15.12.1965
Neðri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru nokkur orð í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. hefur sagt hér.

Mér þykir hann stilla þessum málum á alleinkennilegan hátt. Það er ábyggilega ekki ágreiningur á milli hans, eftir því sem hans orð féllu hér nú, og mín um það, að það sé eðlilegt, að þeir, sem búa við bezta aðstöðu í raforkumálum, veiti hinum nokkra aðstoð, sem búa við lökust kjör í þeim efnum. En það fer fjarri því, að þetta frv. miði að slíku. Ef stefnan hefði verið sú, þá hefði að sjálfsögðu átt að afla þessara 34 millj. kr. á þann hátt að hækka raforkuna mest hjá þeim, sem nú búa við hagstæðasta raforku, og hækka hana ekkert hjá þeim, sem t.d. eru viðskiptamenn við rafmagnsveitur ríkisins, sem búa við langsamlegasta óhagstæðast raforkuverð. En stefnan er ekki þessi. Stefnan er eingöngu sú, að það á að reyna að afla 35 millj. kr., og það er ákveðið að leggja þetta á raforkusöluna í landinu, fremur en að taka þetta inn með almennum tekjustofnum ríkisins. En þá erum við aftur komnir að því: Er það sanngjarnara, að þessar 35 millj. kr. séu innheimtar aðeins af þeim, sem nota raforku í landinu, heldur en að greiða þessar 35 millj. kr., eins og gert hefur verið hingað til, úr almannasjóði. Það er lengi hægt að segja, að það sé réttmætt, að þeir borgi þessi gjöld, sem þau eru sérstaklega fyrir. Ættum við þá kannske von á því að segja það næst, að það sé alls ekki sanngjarnt að vera að taka úr ríkissjóði, sjóði allra landsmanna, fjármuni til þess að byggja hafnir á nokkrum stöðum á landinu og láta þá menn standa undir hafnarframkvæmdum, sem aldrei geta fengið höfn, og það sé auðvitað ekki sanngjarnt heldur að vera að láta þá menn greiða úr hinum almenna sjóði ríkisins framlög til skólamála, sem eðli málsins samkvæmt vegna búsetu sinnar í landinu geta ekki byggt skóla hjá sér? Slíkur hugsunarháttur sem þessi leiðir okkur þannig, að við leysum þetta allt upp í óteljandi smádilka, og svo á að skattleggja hvern út af fyrir sig.

Ég hélt, að það hefði ekki verið neitt ágreiningsmál, að þegar t.d. 10 ára áætlunin var gerð um rafvæðingu sveitanna á Íslandi, þá var meiningin sú, að ríkisheildin, að allir landsmenn tækju þátt í því að koma þessari rafvæðingu á, og við það voru útgjöldin miðuð. Það vissu allir, að þessar veitur um sveitir landsins gátu ekki staðið undir stofnkostnaði. En sá stofnkostnaður hefur ekki verið afskrifaður nema að nokkru leyti, talsverðum hluta hefur verið velt yfir á rafmagnsveitur ríkisins, og þær hafa þurft að standa undir lánum, sem tekin voru í þessu skyni. En á þann hátt, sem framkvæmdin hefur verið, að taka smám saman upp greiðslur við afgreiðslu fjárl., þá hefur ríkisheildin staðið undir þessum útgjöldum, og það tel ég miklu eðlilegra.

Ef stefnan væri sú að verðjafna á milli hinna ýmsu aðila, sem kaupa raforku, þá vildi ég ljá því fylgi mitt að taka einnig þessar 35 millj. kr., sem hér um ræðir, og jafna þeim þá þannig niður, að þeir beri auðvitað mest af þessari upphæð, sem hafa með aðstoð ríkisins komizt í langsamlega hagstæðasta aðstöðu í sambandi við raforkukaup í þessu landi.

Nei, ég held, að það sé í rauninni alveg þarflaust fyrir hæstv. forsrh. að reyna að dulbúa þetta nokkuð. Það er langhreinlegast að játa það eins og það er. Málin eru þannig, að stefna sú, sem ríkisstj. hefur haldið uppi í efnahagsmálum, hefur leitt til greiðsluþrots hjá ríkinu. Ríkissjóður byrjaði að ryðja af sér ýmsum gjöldum, sem hann hefur borið, og svo er fundið upp á nýjum sköttum og einn af þessum sköttum er nú hér til umr. og á að leggjast á raforkukaupendur í landinu með þeim hætti, sem greinir í þessu frv.

Hér er ábyggilega ekki um að ræða neina verðjöfnunarstefnu. Það væri auðvitað alveg sérstök óbilgirni, ef þannig ætti að halda á þessum málum nú að segja við viðskiptamenn rafmagnsveitna ríkisins, t.d. íbúa í Neskaupstað, í mínu byggðarlagi, að það ætti að segja við okkur sérstaklega: Þið verðið að standa undir þeim mikla kostnaði, sem af því er að leggja rafmagn í sveitir landsins, — vegna þess að svo vill til, að rafmagnsveitur ríkisins annast þetta verk líka og verða að taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar af því. Vitanlega er ekki nokkur sanngirni, að t.d. við íbúarnir í Neskaupstað eigum sérstaklega með hækkandi rafmagnsverði að standa undir þessum gjöldum. Að sínu leyti er það auðvitað réttmætara að leggja þetta á alla þá, sem kaupa raforku í landinu, það er rétt, en ég teldi þó, að hitt hefði verið eðlilegast, að ríkið hefði áfram sem heild staðið undir þessum útgjöldum, af því að með því var í rauninni reiknað, þegar ráðizt var í þessar miklu framkvæmdir á hinum ýmsu stöðum, sem allir vissu að mundu ekki geta staðið undir sér.