03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3086)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara þessari fsp. örfáum orðum. Það er búið að gera ráðstafanir til þess, að héraðsskólinn á Reykjanesi verði að fullu byggður upp eftir hinn hörmulega bruna, sem varð þar nú fyrir skömmu. Fjármagn til þeirra framkvæmda hefur þegar verið tryggt, sumpart af vátryggingarfé, en sumpart með bráðabirgðaláni til framkvæmdanna úr ríkissjóði, þannig að fé þarf ekki að skorta til þess, að uppbyggingin geti gengið með þeim hraða, sem byggingartækni og vinnuhraði frekast leyfir, þannig að óhætt mun vera að fullyrða, að skólinn geti innan skamms tekið til starfa í Reykjanesi og starfað þar með eðlilegum hætti í vetur.