03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3079)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að allir nemendur, sem hefðu tilskilin próf, hefðu fengið framhaldsmenntun í menntaskólunum og að þetta hefði veríð hægt að gera vegna mikilla byggingarframkvæmda á s.l. ári og s.l. árum í menntaskólamálunum. Það mun vera staðreynd, sem ég held að ekki sé neins staðar á móti mælt, að nýja viðbyggingin við menntaskólann, sem hæstv. menntmrh. lýsti hér áðan, sé fyrst og fremst notuð til sérkennslu í ýmiss konar greinum, sem mjög vantaði og var ekki til áður, og að almennum kennslustofum hafi ekki fjölgað verulega við tilkomu þessarar miklu byggingar. Í menntaskólanum í Reykjavík munu nú vera um 1060 nemendur, eftir því sem kom fram við setningu menntaskólans á s.l. hausti, og ég held, að það sé ekki ofmælt, að það verði að tvísetja í flestar, ef ekki allar kennslustofur í menntaskólanum í Reykjavík. Tvísetning er áreiðanlega til mjög mikils óhagræðis fyrir nemendur, ekki sízt fyrir nemendur í menntaskólum, sem þurfa að vera í um 6 kennslustundum daglega, og það er, held ég, samhljóða álit allra skólamanna, að eftirmiðdagstíminn sé lakari til skólasetu heldur en morguninn, og það er áreiðanlega mjög óheppilegt ástand að þurfa að tvísetja í stofurnar með þeim afleiðingum, sem það hefur fyrir nemendurna og dreifingu skólasóknarinnar yfir svo að segja allan daginn.

Nú er byrjað á byggingu nýs menntaskóla, og ég vil mjög fagna því og vonast til þess, að það verði haldið áfram við þá byggingu af fullum krafti. Þó að hæstv. ríkisstj. hafi ekki viljað fallast á að láta samþykkja þau frv., sem ég hef flutt hér á Alþ. um byggingu menntaskóla, skiptir það engu máli. Það er formsatriði. Aðalatriðið er hitt, að fallizt hefur verið á að byggja menntaskólann nýja í Hamrahlíð.

Sagt er, að allir nemendur með tilskildu prófi hafi fengið framhaldsmenntun, og það er rétt vissulega. En fram hjá því verður þó ekki gengið, að það er skoðun margra, að prófin séu höfð afar þung og óeðlilega þung og það séu fjölmargir hreinsunareldar á menntabraut unga fólksins, sem geri jafnvel óhæfilegar kröfur til þess. Ég hef ekki skilyrði til að meta þetta sjálfur, ég er ekki skólamaður. En ég veit, að það er mikið um það, að nemendur falla á milli bekkja í menntaskólanum í Reykjavík. Það er mikið um það, og það er miklu algengara hér í Reykjavík heldur en t.d. í menntaskólanum á Akureyri og að Laugarvatni. Og ég veit líka, að þessi þróun hefur farið vaxandi á síðari árum. Það er meira um það, jafnvel hlutfallslega, að nemendur falli milli bekkja hér í menntaskólanum í Reykjavík heldur en áður var. Hvert samband kann að vera á milli þessa, prófþungans og húsnæðisvandamálanna, skal ég ekki fullyrða neitt um. Það má vel vera, að það séu nemendurnir, sem eru ekki eins góðir og þeir voru áður, eða nemendurnir í menntaskólanum í Reykjavík séu lakari en allra annarra menntaskóla. Þetta vil ég ekkert fullyrða um. En ég vil leggja áherzlu á það, að með hliðsjón af þeirri þörf, sem okkur Íslendingum er á því, að fólk fái aðgang að framhaldsmenntun og að sérhæft fólk fáist til starfa í framleiðslugreinunum, þörf, sem allir hafa keppzt um að lýsa hér, er áreiðanlega brýn þörf á því, að haldið sé áfram við byggingu þess nýja menntaskóla í Hamrahlið, sem nú er byrjað á samkv. lögum frá s.l. þingi, og með þeirri fjárveitingu, sem ráðgerð er í fjárlagafrv. fyrir árið 1966. Þetta vil ég undirstrika mjög rækilega, um leið og ég vil lýsa fullum stuðningi við óskir Vestfirðinga og Austfirðinga um nýjan menntaskóla og vonast til þess, að hægt verði að hefja byggingu þeirra samkv. sömu lögum og sett voru um byggingu menntaskólans í Reykjavík og a.m.k. með þeim fjárveitingum, sem til þeirra eru ætlaðar á fjárlagafrv. fyrir árið 1966, enda er það algerlega í samræmi við þann tillöguflutning, sem ég hef leyft mér að gera hér á hv. Alþingi.