08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (3145)

203. mál, endurskoðun laga um hlutafélög

Fyrirspyrjandi (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 55 að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. dómsmrh., hvað líði endurskoðun l. um hlutafélög.

Lög um hlutafélög eru frá árinu 1921, og á þeim hafa síðan óverulegar breytingar verið gerðar. Þau munu á sínum tíma að mestu leyti hafa verið samin eftir dönskum l. frá 1917. Síðan nefnd löggjöf var sett, hefur að sjálfsögðu fengizt mikil reynsla, bæði hér á landi og erlendis, um lagareglur, er að hlutafélögum lúta, og þá um leið varðandi kosti og galla hlutafélagsformsins. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að samþ. voru í Danmörku ný lög um hlutafélög árið 1930 og skipuð var n. af Norðurlandaþjóðunum, — Íslendingar munu þar þá ekki hafa verið þátttakendur, –til að gera till. um samræmda löggjöf fyrir öll löndin á þessu sviði. Á árinu 1944 voru sett í Svíþjóð mjög ýtarleg lög um hlutafélög.

Á Alþ. 1948 var samþ. ályktun þess efnis að skora á ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á l. nr. 77 frá 1921, um hlutafélög, og l. nr. 42 frá 1903, um verzlanaskrár, firmu og prókúruumboð. Samkv. þessari ályktun skipaði þáv. dómsmrh. hæstaréttardómarana Árna Tryggvason og Þórð Eyjólfsson til að framkvæma þessi störf. Gengu þeir síðan frá frv. til hlutafélagalaga, sem lagt var fram á Alþ. 1952, en var þá ekki afgreitt. Á næsta þingi var frv. svo aftur lagt fram, afgr. til Nd. með nokkrum breytingum, en dagaði uppi. Frv. hæstaréttardómaranna mun að verulegu leyti hafa verið samið eftir sænsku l. frá 1944, en tillögugerð þó við það miðuð, að hún hæfði sem bezt íslenzkum staðháttum. Frv. er ýtarlegt, í einum 16 köflum.

Miðað við þær stórfelldu breytingar í þjóðfélagsháttum okkar Íslendinga síðustu áratugina, má segja, að l. um hlutafélög frá 1921 hafi reynzt vel. Þau eru rúmt orðuð og ná þannig yfir flest tilvik, sem fyrir koma. Hins vegar þarfnast þau nú endurskoðunar. Með bættum efnahag almennings má gera ráð fyrir, að þeim þjóðfélagsborgurum fjölgi, sem gerast vilja beinir þátttakendur í atvinnurekstri. En þá ber nauðsyn til að tryggja sem bezt hagsmuni þessara aðila, sem koma til með að nota sér hlutafélagsformið. Við þá endurskoðun ber að hagnýta sér okkar eigin reynslu og reynslu annarra þjóða. Því er spurt, hvort ekki sé að vænta frv. um þetta efni, sem þá að sjálfsögðu mundi miðast við allar aðstæður, eins og þær eru nú í dag, sem mjög eru breyttar frá því, sem var fyrir 40 árum.