27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

28. mál, vegaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir það mjög leitt, að hv. 4. þm. Reykn. þykist ekki hafa fengið nægjanleg svör, og mér þykir það einnig leitt, hversu vanþakklátur hann er, að hann skuli ekki þakka fyrir að hafa fengið svör við 6 fsp., sem hann lagði hér fram á síðustu stundu skrifaðar. það verður svo að vera matsatriði þeirra, sem heyrðu spurningarnar og svör mín við þeim, hvort þeim var vel eða illa svarað. Ég hygg, að hv. þm. hafi fengið nægileg svör að mestu leyti og það sé ósanngjarnt af honum að biðja um öllu meira, miðað við þær aðstæður, sem hér er um að ræða.

Hv. 5. þm. Austf. kom hér í ræðustólinn áðan og fullyrti, að það lægi nú alveg skýrt fyrir, að varnarliðið ætti ekki að borga fyrir umferðina eins og landsmenn. Ég gaf þær upplýsingar hér áðan, að það væri um 28 bíla að ræða, sem gætu notað veginn, og það væri áætlað, að það væru 25 bílar á viku frá varnarliðinu, sem færu um þennan veg. Utanrrn. gaf út tilkynningu í gær um þetta mál. Ég vil til glöggvunar hv. 5. þm. Austf. lesa þessa tilkynningu, vegna þess að ég ætla, að það hafi farið fram hjá hv. þm., vegna þeirra fullyrðinga, sem hann viðhafði hér áðan, og eins það, að hann vildi draga þá ályktun af því, sem ég sagði, að það lægi alveg fyrir. En aftur á móti sagði hv. 4, þm. Reykn., að ég hefði ekki svarað þeirri fsp., sem varðaði varnarliðsbílana, svo að ekki ber nú þessum hv. þm. saman. En tilkynning utanrrn. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gefnu tilefni vill utanrrn. taka fram, að bifreiðar í eigu varnarliðsins, merktar VL, greiða ekki veggjald á hinni nýju Reykjanesbraut í hvert sinn, þar sem varnarliðið greiðir samkv. samningi ákveðna fjárhæð einu sinni á ári til vegagerðar ríkisins. VL-bifreiðar fá sérstaka miða, sem á er prentað gjald það, sem greiða á samkv. verðskrá, og afhenda þá innheimtumönnum veggjalds. Notaðir miðar verða síðan lagðir til grundvallar við árlegt uppgjör varnarliðsins.“

Ég tel algerlega ástæðulaust að ætla, að varnarliðið muni ekki greiða þetta, þótt það sé ekki krafið um það fyrir fram, og utanrrn. gefur ekki út svona tilkynningu algerlega út í bláinn. Það gefur út svona tilkynningu vitanlega vegna þess, að það hefur gert samkomulag við varnarliðið um, að það verði greitt eftir á. Ég geri ráð fyrir því, að þegar hv. þm. hefur þetta í huga, komist hann á aðra skoðun en hann hafði hér áðan, er hann fullyrti, að varnarliðið þurfi ekki að greiða umferðargjald eins og aðrir, sem um veginn fara.