16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3169)

86. mál, félagsheimilasjóður

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hinn 13. maí 1964 var samþ. á Alþ. ályktun um endurskoðun l. um félagsheimili og um eflingu félagsheimilasjóðs. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á gildandi l. um félagsheimili með það fyrir augum, að félagsheimilasjóður verði efldur og eðlileg skilyrði heilbrigðs félagsog menningarlífs verði sköpuð í sem flestum byggðarlögum landsins. Jafnframt verði athugaðir möguleikar til að ráða fram úr þeim vandræðum, sem fjárskortur félagsheimilasjóðs hefur valdið einstökum héruðum. Stefnt verði að því í hinni fyrirhuguðu löggjöf um félagsheimili, að forráðamönnum þeirra verði framvegis gert kleift að efla menningarlega fræðslu- og skemmtistarfsemi í ríkara mæli en unnt hefur verið fram að þessu. Endurskoðuninni skal lokið fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis.“

Þetta var í maí 1964. Þrátt fyrir það, þótt þar væru fyrirmæli um að ljúka endurskoðuninni, áður en næsta reglulegt Alþingi kæmi saman, lá ekkert fyrir í byrjun þings haustið 1964 frá ríkisstj. um þetta mál. Þegar mjög var liðið á það þing, bar ég fram fsp. um málið, og hæstv. menntmrh. svaraði þeirri fsp. 5. maí s.l. vor. Í svari sínu sagði hæstv. ráðh. m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er algerlega ljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða, sem þarf að finna einhverja gagngera og róttæka lausn á. Að því hefur verið unnið allar götur síðan þáltill. var samþ. í lok síðasta þings, þótt tillögugerð um þetta efni sé ekki tilbúin enn þá. Að því mun verða haldið áfram að vinna, því að auðséð er, að hér þarf að gera gagngerar breytingar á, bæði löggjöfinni sjálfri og framkvæmdinni allri, ef komast á frá þeim vanda, sem hér er augljóslega á ferðinni.“ Nú eru liðnir meira en 7 mánuðir síðan hæstv. ráðh. gaf þessa yfirlýsingu, að það yrði unnið að því áfram að finna gagngera og róttæka lausn á þessu máli, en enn þá hefur ekkert heyrzt frá hæstv. stjórn um málið. Því er nú spurt: Hvað er að frétta af endurskoðun l. um félagsheimili og eflingu félagsheimilasjóðs, sbr. ályktun Alþ. 13. maí 1964 og fyrirheit menntmrh. í þingræðu 5. maí 1965?