27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3060)

28. mál, vegaskattur

Axel Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni þeirra umr., sem hér hafa átt sér stað. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að Reykjanesbrautin hefur verið tekin í notkun. Þetta er merkur áfangi í samgöngumálum okkar. Þetta er hin merkasta samgöngubót, sem framkvæmd hefur verið, og vandaðasti vegur, sem byggður hefur verið, og skapar þessu héraði okkar að því leyti til algera sérstöðu.

Ég vil vekja athygli á því, að þrátt fyrir það, að þessari framkvæmd sé lokið milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur, þá er enn eftir nokkur hluti, þ.e.a.s. frá Hafnarfirði til Reykjavíkur austan núverandi byggðar í Garðahreppi og Kópavogi. Þarna er um dýra framkvæmd að ræða, en framkvæmd, sem getur ekki dregizt verulega lengi, og enn frekar mun þrýsta á um framkvæmdir í þessu, þegar hin nýja braut hefur verið tekin í notkun að sunnan að Hafnarfirði. Og þá er einnig rétt að benda á, að þessu til viðbótar mun þurfa innan ekki langs tíma að endurbyggja Hafnarfjarðarveginn, og raunar er gert ráð fyrir því í vegáætlun, í fyrsta lagi að Kópavogi, en síðan er þar mikið óleyst vandamál, sem er brýnt hagsmunamál Kópavogsbúa og raunar allra þeirra mörgu, sem um þá leið fara, að fundin verði farsæl lausn á. Ég vil lýsa því sem minni skoðun, að ég tel eðlilegt um sambærilega vegi að gerð og hvað umferð snertir eins og Reykjanesbrautin er, að umferð á þeim verði einnig skattlögð.