27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

28. mál, vegaskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ýmsar upplýsingar hafa nú komið fram í sambandi við mál þetta hér í þessum fsp: tíma. M.a. sýnist mér, að það leiki ekki lengur neinn vafi á því, að við herliðið á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið samið enn um neitt sérstakt aukagjald fyrir að fara um þennan veg. Ég tel, að þær upplýsingar, sem hæstv. samgmrh. hefur gefið, taki af öll tvímæli í þessum efnum. Það er sem sagt upplýst, að herliðið hefur borgað fyrir að fara um þennan veg á undanförnum árum 300 þús. kr. Það stendur óbreytt. En ráðh. segir nú, að hann telji að vísu mjög líklegt, að hæstv. utanrrh. muni vilja heita sér fyrir því, að þeir hækki þetta. Ekki nær það nú lengra. Og hann segir, að það geti vel verið, að það takist að hækka þetta t.d. um 65 þús. kr. En um það hefur ekki verið samið. Því her vitanlega að viðurkenna það, sem rétt er, að málin standa nú þannig í dag, að herliðið á Keflavíkurflugvelli þarf ekki að borga neitt sérstakt gjald fyrir að fara um þennan veg, fram yfir það, sem það hefur gert, og á ekki að þurfa að vera með neitt frekara orðaskak um það í blöðum lengur en nú er búið.

Þá er annað atriði, sem að vísu hefur ekki komið hér skýrt fram, en mér sýnist þó á framkvæmdinni, að ekki geti heldur leikið vafi á. En ef skilningur minn er ekki réttur, þá vænti ég, að hæstv. ráðh. leiðrétti það hér. Mér sýnist, að framkvæmdin í sambandi við innheimtu á þessum vegaskatti sé með þeim hætti, að það sé augljóst mál, að öll umferð frá Reykjavík og nærliggjandi svæði að og frá fyrirhuguðu svæði alúmínverksmiðjunnar, sem á að standa rétt norðan við núverandi innheimtuskýli, öll sú umferð á að vera undanþegin þessum vegaskatti. Ef meiningin er að leggja skattinn á þá umferð, þá vildi ég gjarnan, að það kæmi fram hér hjá hæstv. ráðh. En eins og innheimtunni er nú háttað, þá virðist það vera augljóst mál, að öll þessi umferð á að vera undanþegin sérstöku skattgjaldi í sambandi við umferð þarna um veginn.

Eitt atriði er það þó sérstaklega, sem ég vildi vekja athygli á, sem hér hefur komið fram, en það er viðvíkjandi þessum vegaskatti, sem nú á að leggja á t.d. vörubíla, sem fara um þennan veg. Um það verður ekki deilt, eins og hér hafa komið fram upplýsingar um, að 5 tonna bíll, sem fer um þennan veg og flytur í mjög mörgum tilvikum hlassþunga 2 1/2 tonn, eins og hér var nefnt sem sérstakt dæmi, að slíkur bíll samkv. samningum, sem nú eru í gildi á milli vörubilaeigenda og þeirra, sem við þá semja, fær ekki í gjald fyrir ferð eftir þessum vegi fram og til baka nema 596.25 kr. Hann fær ekki hærra gjald. Þetta er umsamið. En þessi bíll mundi eiga að borga 200 kr. fyrir að fara um veginn fram og til baka. Og þó að þessar margumtöluðu norsku reglur, sem menn eru nú ekki ásáttir um, séu notaðar og reiknaður út sparnaður í þessu skyni, þá er alveg augljóst, að hér er verið mjög stórlega með skattinum að ganga á umsamið kaup eða þóknun til þeirra aðíla, sem hér eiga hlut að máli. Þetta fær ekki staðizt. Umferð um veginn á þessum grundvelli leggst niður eða þetta leiðir til verkfalls eða annars slíks. Og það vitanlega nær engri átt, að hæstv. ráðh. svari þessu með því, að hann hafi fundið grein í Tímanum frá einhverjum manni, sem á vörubil og fer um þennan veg, og hann hafi sagt það, þessi maður, að sitthvað mundi nú sparast við það í viðhaldi bílsins að aka eftir veginum og hann fyrir sitt leyti meti það mikils að geta ekið eftir svona góðum vegi. Það er enginn ágreiningur við vörubílstjóra frekar en aðra um það, að það er vitanlega kostur að fara eftir þessum ágæta vegi. En að gróðinn sé í þessu tilfelli sem þessu nemur, það er fjarri öllu lagi. Því held ég, að hvað sem líður prinsip-deilum um það að leggja á þennan skatt og hvernig á að framkvæma hann gagnvart hinum ýmsu aðilum, geti hæstv. samgmrh, ekki skotið sér undan því, að hann verður að athuga um þessa skattlagningu, eins og hún kemur niður á þessum aðilum, því að þetta fær ekki staðizt. Ég efast ekkert um, að það hefur ekki verið meining hæstv. ráðh. að haga skattlagningunni þannig, að talsverður hluti af þeirri umferð, sem um þennan veg á að fara, eigi að leggjast af. Það er með öllu útilokað. (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Já, ég þarf ekki heldur að bæta við þetta neinu fleira, en sem sagt, ég vil vænta þess, að hæstv. samgmrh. sjái nauðsyn á því að endurskoða þetta viðvíkjandi gjaldaákvörðuninni á umferð vörubíla í mjög mörgum tilfellum, og einnig það, að hann gefi hér yfirlýsingar um, hvernig fyrirhugað sé að haga skattinnheimtunni í sambandi t.d. við umferð að þessu fyrirhugaða byggingarsvæði og rekstrarsvæði alúmínverksmiðjunnar, en það kemur hér mikið inn í þetta mál.