16.12.1965
Efri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. raforkumrh. þykir mér rétt að fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum í þessari hv. d. En frv. hefur verið afgreitt í hv. Nd. og var samþ. þar með smávægilegum breyt., sem hafa ekki nein efnisleg áhrif til breytingar á kjarna málsins.

Svo sem öllum hv. þdm. er kunnugt, hefur það lengi verið mikið vandamál að fá grundvöll undir fjárhag rafmagnsveitna ríkisins, en það eru í senn héraðsrafmagnsveitur ríkisins, sem hafa dreifikerfin út um sveitirnar, og rafmagnsveitur ríkisins, sem eiga orkustöðvarnar, og stofnlínurnar, er tengja héraðsveiturnar saman, en þetta er fjárhagslega rekið sem eitt fyrirtæki. Hallinn á rekstri rafmagnsveitna ríkisins hefur farið vaxandi ár frá ári, og er nú svo komið, að gert var ráð fyrir, að hallinn á árinu 1966 mundi verða um eða yfir 50 millj. kr. Þetta hefur þróazt með þeim hætti undanfarin ár, að rafmagnsveiturnar hafa með vaxandi halla ekki verið færar um að standa undir þeim lánum, sem til þeirra hafa verið tekin, og hafa lán þessi með stórauknum þunga og sívaxandi fallið á ríkisábyrgðasjóð. Ríkisábyrgð er fyrir flestum lánum rafmagnsveitnanna, að öðru leyti en þeim lánum, sem beint hafa verið veitt úr ríkissjóði, en það eru aðallega lán, sem hafa verið fólgin í því, að rafmagnsveitunum hafa verið lánaðir tollar, og þannig hafa myndazt allverulegar skuldir. Á síðasta þingi var horfið að því ráði að taka í fjárl. rekstrarhalla rafmagnsveitnanna, og við undirbúning fjárlaga nú var gert ráð fyrir, að mundi þurfa að taka a.m.k. 40 millj. kr. í fjárlög, til þess að rafmagnsveitunum væri kleift að standa straum af hallarekstri sínum.

Það getur ekki með neinu móti talizt eðlilegt, og er raunar fráleitt fyrirkomulag að taka hallarekstur fyrirtækis sem þessa inn í fjárl., og það þótti því sjálfsagt, ekki hvað sízt vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs, að hverfa frá því, sem gert var í fyrra, að taka halla rafmagnsveitnanna á ríkissjóðinn, og yrði heldur leitað þeirra úrræða, sem eðlileg verða að teljast, að halli þessarar deildar rafvæðingar landsins yrði borgaður með einhverjum hætti af raforkunotkuninni í landinu. Þetta er að vísu sérstakt fyrirtæki, en engu að síður er þetta þó þáttur í allsherjarrafvæðingu landsins og sá þátturinn, sem örðugastur er og örðugastur hlýtur alltaf að vera, hefur erfiðasta rekstrarafkomu, og það verður að teljast ekki ósanngjarnt, að vanda þessarar deildar rafvæðingarinnar verði mætt með því, að fram fari nokkur verðjöfnun eða skipting fjárhagsvandræða þessarar deildar yfir á raforkunotkun í landinu almennt.

Það hafa lengi verið uppi hugmyndir um það og eru enn, að það sé eðlilegt, að á sviði rafvæðingarinnar, eins og hefur gerzt á fleiri sviðum í þjóðfélaginu, verði tekin upp verðjöfnun, þannig að þetta verði allt rekið efnislega sem eitt fyrirtæki, og með þeirri niðurstöðu, að þær deildir rafvæðingarinnar, sem bezta afkomu hafa, sem eru að sjálfsögðu í þéttbýlinu, tækju á sig að standa undir erfiðleikum strjálbýlisveitnanna.

