15.12.1965
Neðri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Mér þótti ósköp skemmtilegt að heyra, hvað hæstv. forsrh. virðist bera mjög fyrir brjósti þá fáu landsmenn, sem hafa ekki enn fengið rafmagnið. Ég hugsa, að það séu nú innan við 5%, frekar innan við það en meira af landsmönnum, sem eru utan við rafmagnið enn þá, og ég vildi nú óska þess, að hæstv. forsrh. sem formaður í ríkisstj. ætti hlut að því, að stjórnarvöldin hristi af sér slenið og reyni nú að ljúka rafvæðingunni svo fljótt sem mögulegt er, en það hefur verið allmikill seinagangur á því upp á síðkastið og virðist vera svo nú um þessar mundir.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé mjög ósanngjarnt, að þeir, sem ekki hafa rafmagn, taki þátt í að borga hallann. Þessi skattur er innan við einn af þúsundi af ríkistekjunum, eins og hann er áætlaður. Ég held satt að segja, að þeir, sem eru rafmagnslausir, mundu gjarnan vilja eiga þátt í því að borga þetta litla brot með öðrum, ef það gæti orðið til þess, að rafmagnsveiturnar gætu fyrr en ella orðið við óskum þeirra um að láta þá hafa rafmagnið.

En mér finnst eitthvað ekki að öllu leyti gott samræmi í þessu, sem hæstv. forsrh. sagði um, hvað það væri ósanngjarnt að leggja nokkuð á þessa menn, sem eru án rafmagnsins, — ekki gott samræmi í því og frv., sem hans ríkisstj. leggur fram, því að í fyrstu greinum þessa frv. er gert ráð fyrir því að taka yfir á ríkið af skuldum rafmagnsveitna ríkisins 252 millj. Það eru að vísu tæpar 100 millj. aðeins, sem er sagt að nú eigi að fá greiðslufrest á, það er til raforkusjóðs, en maður getur nú búizt við, að það verði aldrei rukkað inn hjá þeim. Þá eru þetta 252 millj., og ég sé ekki betur en að þessir rafmagnslausu menn eigi að standa undir sínum hluta af því alveg eins og við hinir. Mér finnst ekki vera fullt samræmi í þessu hjá hæstv. ráðh.

Það hefur áður verið bent á það, bæði af mér og öðrum, að hér er náttúrlega ekki um verðjöfnun að ræða, úr því að mismunurinn á raforkuverðinu verður sá sami eftir sem áður, ef frv. verður samþ. óhreytt.

Hæstv. forsrh. sagðist koma hér inn í umr. um þetta mál vegna þess, að raforkumrh. væri erlendis. En ég held, að hæstv. forsrh. hafi ekki áttað sig nógu vel á málinu, áður en hann flutti sína ræðu áðan.