17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

207. mál, fávitahæli

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þessum tveimur fsp. frá hv. 9. þm. Reykv. verður að svara báðum neitandi. Ég skal leyfa mér að gera örstutta grein fyrir málinu að öðru leyti.

Um fávitahæli gilda nú lög nr. 18 frá 1. febr. 1936, eins og hann vék að, og samkv. 1. gr. þeirra laga skal ríkisstj. sjá um, að stofnað verði, jafnóðum og veitt er fé til þess á fjárl., skólaheimili fyrir þá unga fávita, sem eitthvað geta lært, hjúkrunarheimili og í þriðja lagi vinnuhæli. Á vegum ríkisins hefur enn sem komið er einungis verið reist hjúkrunarhæli, og var það fyrst stofnsett á Kleppjárnsreykjum, eins og kunnugt er, en er nú í Kópavogi, þar sem hugsað er að hafa í framtíðinni aðalfávitahæli ríkisins. Þarna hafa átt sér stað mjög merkar framkvæmdir, sem fyrst og fremst hafa orðið mögulegar vegna þess, að á undanförnum árum hefur verið tryggt fé til þessara framkvæmda með sérstökum hætti, svo sem kunnugt er. Veruleg stækkun á þessu hæli átti sér stað nú ekki alls fyrir löngu, þegar tekið var til starfa í nýjum húsakynnum, og hygg ég, að allur aðbúnaður þar sé með ágætum og þeim til mikils sóma, som að því hafa unnið. Á vegum einkaaðila hafa verið stofnsett fávitahæli að Sólheimum í Grímsnesi, og er það elzt þeirra fávitahæla, sem nú eru rekin, að Skálatúni í Mosfellssveit, Tjaldanesi í Mosfellssveit og Lyngási í Reykjavík. Hið síðast talda er stofnað og rekið af Styrktarfélagi vangefinna og ætlað aðallega börnum, sem mörg hvar njóta þar nokkurrar kennslu.

Eftirlitsnefnd sú, sem 6. gr. l. um fávítahæli gerir ráð fyrir til að hafa eftirlit með fávitaheimilum og hælum, hefur, eins og ég sagði áðan, aldrei verið skipuð og ekki heldur sett reglugerð sú, sem 8. gr. l. gerir ráð fyrir að sett verði um skýrslusöfnun, aðgreiningu og eftirlit með fávitum og hælum þeirra.

Síðan þessi lög frá 1936 um fávitahæli voru sett, hefur orðið mikil þróun í fræðslumálum hér á landi, og gera lög nr. 34 frá 1946, um fræðslu barna, 5. og 6. gr., ráð fyrir, að börnum, sem annaðhvort skortir hæfileika eða heilsu til að stunda nám í almennum barnaskólum, skuli séð fyrir vist í skóla eða stofnun, sem veiti þeim uppeldi og fræðslu við þeirra hæfi. Þar sem sveitarfélög og ríkissjóður standa sameiginlega undir kostnaði af fræðslu barna, en l. um fávitahæli gera ráð fyrir ríkisreknum skólaheimilum fyrir fávita, sem eitthvað má kenna, eru komin upp vandamál í sambandi við fyrrnefnt Lyngáshæli um, hvernig greiðslu kostnaðar af fræðslu barna, sem þar dveljast, skuli hagað. Fyrir tilstuðlan menntmrn. var úr því leyst til bráðabirgða, og jafnvel lagði menntmrn. til við dóms- og kirkjumrn. með bréfi, dags. 27. maí s.l., að l. um fávitahæli verði í heild endurskoðuð hið allra fyrsta.

Ég hef síðan sem ráðh. heilbrigðismála ákveðið að skipa n. til þess að endurskoða þessi lög. Ég hygg, að æðimargt hafi breytzt í viðhorfi manna til þess, hvernig þessum málum skuli skipað, á þessum næstum 30 árum síðan l. voru sett, og eins og kunnugt er, hafa þau ekki nema að litlu leyti verið virk og þá kannske eingöngu og sér í lagi ekki þangað til nú síðustu árin af margs konar fjárhagsörðugleikum. N., sem hefur verið falið það verkefni að endurskoða l. í heild, er skipuð þremur mönnum og mun taka til starfa á næstunni. Í henni eiga sæti Benedikt Tómasson skólayfirlæknir, sem verður jafnframt formaður n., Björn Gestsson, sem er forstöðumaður Kópavogshælisins, og Hrafn Bragason, sem er tilnefndur af menntmrn.