27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (3072)

28. mál, vegaskattur

Axel Jónsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. sagði eitthvað á þá leið, að þessi fjáröflun mundi ekki létta af öllum vanda. Það er rétt. En ég tel þó, að það mundi frekar auka á vandann, ef öllum byggingarkostnaði Reykjanesbrautarinnar, sem orðinn er, yrði velt yfir á vegasjóð. Ég segi þetta vegna þess, að við eigum enn, eins og ég gat um áður, mikið eflir ógert við að ljúka Reykjanesbrautinni allt til Reykjavíkur. Við eigum eftir að endurbyggja Hafnarfjarðarveg, og ég vil bæta því við sem áhugamáli þessa héraðs, að við viljum einnig fá sem fyrst byggðan Vesturlandsveg.

Mér finnst margir hv. þm. hafa gert of lítið út því, hve mikill sparnaður hlýtur að vera að aka á steinsteyptum vegi, miðað við þá malarvegi, sem við þekkjum. Hér hafa verið nefnd dæmi um það, að það geti verið nokkuð dýrt fyrir bifreiðastjóra á 5 tonna vörubíl, sem aðeins ekur með hálfan hlassþunga, að greiða þetta gjald. Ég vil minna á hin fjölmörgu tilfelli, þar sem bílstjórar á bílum af þessari stærð eða stærri verða að aka með hálfan hlassþunga einfaldlega vegna þess, að malarvegirnir leyfa ekki annað. Við þekkjum það og það helzt á mesta annatímunum vor og haust, þá verða þeir, sem halda uppi reglubundnum ferðum, að takmarka hlassþungann svo og svo mikið og er máske skipað það af illri auðsyn af hálfu vegamálastjóra að draga svo og svo mikið úr hlassþunganum. Þetta kemur til viðbótar því, að þá er vegakerfið svo og svo mikið til ófært.

Ég held, að allir, sem þekkja til varðandi flutningaerfiðleika hjá þeim, sem þurfa að halda uppi stöðugum ferðum, hljóti að viðurkenna þann geysilega aðstöðumun, sem felst í því að geta allt árið ekið á vegi, sem er jafngóður og hér er raun á, til móts við hina, sem svo og svo oft og stundum dögum eða vikum saman verða að halda uppi ferðum á mjög illfærum vegum og takmarka af þeim sökum svo og svo mikið þann hlassþunga, sem þeir fara með.