20.10.1965
Sameinað þing: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (3049)

16. mál, tannlæknadeild háskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef í raun og veru afar litlu að bæta við það, sem ég sagði áðan í svörum mínum við fyrirspurninni, vildi þó aðeins láta þess getið, sem háskólinn hefur tekið fram við mig nú alveg nýlega í umr., sem fram hafa farið um þetta, að hann leggur áherzlu á í samhandi við lokun tannlæknadeildarinnar á þessu hausti, að á þrem s.l. árum hafi verið teknir mun fleiri inn í deildina en áður tíðkaðist. Ég gat þess áðan, að í fyrra voru teknir inn 15 nýir nemendur, þar áður 11 og árið þar áður 18, þannig að á s.l. þrem árum hafa verið teknir 44 nýir nemendur inn í deildina. Og háskólinn hefur sagt, að jafnvel þó að enginn yrði tekinn í haust, jafnvel þó að sú ákvörðun stæði óbreytt, sem ég þó sannarlega vona að verði ekki, en jafnvel þó að hún stæði óbreytt, hefðu á fjórum árum verið teknir inn í deildina 41 nemendur, þ.e. 10—11 á ári undanfarin 4 ár, sem er mun hærri tala en tekin hafði verið 3 ár þar á undan, að ég ekki tali um, ef tekinn er lengri tími aftur á bak. Þannig má segja, ég kem þessari skoðun háskólans aðeins á framfæri hér til frekari upplýsingar, að jafnvel þó að lokunin fengi að haldast, sem ég endurtek, að ég vona að verði ekki, hefur nemendafjöldinn á undanförnum 4 árum að þessu ári meðtöldu, fjöldi nýrra nemenda, þó verið meiri en á árunum þar á undan.

Varðandi það að síðustu, hvers vegna málið í heild hafi ekki verið athugað fyrr, er það að segja, að mér var ekki kunnugt um þessa ákvörðun tannlæknadeildarinnar fyrr en um mánaðamótin sept.—okt., og hófust þá þegar viðræður milli rn. og háskólans um lausn vandans í því skyni, að hægt væri að breyta þessari ákvörðun. Síðan er ekki liðinn nema rúmlega hálfur mánuður og við því varla að búast, að árangur fáist á svo stuttum tíma, en ég vona, að hann liggi fyrir innan mjög skamms.