27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (3062)

28. mál, vegaskattur

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. bar sig illa undan því að vera borin á brýn brigðmæli í sambandi við ummæli hans við setningu vegalaga fyrir 2 árum og þá ákvörðun hans nú að fella niður framlag ríkissjóðs til vegamála. Vildi hæstv. ráðh. láta líta svo út, að með orðum sínum við umr. um vegalögin hafi hann aðeins átt við, að heildarframlag til vegamála yrði ekki lækkað, og taldi, að það yrði ekki gert, þar sem það framlag, sem ríkissjóður fellir niður nú, yrði tekið af bifreiðaeigendum í staðinn og heildarframlagið yrði því jafnmikið. Þetta er alrangt hjá hæstv. samgmrh. Orð hans, sem ég las upp áðan, áttu beinlínis og óvefengjanlega við ríkisframlagið eitt, áttu við það, að ríkissjóður mundi ekki lækka sitt framlag. Ég skal til glöggvunar lesa þessi orð hans upp aftur. Hæstv. ráðh. sagði:

„Og einmitt þess vegna er engin hætta á því og alveg útilokað, að ríkisframlagið verði lækkað. Það er alveg útilokað. Og þörfin fyrir aukið vegafé frá ríkissjóði verður fyrir hendi, þótt vegamálunum hafi verið tryggt fé með benzíngjaldi, gúmmígjaldi og þungaskatti.“

En nú liggur það fyrir í dag, að hæstv. samgmrh. hefur ákveðið að fella alveg niður þetta ríkisframlag, sem hann áður margítrekaði að yrði ekki einu sinni lækkað. Ég held, að hv. þm. séu ekki í neinum vafa um, að hér er um brigðmæli að ræða. Það verður svo að vera mál hæstv. ráðh., hvernig hann fellir sig við það að verða uppvís að brigðmælum, og ég tel það heldur meðmæli með honum, að hann skuli kunna því illa. Hann virðist ekki enn vera forhertari en svo.