17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (3130)

208. mál, sjónvarpsmál

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu nokkurs virði að heyra það, að formaður útvarpsráðs lítur svo á, að það sé eðlilegt, að þessi starfsemi falli undir útvarpslögin. En ég get nú ekki talið hann neinn hæstarétt um það. Og þar sem hæstv. menntmrh. lýsti því yfir, að talið hefði verið, að heimild til sjónvarpsrekstrar hefði falizt í útvarpslögunum, bendir það til þess, að einhver athugun hafi farið fram á þessu og einhver önnur en þeirra sjónvarpsnefndarmanna. Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvaða lögfræðingar t.d. hafa athugað það mál og hvaða lögfræðingar hafa látið uppi það álít, að ekki þyrfti neina lagaheimild til þess að hefja sjónvarpsrekstur? Ég teldi fróðlegt að sjá svör þeirra þar um.

Sönnun sú, sem hv. þm. Benedikt Gröndal, 5. þm. Vesturl., hugðist færa fram hér fyrir sínu máli, var harla léttvæg, vegna þess að hann tók að bera saman Landssímann og útvarpið og spurði, hvort Landssiminn þyrfti þá ekki nýja lagaheimild til þess að flytja myndir. Þetta er af miklum misskilningi sagt, vegna þess að samkv. lögunum um fjarskipti hefur Landssiminn einkaleyfi á öllum fjarskiptum, sem ekki eru undan tekin. Og það eina, sem undan er tekið, er útvarpsreksturinn. Það er takmörkun, sem þar í felst. Þetta hygg ég, að flestir muni vera sammála um, ef þeir athuga þetta mál.

En það, sem ég gerði athugasemd við, var í raun og veru hara þessi yfirlýsing hæstv. menntmrh., að það væri ekki meiningin nú á næstunni að leggja fram neitt lagafrv. um þetta efni. Ég var alls ekki að saka hann eða aðra fyrir neitt, sem gert hafði verið í þessu efni, og það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Vesturl., að auðvitað hefur Alþingi óbeint lagt blessun sína yfir það, sem gert hefur verið í málinu. En það haggar ekki því, að auðvitað hafa menn gert ráð fyrir því, að á sínum tíma yrði gengið frá þessu á formlegan hátt og lagt fram lagafrv. um þetta mál, hvort sem það yrði viðbót við eða breyting á útvarpslögunum eða ný, sjálfstæð lög. Að gefnu tilefni frá hv. þm. tek ég það líka fram, að ég álít út af fyrir sig eðlilegt, að þessi starfsemi, sjónvarpsrekstur og útvarpsrekstur, sé undir einum og sama hatti, svo að hann þarf ekki að bera neinn kviðboga í því efni fyrir minni afstöðu. Og það er sú leið, sem farin hefur verið í nágrannalöndum, að ég held. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið gert, án þess að leitað hafi verið lagaheimildar eða útvarpslögin þar hafi verið skýrð á þá lund, sem hann vili vera láta. Ég skal þó taka það fram, að ég hef ekki rannsakað það mál. En alveg án tillits til þess, hvernig þeir hafa hagað sér í þessu efni, álít ég, að okkar vegur sé þarna alveg ljós og útlátalítill, að ganga frá þessu formlega og láta semja frv. um þetta og leita lagaheimildar, hvort sem það verður gert sem viðauki við útvarpslögin eða breyting á þeim. Og hv. formaður útvarpsráðs svaraði ekki þeirri fyrirspurn, sem ég beindi reyndar til menntmrh., en ég gæti trúað að snerti hann ekki minna, en hún var á þá lund: Hvernig hugsar útvarpsráð sér að fara að innheimta afnotagjöld fyrir sjónvarp án þess að leita lagaheimildar þar til?