30.11.1965
Neðri deild: 24. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

5. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það til l., sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. nr. 50 frá 24. apríl 1954, um brunatryggingar utan Reykjavíkur, er, eins og fram kemur í grg. þess, flutt að tilmælum fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga. Frv. er komið hingað frá hv. Ed., og var það afgreitt þar ágreiningslaust. Efni þess er í aðalatriðum heimild til handa sveitarstjórnum að leysa til sín eignir eftir ákveðnum reglum, ef brunatjón verður meira en helmingur brunabótamatsverðs og ef sveitarstjórn telur slíkt nauðsynlegt vegna eldhættu eða að hlutaðeigandi húseign verði fjarlægð af skipulagsástæðum.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða efni frv. frekar, en heilbr.- og félmn. leggur einróma til, að það verði samþ. óbreytt.