Með þessu frv., sem hér er lagt fram, er ekki gert ráð fyrir, að horfið verði að verðjöfnun í hinum venjulega skilningi þess orðs á þann veg, að þessu sé öllu steypt saman og allsherjar jöfnunarverð verði sett á raforku. Það er ekki gert ráð fyrir með þessu frv. að hagga þeim hlutföllum, sem eru á milli raforkuverðs frá hinum ýmsu orkuveitum landsins, en það verð er allmjög mismunandi, heldur er lagt til, að jöfn upphæð sé á lögð með því jöfnunargjaldi, sem hér er um að ræða, á þann veg, að það er ekki um prósentugjald að ræða, heldur miðast gjaldið við afl og orku og skal vera 2000 kr. á árí á kw. og 2 aurar á kwst., þannig að gjaldið hefur ekki áhrif á þau greiðsluhlutföll, sem nú eru. En það er ekki fjarri lagi, að rafmagn frá rafmagnsveitum ríkisins sé um 50% dýrara en t.d. hér frá Sogsvirkjuninni, og það var ljóst öllum, að það var með engu móti hægt að jafna þennan halla með því að hækka enn þá raforkuverð frá rafmagnsveitum ríkisins, þannig að hallanum yrði náð á þann veg. En þessi hlutföll sem sagt breytast ekki þrátt fyrir þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, þannig að hér er ekki um verðjöfnun að ræða í þeim skilningi orðsins, þótt segja megi, að hér sé engu að síður á vissan hátt um verðjöfnun að ræða á þann veg, að það er gert ráð fyrir, að allir landsmenn, sem raforku njóta, greiði hluta af þeim vanda, sem hér er við að glíma. Jafnframt því að gert er ráð fyrir með því gjaldi, sem hér er lagt til að leggja á, að afla 35 millj. kr. til þess að mæta hallarekstri rafmagnsveitna ríkisins, eru sömuleiðis gerðar ráðstafanir til að létta stofnkostnaði mjög verulega af veitunum, þannig að lagt er til, að beinlínis séu gefnar eftir um 167 millj. kr., sem eru afborganir og vextir af skuldum veitnanna við ríkissjóð og raforkusjóð 13.8 millj., eftirgjöf á skuldum við ríkisábyrgðasjóð, en það er það fé, sem ríkisábyrgðasjóður hefur lagt út, vegna veitnanna, 96.5 millj., og að gefnir verði eftir bæði höfuðstóll og vextir lána, sem veitt hafa verið úr ríkissjóði, en það eru, eins og ég hef áður sagt, fyrst og fremst tollalán, 57 millj. kr. Þar að auki er gert ráð fyrir því, að um allmargra ára bil verði veittur greiðslufrestur bæði á afborgunum og vöxtum af lánum raforkusjóðs, sem er önnur deild rafvæðingarkerfisins, og þær skuldir eru nú tæpar 100 millj. kr. Með þessum ráðstöfunum öllum er gert ráð fyrir því, að rafmagnsveiturnar geti risið undir sínum fjárhagsörðugleikum. Að vísu má reikna með því. að veiturnar þurfi að auki að hækka eitthvað raforkuverðið, sem getur ekki talizt óeðlilegt, vegna þess að það mun einnig gerast með yfirleitt allar orkuveitur, að þær verða að hækka sitt raforkuverð vegna aukins tilkostnaðar, og er að sjálfsögðu ekki eðlilegt annað en rafmagnsveitur ríkisins þurfi einnig að gera það að sínu leyti.

Það er alveg ljóst, að rafvæðingunni er þann veg háttað varðandi sveitaveiturnar, að það er engin von til þess, að þær fái risið undir neinum stofnkostnaði, og þess vegna hefur sú stefna verið mörkuð og henni hér framfylgt nú í ár, að dreifiveitur um sveitir eru eingöngu lagðar fyrir bein fjárframlög úr ríkissjóði, sem byggist á þeirri reynslu, sem fengin er, að ekki er neinn möguleiki til þess, að héraðsveiturnar geti staðið undir neinum lánum. Og það er ætlunin, að dreifing raforku um sveitir landsins verði hér eftir eingöngu við það miðuð, að þar sé um bein framlög að ræða frá þjóðarheildinni til að veita strjálbýlinu þessa mikilvægu þjónustu. Það ætti því ekki að þurfa að koma til, að viðbótarvandi skapaðist fyrir rafmagnsveitur ríkisins af þessum sökum, þar sem stofnkostnaður er þannig lagður út að fullu, og þarf ekki að standa undir viðbótarlánum að því leyti til. Gert er ráð fyrir, að eins og ég áðan sagði, að þetta framlag verði 35 millj. kr. og fari ekki upp úr því marki. En eftir því sem hagur veitnanna batnar, og það á hann að gera, eftir því sem lánin greiðast niður, er gert ráð fyrir, að þetta gjald lækki.

Ég held, herra forseti, að ég hafi að meginhluta til gert grein fyrir þeirri hugsun, sem liggur að baki þessu frv., og sé ekki ástæðu til þess að fara um það fleiri orðum, nema sérstakt tilefni gefist til, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.