24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (3136)

209. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Spurt er: „Ætlar ríkisstj. ekki að endurflytja frv. til laga um lánasjóð sveitarfélaga, sem kom fram sem stjórnarfrv. á síðasta þingi, en var af einhverjum ástæðum ekki fylgt eftir til afgreiðslu? Og ef hún ætlar að endurflytja frv., hvers vegna lætur hún það dragast?“

Svarið við þessari spurningu er það, að í sambandi við athugun á skipulagningu stofnfjáröflunar vegna lánasjóðs atvinnuveganna og framkvæmdaáætlunar ríkisins hafa úrræði til stofnfjáröflunar sveitarfélaga einnig verið til sérstakrar meðferðar. Fyrr en þessari heildarathugun stofnlánamálanna er lokið, er ekki tímabært að taka um það ákvörðun, í hvaða formi lánamál sveitarfélaganna verða lögð fyrir Alþingi. Vænta má niðurstöðu heildarathugunar stofnlánamálanna á næstunni.