27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (3057)

28. mál, vegaskattur

Jón Skaftason:

Herra forseti. Fyrirspurnartími leyfir ekki langar umr., og skal ég ekki brjóta þá reglu, enda þótt mál það, sem hér er verið að ræða, sé mikið viðkvæmnismál mörgum íbúum í mínu kjördæmi. Síðar gefst e.t.v. tækifæri til þess að ræða mál það nánar, sem fsp. þessar eru risnar út af. Ég vil þó við þetta tækifæri bera fram nokkrar fsp. til viðbótar þeim, sem fram eru komnar, til hæstv. samgmrh. Þær eru skriflega fram bornar, og ég hef ekki haft tíma til þess að sýna hæstv. ráðh. þær enn þá, en ég vænti þess þó, að þær séu þess eðlis, að hæstv. ráðh. geti svarað þeim nú. Fsp. eru þessar:

1. Á hve mörgum árum greiðir umferðargjaldið á Reykjanesbraut upp lán þau, sem tekin hafa verið vegna endurbyggingar hennar?

2. Er fyrirhugað að halda áfram innheimtu þessa gjalds, eftir að stofnlánin eru greidd?

3. Er fyrirhugað, að sérstakt umferðargjald verði lagt á umferðina á Austurvegi, þegar sá vegur hefur verið endurbyggður?

4. Er fyrirhugað að taka tillit til sérstöðu íbúa

Vatnsleysustrandarhrepps við greiðslu umferðargjaldsins?

5. Hækkar umferðargjaldið árlegt fastagjald varnarliðsins vegna nota þess af veginum?

6. Við hvaða aðila á Suðurnesjum var fyrirhugað umferðargjald sérstaklega rætt, áður en það var endanlega ákveðið, og hver var afstaða þeirra til þess þá?

Íbúar á Suðurnesjum, sem mest verða fyrir barðinu á þessum vegatolli, eru ekki með mótmælum sínum gegn honum að neita að axla að sínum hluta sanngjarnar byrðar á þjóðina til framkvæmda. Það hafa þeir aldrei gert. Hinu vilja þeir mótmæla, að á þá séu lagðar óhóflegar byrðar og sérstakar umfram aðra landsmenn, eins og gert er með álagningu hins háa vegatolls, sem margt bendir til að bundinn verði við Reykjanesbrautina eina, eins og ræða hæstv. ráðh. hér áðan gaf tilefni til að álita. Á það e.t.v. að verða algild regla í framtíðinni, að notendur hverrar framkvæmdar greiði beint kostnað við hana? Eiga t.d. íbúar Vestfjarða að greiða með vega-, hafna og flugvallagjöldum lánið, sem tekið var í sambandi við Vestfjarðaáætlunina svokölluðu? Suðurnesjabúar vita vel og viðurkenna, að Reykjanesbrautin var dýr. En þeir vita líka, að á undanförnum árum hafa þeir goldið marga tugi millj. kr. til vegagerðar í landinu gegnum benzíngjald, þungaskatt og gúmmígjald, en aðeins fengið brot af þeim fjárhæðum sem greiðslur í sína vegi. Sem litið dæmi þessa vil ég nefna, að á síðustu 10 árum hefur ríkið varið 451 millj. kr. til nýbyggingar vega og brúa. Af þessari fjárhæð hafa 1 millj. 800 þús. kr. gengið í vegina á Suðurnesjasvæðinu sunnan Hafnarfjarðar, þ.e. í Grindavíkurveg og Hafnaveg, og engin einasta brú hefur verið byggð á öllu þessu svæði. Suðurnesjamenn telja sig því vera búna að borga hinn dýra veg, Reykjanesbrautina, að mestu og það, sem á kunni að vanta, muni þeir greiða í náinni framtíð gegnum benzínskattinn og þungaskattinn. Suðurnesjabúar vita enn fremur, að hinn vandaði vegur er m.a. til kominn vegna þess, að Keflavikurflugvöllur mun í framtíðinni verða aðalflugvöllur landsmanna, eins og hæstv. samgmrh. hefur lýst yfir sem sinni stefnu. Með því sparar ríkissjóður sér hundruð millj. kr. útgjöld, því að ekki þarf þá að byggja annan rándýran aðalflugvöll hér á Suðvesturlandi. Sá sparnaður ríkissjóðs mætti að nokkru renna til hinnar nýju brautar, sem er forsenda þess, að þetta geti orðið.

Með þessar röksemdir í huga og fleiri, sem ég hef ekki tíma til að nefna, vil ég mótmæla því gjaldi sem allt of háu, sem tilkynnt var þjóðinni með reglugerð þeirri, sem birt var s.l. laugardag, að ég held. Ég tel enn fremur, að ræða sú, sem hæstv. ráðh. hélt hér áðan, og gjald það hið háa, sem þegar er búið að tilkynna, sýni glöggt, að það var rangt af okkur á hv. Alþ, í árslok 1963 að veita ráðh. svo víðtæka heimild sem gert var með 95. gr. vegal. og rétt sé, að Alþ. ákveði sjálft, hvort, hvenær og hversu mikið umferðargjald sé greitt hverju sinni.

Ég vil svo að endingu taka undir þá röksemdafærslu, sem hv. þm. Geir Gunnarsson hafði hér uppi áðan um brostnar forsendur fyrir þeirri samþykkt, sem gerð var hér varðandi 95. gr. vegal. í árslok 1963.