17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (3110)

205. mál, sjálfvirkt símakerfi

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgmrh. fyrir þau svör, sem hann gaf við báðum liðum fsp. minnar, en harma það hins vegar, að enn skuli verða nokkur dráttur á framkvæmdum frá því, sem fyrirheit hefur verið gefið um í áætlun landssímastjórnarinnar, eins og gengið var frá þeirri áætlun 1960. Það er bert af svörum hæstv. ráðh., að framkvæmdir eru orðnar tvö ár á eftir þeirri síðustu áætlun, og enn meiri er dráttur orðinn frá því, sem fyrst var gefið fyrirheit um sjálfvirkan síma á Ísafjarðarsvæðinu, sem sé þegar

fyrirheit var gefið um, að það skyldi verða eigi síðar en 1963. Nú fáum við fyrirheit um það, að þetta skuli gerast á árinu 1968, og jafnvel gefnar vonir um, eða þannig skildi ég orð hæstv. ráðh., að þetta kynni að geta orðið á árinu 1967 að einhverju leyti. Ég skal hins vegar játa, að Landssíminn hefur haft í mörg horn að líta og hefur vitanlega kosið að haga framkvæmdum í þessu máli þannig að byrja í fjölbýlinu, því að með því móti hefur Landssíminn getað fengið mest fjármagn til þess að sinna framhaldi verkefnisins að öðru leyti, og það var gerð grein fyrir því, að sú yrði röð verkefnanna í áætluninni 1960, og að lokum klykkt út með því, að sveitasímum skyldi verða breytt og þeir tengdir við sjálfvirka kerfið, og nýjar smástöðvar og stækkanir á ýmsum stöðum, svo og viðaukar símarása, hafi verið síðasti kapítulinn í framkvæmd þessarar áætlunar, og átti henni þá að vera lokið 1967 og 1968, en verður nú sýnilega ekki fyrr en 1969—1970. Það hafa fleiri framkvæmdir farið fram úr áætlun, bæði að því er kostnað snertir og tíma, og veit ég, að þarna verður unnið að eins og framast er hægt.

En að lokum vil ég taka undir þau tilmæli hv. 11. landsk. þm., sem hér talaði áðan, Matthíasar Bjarnasonar, að ef mögulegt væri, yrði bætt símaþjónusta kauptúnanna, sjávarútvegsplássanna við Djúp, sem hafa nú mjög takmarkaða símaþjónustu, þ.e.a.s. um skamman tíma sólarhringsins, en hafa brýna þörf fyrir það að hafa betra samband við Ísafjörð, sem hefur nú þegar símaþjónustu allan sólarhringinn.