17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (3111)

205. mál, sjálfvirkt símakerfi

Lúðvík Jósefason:

Herra forseti. Hér hafa verið gefnar upplýsingar af hæstv. samgmrh. um áætlanir Landssímans varðandi meiri háttar símaframkvæmdir á næstu árum. Í þeim upplýsingum kemur í ljós, að enn er það svo, að hlutur okkar Austfirðinga er látinn liggja algerlega eftir. Enn hafa ekki verið gerðar ráðstafanir til þess að kaupa efni fyrir sjálfvirkar stöðvar á Austurlandi, og við erum huggaðir með því nú í dag, þegar komið er að þeim tíma, sem okkur hafði verið lofað að úr framkvæmdum yrði í þessum efnum, að við megum fyrst búast við sjálfvirkum stöðvum á Austurlandi árið 1969, ef þá efni verði keypt nú á næstunni.

Ég vil í tilefni af þessu beina því til hæstv. ráðh., að hann beiti sér fyrir því, að þessi áætlun verði endurskoðuð með tilliti til Austurlands. Ég efast ekkert um það, að hæstv. ráðh. hlýtur að vera það kunnugt, að ástandið í símamálum er verra á Austurlandi en alls staðar annars staðar á landinu og hefur raunverulega farið versnandi þrátt fyrir vissar umbætur í þessum efnum á síðustu árum vegna þess, hverjar breytingar hafa orðið í símaviðtölum og í atvinnuþróuninni á Austurlandi nú á síðustu árum. Ég efast ekkert um, að það er ekki ástæða til þess að bíða með framkvæmdir í símamálum á Austurlandi vegna þess, að símaafgreiðsla þar standi ekki fjárhagslega undir sínum hlut. Ég er ekki í neinum vafa um það, að það eru stöðvar á ýmsum stöðum, sem skila drjúgum hagnaði, og er engin ástæða til þess að draga framkvæmdir í þessum efnum yfir allt Austurland, jafnvel þó að þar kynnu að vera einstaka staðir, sem vegna smæðar sinnar yrðu að bíða nokkuð. En mér sýnist áætlunin vera sú, að fyrst eigi að taka upp alla stóra og smáa staði hér í nánd við Reykjavík og á Vesturlandi og jafnvel að koma á sjálfvirku símasamhandi við sveitir, á sama tíma sem réttmætt þykir að láta Austurland liggja algerlega eftir og hafa miklu lakari þjónustu í þessum efnum en alla aðra menn í landinu, eins og verið hefur um langan tíma. Ég treysti því, að hæstv. ráðh. kynni sér þetta mál með tilliti til þess að bæta nokkuð úr því misrétti, sem Austurland hefur orðið fyrir bæði í þessari áætlunargerð og framkvæmdum þessara mála.