03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Fyrirspyrjandi (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir glögg og góð svör, sem voru á þá leið, að ríkisstj., hefði enga ákvörðun tekið um að fresta fyrst um sinn byrjunarframkvæmdum við menntaskóla á Ísafirði. En það fer ekki fram hjá neinum, að hæstv. fjmrh. lítur öðruvísi á þetta mál, og af því tilefni þætti mér vænt um að heyra frá hæstv. menntmrh., hvort einhver ágreiningur innan ríkisstj. muni vera upp kominn um þetta mál. Svo skýlaus voru ummæli hæstv. fjmrh. í fjárlagaræðunni, að það fer ekkert á milli mála að hér hlýtur eitthvað að bera á milli. En þó að svo sé, að engin ákvörðun hafi verið tekin um þetta, er hægt að taka hana enn. Hæstv. ríkisstj. getur sjálfsagt tekið þessa ákvörðun hér eftir, áður en kemur til að framkvæma neitt. Og með hliðsjón af því vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Er hann ekki ákveðinn í því að láta hefja byggingarframkvæmdir á næsta ári fyrir þá fjárveitingu, sem væntanlega verður til þess samþ. á Alþ.?

Hæstv. ráðh. rakti hér þau miklu viðfangsefni, sem fram undan eru við hina eldri menntaskóla, og það er ekkert smáræði, sem þar er eftir að gera. Ef farið verður eftir ummælum hæstv. fjmrh., sem voru á þá leið í fyrrnefndri ræðu, að ekki komi til mála að byrja á þessum menntaskólum á Austurlandi og Ísafirði, fyrr en viðunandi ástand er fengið í sambandi við starfsemi hinna menntaskólanna, og þessu öllu á að ljúka, áður en byrjað verður á hinum nýju, þá held ég, að drátturinn verði nokkuð langur. Þess vegna er það, sem ég endurtek fsp. mína til hæstv. ráðh.: Er hann ekki alveg ákveðinn í því að hefja byrjunarframkvæmdir við þessa menntaskóla á næsta ári fyrir þær fjárveitingar, sem til þess verða samþykktar á Alþingi?