16.12.1965
Efri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég tel, að það fari í raun og veru vel á því, að það skuli vera hæstv. fjmrh., sem talar hér fyrir þessu máli, þótt af sérstökum ástæðum sé, því að meginefni þessa frv. er það að gera raforkunotkunina í landinu að nýjum skattstofni fyrir ríkissjóð. Hér er þess vegna um bein fjármál að ræða, sem undir hann heyra, og fer þess vegna ekki sérstaklega illa á því, þó að hæstv. raforkumrh. fáist nú við þann starfa að opna kjötbúð úti í London, meðan verið er að handfjalla þetta afkvæmi hans hér í þessari hv. deild.

Það er auðsætt, að hér er ekki, gagnstætt því, sem haldið er fram, um neina skattlagningu að ræða til hagsbóta þeim, sem búa í dreifbýlinu, og sést það strax á því, að þeim er gert að greiða þennan skatt að jöfnu við aðra. Hér er ekki um það að ræða, að þeir, sem í dreifbýlinu búa, annaðhvort búa þar við dýrari raforku eða vantar rafmagn, að það sé verið að gera neitt þeim til hagsbóta í því sambandi. Hér er þess vegna ekki um neina verðjöfnun á raforkuverði að ræða, þar sem mismunurinn, sem á orkuverði hefur verið í dreifbýlinu annars vegar og í þéttbýlinu hins vegar, á að haldast algerlega óbreyttur. Skatturinn er lagður jafnt á, hvaða verðlag sem menn hafa búið við. Í þessu sambandi þykir mér það athyglisverð staðreynd, að þess eru jafnvel dæmi, að rafmagnsveltur, sem ekki tilheyra ríkinu, ekki eru undir rafmagnsveitum ríkisins, það eru til dæmi þess, að þær búa við hærra raforkuverð en rafmagnsveitur ríkisins og ættu þess vegna, ef um einhverja jöfnun væri að ræða, raunverulega ekki síður að fá styrk til að reka sínar veitur en rafmagnsveitur ríkisins. Ég nefni í þessu sambandi t.d. rafveituna á Patreksfirði, sem er a.m.k. með jafnhátt meðaltalsverð, og rafmagnsveitur ríkisins og í sumum tilfellum hærra. En í þeim stað er það talið líklegt, að ekki verði hjá því komizt að leggja þennan skatt á í útsvörum í hreppnum, þar sem raforkuverðið hjá þessari veitu er þegar það spennt, að ekki er talið fært að bæta skattinum ofan á það verð, sem nú er þar. Það er þess vegna öruggt, að mismununin, sem hér hefur verið á, verður ekki minni en áður, að þessu frv. samþykktu þessum efnum höfum við fram að þessu fylgt þeirri stefnu, að greiddar væru af almannafé nokkrar upphæðir til rafmagnsveitna ríkisins til að standa undir halla þeirra og til þess að sem flestir landsmenn gætu fengið notið raforku, sem sjálfsagt verður að telja meðal grundvallarlífsskilyrða í landinu. Á þessu verður raunverulega engin breyting, þessi halli verður borgaður af almannafé. Breytingin er hins vegar fólgin í því, að horfið er frá því að taka það fé, sem til þessara hluta þarf, eftir þeim almennu skattaleiðum, sem í landinu gilda á hverjum tíma, góðum eða vondum, og innleiða í þess stað sérstakan skatt, sérstaka skattheimtu utan við ríkissjóð, spara ríkissjóði það fé, sem þessu nemur, og nota þær tekjur, sem áður hafa farið til þessa, til annarrar eyðslu ríkissjóðs. Hér er þess vegna um algert jafngildi almennrar skattheimtu til ríkissjóðs að ræða, og ber að meta þetta frv. út frá því.

Eins og ég sagði áðan, er orkunotkun landsmanna almennt gerð hér að tekjustofni án tillits til þess, hvernig henni er varið og við hvaða kjörum hún er fengin. Þó er gerð á þessu ein undantekning, gagnvart þeim aðilanum, sem nú býr við langsamlega hagstæðast orkuverð í landinu, Áburðarverksmiðju ríkisins, sem að réttu lagi ætti að greiða 2—3 millj. í þennan skatt, en er algerlega sleppt við hann, þó að þessi aðili búi hins vegar við þau kjör að fá sína orku aðeins við broti, örlitlu broti af kostnaðarverði, og þar er enn eitt dæmið um það, hvað jöfnunin, sem þetta frv. hefur í för með sér, er sanngjörn og mikil.

Ég tel, að með þessu frv. sé lagzt þar á dýrtíðarsveifina, sem raunverulega sízt skyldi, og einn allra viðkvæmasti neyzluþáttur almennings gerður að tekjustofni, gerður að almennum tekjustofni. Og hann er sérstaklega almenningi viðkvæmur vegna þess, hvað hann er öllum óhjákvæmilegur, sem í landinu lifa.

