27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (3069)

28. mál, vegaskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þá deilu, sem hér hefur farið fram og snúizt hefur um þann vegaskatt, sem lagður hefur verið á í sambandi við Reykjanesbrautina. En ég vildi aðeins undirstrika það nú í lok þessara umr., að ég held, að það sé öllum ljóst, að þessi vegaskattur leysir ekki þann mikla vanda, sem við er að fást í vegamálunum.

Eins og fram hefur komið í ræðu hæstv. samgmrh., hefur það framlag, sem þjóðfélagið hefur lagt til vegamálanna, farið hlutfallslega lækkandi á undanförnum árum. Hæstv. ráðh. minnti á, að þetta framlag hefði verið um 10% á fjárl. 1958. Á næsta ári er ráðgert, að framlag til vegamálanna samkv. vegáætluninni verði kringum 250 millj. kr. Hins vegar verða fjárl. þá, ef þau eru færð á sama hátt og var 1958, komin yfir 4 milljarða kr., þannig að ef sama hlutfalli væri haldið í þessum efnum og var 1958, þyrfti framlagið til vegamálanna að vera á næsta ári yfir 400 millj. kr. eða um 150 millj. kr. hærra en það verður. Og það munu allir gera sér ljóst, að við slík verkefni er að fást í vegamálunum, að það verður ekki komizt hjá því að auka framlögin til þeirra stórlega frá því, sem nú á sér stað og nú er ráðgert. Það þarf bæði að bæta víða vegamálin í hinum afskekktari héruðum, og ekki sízt, heldur alveg sérstaklega þarf að leggja áherzlu á það að auka stórlega framkvæmdir við hraðbrautir frá því, sem nú er. Og það sjá allir, að þegar um er að ræða skatt, sem á að gefa eitthvað kringum 14 millj. á ári, eins og þessi skattur, leysir hann lítið þann vanda, sem hér er við að fást, og bætir lítið úr þeirri þörf, sem hér þarf að bæta úr. Þess vegna held ég, að það sé óhjákvæmilegt að taka þetta mál upp á alveg nýjum grundvelli, afla með einhverjum hætti, sem þingið þyrfti helzt að koma sér saman um, nýs fjármagns, mikils fjármagns, til vegaframkvæmda, og þá held ég, að það verði hyggilegra að láta ýmsa smáskatta falla niður, eins og nú er ráðgert á sumum sviðum. Við höfum gengið áreiðanlega allt of langt inn á þá braut á undanförnum árum að vera að leggja á alls konar nýja og nýja smáskatta í staðinn fyrir að hafa tekjuöflunina í stærri dráttum og hreinlegri en nú á sér stað, og þess vegna eigum við að leysa þann vanda, sem hér um ræðir, með nýrri, stórfelldri fjáröflun til þessara mála, en ekki þeirri smáskattaleið, sem hér er farið inn á.