09.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (3042)

56. mál, húsaleigulög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. frá því, sem þegar er orðið. Ég fæ ekki séð af málflutningi hv. flm., að nokkurs ágreinings gæti á milli þess, sem ég sagði hér áðan, og ályktunar borgarráðs í þessum efnum. Hann lagði megináherzlu á efasemdir sínar um það, að öfl væru innan ríkisstj., sem vildu engin húsaleigulög hafa og kynnu að una því ástandi bezt, að framboð og eftirspurn réðu, og þau lægju að baki þeirri till. um afnám húsaleigulaganna, sem er í margnefndu frv. um húsnæðismálastofnun ríkisins. Ég vil lýsa því yfir hér með, að ég hef ekki orðið þessarar stefnu var innan ríkisstj. eða stuðningsflokka hennar, nema síður sé, og hef, eins og ég áðan sagði, fulla trú og traust á því, að húsnæðismálastjórn, sem skipuð er fulltrúum allra flokka, liggi ekki á liði sínu um afgreiðslu þessa máls. Og í umr., sem eðlilega hafa farið fram um þessa hluti, hef ég ekki orðið var við það, að neinn maður í stjórnarliðinu hefði uppi þá stefnu, sem hv. flm. vildi vera lála að kynni að vera til, eins og hann nefndi: öfl innan hæstv. ríkisstj., sem vilja engin húsaleigulög. Ég hef ekki orðið þessara afla var og hef, eins og ég sagði áðan, enga ástæðu til að ætla, að þau séu fyrir hendi, en menn vilji hafa um þessa hluti eins og aðra ákveðnar og skýrar reglur. En þegar gömul og úrelt lög fara að standa í vegi fyrir því, að fólk, hvað sem annars í boði er, fái nokkurt leiguhúsnæði, þá er ástæða til að endurskoða fyrri afstöðu sína og sýna ekki lengur þá íhaldssemi að halda í lög, sem allir viðurkenna að löngu eru úrelt og eru, eins og ég sagði í framsöguræðu minni fyrir húsnæðismálafrv. á sínum tíma, þann 18. okt., e.t.v. einungis til þess eins notuð að telja fram til skatts. Mismuninn verða menn að greiða án þess að fá hann til frádráttar á sínum skattaframtölum. Þetta er ekki láglaunafólki til góðs og er engum til góðs.

Það er óþarfi að standa í þeim blekkingum, sem slík úrelt löggjöf kynni að vekja, að hún veiti mönnum yfirleitt nokkurt skjól lengur. Það, sem fyrst og fremst skortir á í dag, er það, að nægilegt framboð leiguhúsnæðis fáist eða a.m.k. mun meira en er í dag, því að það hitnar fyrst og fremst á ungu hjónunum, sem eru að hefja búskap, — hjónunum, sem eiga að dómi þessara aðila, sem yfir þessu húsnæði ráða, of mikið af börnum, fá þess vegna ekki leigt, og gömlu hjónunum, sem vilja e. t. v. minnka við sig húsnæði, vegna þess að börnin eru að heiman farin. Það er ekki í þágu þessa fólks, sem gamalli og úreltri löggjöf er við haldið, og í engra manna þágu lengur. Og svo lengi sem sú rödd heyrist ekki, að menn vilji engin húsaleigulög hafa, eins og hv. frsm. þáltill. þessarar vildi geta sér til um, að væri til innan stjórnarliðsins, hef ég enga ástæðu til að ætla, að það séu neinar slíkar raddir.

Það vita allir menn og er margviðurkennt í ræðum, að ég hygg, fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna, sem setu eiga á Alþ., að húsnæðismálin eru ein aðalundirrótin undir vaxandi verðbólgu, undir vaxandi kröfugerð manna um hærri laun, sem kemur til af því, að þeir geti ekki staðizt þann óhæfilega húsnæðiskostnað, sem er í landinu, bæði á nýju húsnæði og ekki sízt á leiguhúsnæði. Það er því áreiðanlega allra vilji, a.m.k. hefur það reynzt svo í orði og er eftir að reyna á það á borði, að vilja fá úrbætur í þessum málum og þess vegna engin ástæða til að vera með sérstakar efasemdir eða getsakir í þessum efnum.

Ég sé nú á nýútbýttu þskj., þskj. 72, að þar kemur enn eitt atriði til athugunar fyrir hv. heilbr: og félmn., sem væntanlega fær þessa þáltill. til athugunar. Þar er ný útgáfa, 3. tölul., þar sem um ræðir, að hægt sé að setja þá reglugerð, sem ég taldi áðan að væri ekki unnt að setja án niðurfellingar hinna eldri l., með þeirri aðferð, sem þar greinir. Ég vil á þessu stigi, af því að ég er ekki löglærður maður, ekki fullyrða um, að þetta sé ekki hægt, en ég vil mælast til þess við hv. n., að hún athugi mjög gaumgæfilega þetta ákvæði, sem þar er lagt til. Það er áreiðanlega ekki vilji félmrh. eða ríkisstj. að stuðla að neinni frekari óáran í þessum málum en talið er að sé fyrir hendi í dag, nema siður sé, og allar þær leiðir, sem til bóta horfa í þessum málum, ber vissulega að taka til vinsamlegrar athugunar..