17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

206. mál, sérleyfissjóður og umferðarmiðstöð

Fyrirspyrjandi (Ingi R. Helgason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 68 leyft mér að flytja fáeinar fsp. til hæstv. samgmrh, um sérleyfissjóð og umferðarmiðstöð og vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa þær upp:

„1. Hversu mikið fé hefur innheimzt í sérleyfisgjöldum og hópferðagjöldum, frá því að sú innheimta byrjaði til október 1965? 2. Á hvern veg hefur því fé verið varið, sem spurt var um í 1. fsp.? 3. Hvenær var byrjað að byggja umferðarmiðstöðina í Reykjavík? 4. Hversu mikið fé hefur Reykjavíkurborg lagt af mörkum til byggingar umferðarmiðstöðvarinnar? 5. Hver var byggingarkostnaður umferðarmiðstöðvarinnar orðinn 1. okt. 1965: a) í heild, b) miðað við rúmmetra? 6. Hvað er áætlað, að kostnaðurinn verði mikill við þær framkvæmdir, sem ólokið er við byggingu umferðarmiðstöðvarinnar, og hvenær má búast við því, að hún verði fullfrágengin? 7. Hverjum hefur verið veitt aðstaða til rekstrar hótels og verzlunar í umferðarmiðstöðinni? 8. Hver verður aðstaða sérleyfishafa í umferðarmiðstöðinni og hvað þurfa þeir að greiða fyrir þá aðstöðu á mánuði? 9. Má búast við því, að byggingarkostnaður umferðarmiðstöðvarinnar leiði til fargjaldahækkunar á sérleyfisleiðum?“

Ég hef leyft mér að hafa þessar fsp. svona sundurgreindar í staðinn fyrir 1—2 almennar spurningar um sérleyfissjóð og umferðarmiðstöð. Þessar fsp. skýra sig sjálfar, og þarf ég ekki að fylgja þeim úr hlaði með mörgum orðum.

Í tilefni af hinni skeleggu ræðu hv. 4. þm. Vestf. hér áðan um útboð og tilboð í verk, bæði á vegum hins opinbera og einstaklinga, vildi ég leyfa mér að biðja hæstv. samgmrh. að upplýsa, um leið og hann svarar þessum fsp. mínum, hvort það verk að byggja umferðarmiðstöðina í Reykjavík hafi á sínum tíma verið boðið út, og ef svo er ekki, með hvaða rökum það var gert.