27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3059)

28. mál, vegaskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á, að ætlunin er auðvitað sú, að fsp. séu um tiltekin atriði, og því er ævinlega fylgt og að þeim atriðum sé svarað. En þessari reglu er ekki nærri því alltaf fylgt af hæstv. ráðh., heldur bæta þeir oft við almennum umr. um óskyld atriði. Þetta er ekki skynsamlegt af hendi hæstv. ráðh., og þeir ættu ekki að temja sér þennan hátt varðandi fyrirspurnir, því að þetta eyðileggur í raun og veru fyrirspurnatimann. Það er ætlazt til þess, að menn fái svör við spurningunum og séu þau svör og þau atriði rædd. Ég vil enn einu sinni benda á þetta. Ég hef oft gert það áður.

Ég mun ekki taka þátt í þeim almennu umr., sem hæstv. vegamrh. hóf hér ófyrirsynju í sambandi við þessa fsp., og kvaddi mér ekki hljóðs til þess. En þó verð ég að segja, að ég tek alveg undir, að með því að strika út 47 millj. kr. framlag af fjárl. tíl veganna er rofið það samkomulag, sem gert var um vegalögin. Ég kvaddi mér hljóðs aðeins út af einu atriði í svörum hæstv. ráðh., og það var þegar hann svaraði 4. lið, sem er svohljóðandi:

„Er fyrirhugað að taka upp þá reglu að innheimta vegaskatt af umferð um aðra þjóðvegi, sem kunna að verða steinsteyptir eða malbikaðir á næstu árum.“

Þessu svaraði hæstv. ráðh. með mjög óljósri yfirlýsingu, sem maður gat helzt skilið þannig, að þetta mundi kannske koma til mála, ef um sambærilega vegi væri að ræða við Keflavíkurveginn. Og ég spyr af þessu tilefni, hæstv. ráðh.: Telur hann malbikaðan veg sambærilegan við Keflavíkurveginn, sem er steyptur?