17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

206. mál, sérleyfissjóður og umferðarmiðstöð

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. þær, sem hér er um að ræða, eru í mörgum liðum, og er það út af fyrir sig ekkert til aðfinnslu, en ég vil leitast við að svara þeim eftir réttri röð.

1. spurning: „Hversu mikið fé hefur innheimzt í sérleyfisgjöldum og hópferðagjöldum, frá því að sú innheimta byrjaði til 1. okt. 1965.“ Svar: Innheimta sérleyfis- og hópferðagjalda er kr. 13 418113.62, auk þess vaxtatekjur 973 855.36 kr. og endurgreiddur kostnaður 72 578.84 kr. Þetta verður 14 464 557.81 kr.

2. spurning: „Á hvern veg hefur því fé verið varið, sem spurt var um í 1. fsp.?“ Svar: Það er sundurliðað hér í skýrslu frá póst- og símamálastjóra. Því hefur verið varið þannig: Framlag til Ferðaskrifstofu ríkisins kr. 2 143 055.17. Kostnaður við framkvæmd sérleyfislaga 6 849 624 kr. Styrkur til gistihúsa 1942—1948 399 894.40 kr. Eftirgefin sérleyfisgjöld 16 500 kr. Afskrifuð skuldabréf 45 000 kr. Greitt til byggingar umferðarmiðstöðvar 4 millj. 570 þús. Lán til gistihúsa 314 643 kr. Mismunur 125 832.25, sem er í sjóði.

3. spurning: „Hvenær var byrjað að byggja umferðarmiðstöðina í Reykjavík?“ Bygging umferðarmiðstöðvarinnar hófst í aprílmánuði 1960.

„4. Hversu mikið fé hefur Reykjavíkurborg lagt af mörkum til byggingar umferðarmiðstöðvarinnar?“ Svar: Reykjavíkurborg hefur lagt fram 1 millj. kr. til byggingarinnar sjálfrar.

„5. Hver var byggingarkostnaður umferðarmiðstöðvarinnar orðinn 1. okt. 1965: a í heild, b. miðað við rúmmetra?“ Hinn 1. okt. 1965 var búið að greiða 16 millj. kr. vegna byggingarkostnaðar. Þá voru ógreiddar um 2 millj. kr. vegna framkvæmda síðustu 2—3 mánuðina. Í heild skiptist byggingarkostnaðurinn nokkurn veginn að jöfnu milli húss og lóðar. Rúmtak hússins er nokkuð á 9. þús. rúmmetra, byggingarkostnaður sjálfs hússins nálægt 1200 kr. á rúmmetra. Skipt var um jarðveg á um það bil 1400 fermetra svæði, og mun meðaljarðvegsþykkt um 2 metrar. Steypt og malbikuð bilastæði eru um 6000 fermetrar.

„6. Hvað er áætlað, að kostnaðurinn verði mikill við þær framkvæmdir, sem ólokið er við byggingu umferðarmiðstöðvarinnar, og hvenær má búast við því, að hún verði fullfrágengin?“ Þegar framkvæmdum lýkur, sem búizt er við að geti orðið á næstu 4—6 mánuðum, má ætla, að byggingarkostnaður að meðtöldum vöxtum á byggingartíma verði 19 millj.

„7. Hverjum hefur verið veitt aðstaða til rekstrar hótels og verzlunar í umferðarmiðstöðinni?“ Sumarið 1964 var aðstaða til veitingarekstrar auglýst laus til umsóknar. Gerður hefur verið samningur við Hlað h/f um, að hlutafélagið leigi þessa aðstöðu. Það bárust nokkur tilboð, og þetta var sá aðili, sem tiltækilegt var að semja við.

„8. Hver verður aðstaða sérleyfishafa í umferðarmiðstöðinni, og hvað þurfa þeir að greiða fyrir þá aðstöðu á mánuði?“ Sérleyfishafar fá til afnota afgreiðsluaðstöðu í aðalsal, rúmgóða vörugeymslu fyrir smærri vörusendingar og 5 skrifstofuherbergi auk bílastæða úti við. Mánaðarleigan er ákveðin 10 þús. kr. á mánuði.

„9. Má búast við því, að byggingarkostnaður umferðarmiðstöðvarinnar leiði til fargjaldahækkunar á sérleyfisleiðum?“ Svar: Til fargjaldahækkana mun ekki koma vegna flutnings sérleyfishafa í stöðina, og stefnt er að því, að sérleyfisgjald þurfi ekki að hækka frá því, sem nú er.

Mér þykir rétt að gera örstutta grein fyrir því, hvers vegna ýmsu af tekjum sérleyfissjóðsins hefur verið varið eins og áður var lýst og með hvaða heimildum það var gert.

Með 1. um Ferðaskrifstofu ríkisins, nr. 33 1. febr. 1963, var, sbr. 7. gr. þeirra l., ákveðið, að 5% stimpilgjald af brúttóupphæð afhentra farmiða á sérleyfisleiðum skyldi renna til starfsemi

Ferðaskrifstofunnar. Þegar áðurnefndum l. um Ferðaskrifstofu ríkisins var breytt með 1. nr. 20 12, marz 1947, var eins og upphaflega kveðið svo á í 13. gr. hinna nýju l., að heimilt væri að greiða kostnað við rekstur Ferðaskrifstofunnar af sérleyfisgjaldi bifreiða, sem var innheimt samkv. l. um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum. Á þessum lagaheimildum grundvallast greiðsla á því framlagi til Ferðaskrifstofu ríkisins, sem um ræðir á yfirliti pósts og síma. Í sambandi við meðferð skipulagslaganna á Alþ. 1945 var þar um það rætt og því ómótmælt, að fé mætti veita, eins og þá hafði verið gert að undanförnu, til þess að styrkja gistihús á landsbyggðinni til þess að láta gera á þeim æskilegar og nauðsynlegar umbætur. Á þessu eru byggðar styrk- og lánveitingar þær til gistihúsa, sem um ræðir í téðu yfirliti pósts og síma, samtals um 400 þús. kr. í styrki og lán, að eftirstöðvum rúmar 300 þús. kr.

Mér þykir rétt að geta þess, að það er gert ráð fyrir, að sérleyfishafar flytji í þessa nýju byggingu um næstu helgi. Það er, eins og fram var tekið, ekki alveg fulllokið við þessa framkvæmd, og er það aðallega suðurglugginn, sem ekki er kominn í. Hefur staðið á verksmiðjunni að smíða hann, og þess vegna er því ekki lokið. En það er gert ráð fyrir, að því verði lokið á 1. eða 2. mánuði næsta árs.

Um hina munnlegu fsp., sem hv. fyrirspyrjandi varpaði hér fram áðan, hvort þetta verk hefði verið boðið út, minnir mig, að hlutar af því hafi verið boðnir út, en ekki verkið í heild. En Almenna byggingarfélagið hefur unnið að miklum hluta af þessu, að grefti og séð um nokkurn hluta af byggingunni. Hins vegar var í upphafi skipuð byggingarnefnd, sem hefur séð um framkvæmdir allar við bygginguna.

Þessi bygging er allmikið hús, eins og lýst hefur verið, og verður þarna mikil og breytt aðstaða fyrir sérleyfishafa frá því, sem verið hefur. Í húsinu verður veitingastofa, eins og fram er tekið. Þar verður einnig bankaútibú. Þar er aðsetur Umferðarmálaskrifstofunnar, og sérleyfishafar hafa þarna einnig aðstöðu með skrifstofuhúsnæði.