03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (3080)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þessa fsp., vegna þess að umr. hafa fallið þannig, lýsa ánægju minni yfir því, að það hefur verið tekinn póstur á fjárlög til þess að byggja menntaskóla á Austurlandi, og er það í samræmi við yfirlýsingu hæstv. menntmrh. þar að lútandi á síðasta Alþ. Ég veit, að aðrir þm. af Austurlandi geta tekið undir þetta og miklu fleiri.

Ég vil ekki trúa því, að það verði tekið aftur með annarri hendinni, sem þannig er rétt með hinni, á þá lund, að þessir peningar, sem veittir eru í menntaskólabyggingu á Austurlandi, verði ekki notaðir í slíka byggingu. Ég vil treysta því, að að því leyti sem skilja mátti, að slíkt kæmi til greina, sé það á einhverri fljótfærni byggt eða misskilningi, enda heyrist mér sem yfirlýsingar hæstv. menntmrh. bendi í aðra átt, þar sem hann lýsti því yfir, að engin ákvörðun hefði verið tekin um að fresta framkvæmdum menntaskólanna á Ísafirði eða Austurlandi.

Ég vil lýsa ánægju minni með þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. Ég vil einnig treysta því, að það verði byrjað á þessum byggingum, jafnskjótt og eðlileg fjárhæð er komin, til þess að hægt sé að byrja sæmilega myndarlega og halda síðan áfram í áföngum.

Ég tel, að það hljóti að vera hægt að sameina það að bæta úr menntaskólaskorti í Reykjavík og á Suðurlandi og byggja jafnframt í áföngum þá menntaskóla, sem Alþ. hefur ákveðið að skuli risa á Austurlandi og á Ísafirði. Og mér mun óhætt að lýsa því yfir fyrir hönd okkar allra Austfjarðaþm., að við getum alls ekki samþykkt það, að menntaskólabygging á Austurlandi verði sett aftur fyrir allar aðrar framkvæmdir, sem ráðgerðar eru í menntaskólamálum um næstu fyrirsjáanlega framtíð. Þess í stað treystum við því, að á málinu verði haldið á eðlilegan hátt og veitt eln fjárveitingin af annarri og haldið áfram með eðlilegum hraða.