstv. ríkisstj. féllist á þá þörf, sem hér er bent á. En hitt getur hún ekki afsakað sig með, að málið hafi fyrst borið að nú í haust og þess vegna sé tíminn svo naumur, það sé aðeins tími til að afnema lög, en ekki tími til að setja ný lög í staðinn.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég vil aðeins ítreka enn á ný, að í þessum efnum tel ég ný lög vera miklu brýnni nauðsyn en afnám gömlu laganna, og þá hef ég í huga hagsmuni alls almennings í landinu.