Það er þess vegna víst, að þessi skattheimtuaðferð, sem hér er viðhöfð, kemur talsvert þungt niður á framfærslukostnaði í landinu, og þetta er sérstaklega bagalegt, þar sem svo stendur á, að um mjög miklar aðrar hækkanir er að ræða samtímis þessum neyzluþætti og ef til vill aðrar miklu meiri, sem eru rétt ókomnar. Þannig hefur raforkuverð hér í höfuðborginni verið hækkað mjög verulega á s.l. sumri, og það er vitað um, að 2% hækkun á raforkuverðinu er í undirbúningi og verður skellt á annaðhvort nú um áramótin eða þá snemma á næsta ári. Og með þessu frv. er svo a.m.k. sem svarar 10% í smásölunni bætt ofan á þessar hækkanir, þannig að það verður að teljast líklegt, að almenn raforkunotkun hér í Reykjavík hækki um a.m.k. 30—40% á einu ári. Og það verður að segjast, að það er vissulega ekkert lítið skref, sem stigið er til almennrar dýrtíðaraukningar hjá almenningi með þessum ráðstöfunum öllum samanlögðum.

Sem dæmi um þetta vil ég nefna, að ég hef kynnt mér, hvað þessi skattur mundi þýða t.d. fyrir mitt byggðarlag. Skv. útreikningum rafveitunnar þar, á Akureyri, mun þetta svara til þess, að 3 millj. verði lagðar ofan á raforkuverðið á Akureyri, þ.e.a.s. milli 300 og 400 kr. á hvert mannsbarn eða fyrir 5 manna fjölskyldu allt að 2000 kr. að meðaltali. En þar er svipað ástatt og í Reykjavík, að aðrar hækkanir eru ýmist fyrirsjáanlegar eða óumflýjanlegar, þó að þar verði sennilega ekki um jafnstórfelldar hækkanir að ræða. En það er talið, að það verði að hækka raforkuverð kringum 15% vegna aukins kostnaðar, m.a. við dísilafl frá Laxárstöðinni, og aukins rekstrarkostnaðar við rafveitu Akureyrar, þannig að hækkunin þar mundi verða sennilega alls á milli 20 og 25%. Og þannig hygg ég, að það sé hjá allflestum rafveitum í landinu. Auk þess er svo fyrirsjáanlegt, að bæði á orkuveitusvæði Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar eru enn stórfelldari hækkanir fram undan, þegar nýjar virkjanir koma til á næstu árum.

Það verður líka að segjast, að þessi skattlagning, þessi nýjasta skattlagning hæstv. ríkisstj., kemur ósanngjarnlega og misjafnt niður og á margan hátt ákaflega óheppilega. Þannig er það t.d., að með þessum hætti verður útkoman í raun og veru talsvert önnur fyrir almenning eftir því, hvort um mikla raforkunotkun til hitunar er að ræða eða ekki, og af þessum sökum kemur þessi hækkun, sem hér er um að ræða, alveg sérstaklega þungt á rafveitur eins og rafveitu Akureyrar, rafveitu Hafnarfjarðar og rafveitu Siglufjarðar. En á þessum stöðum er svo ástatt, að á Akureyri eru yfir 60% af orkunni notuð til hitunar. Og það mun vera talið, að það verð, sem á þessari orku hefur verið gildandi, sé nú rétt um það að samsvara kostnaði við innflutta hitagjafa, þannig að öll aukning, sem hér eftir verður á þessu. verður til þess að mismuna stórkostlega samkeppnisaðstöðunni milli hins innlenda hitagjafa og hins erlenda, sem aftur á móti á ekki að skattleggja. Þeir einir verða að borga að þessu leyti gjaldið, sem hafa í sínum húsum tæki til að hita þau með rafmagni.

Ef svo fer, sem líklegt er, að rafveitan neyðist til að hækka þessa orkusölu, hlutfallslega miðað við þennan skatt, getur varla hjá því farið, að raforkusala til hitunar minnki stórkostlega og afkoma rafveitnanna versni af þeim sökum mjög mikið vegna minnkandi orkusölu, og auk þess mundi þetta svo hafa það í för með sér, að einstaklingar mundu verða fyrir miklu tjóni, vegna breytinga, sem þeir yrðu að gera á kynditækjum í húsum sínum.

Ég tel, að að þessu leyti sé skattlagningin alger fásinna og komi svo misjafnt niður og ósanngjarnlega, að ekki taki nokkru tali. Hér er hvorki meira né minna en um það að ræða, að með þessari skattlagningu og öðrum hækkunum, sem fyrirsjáanlegar eru á raforkunni, mun hvert heimili, sem hitar híbýli sín með raforku, þurfa að hækka útgjöld sín í þessu sambandi um upphæð, sem nemur 5—8 þús. kr. á ári. Hér er sem sagt um stórfellda dýrtíðaraukningu og útgjaldaaukningu heimilanna að ræða. Hins vegar mun þessi hækkun að sjálfsögðu verða miklum mun minni, þar sem raforka er aðeins notuð til annarra hluta en hitunar. Eg tel, að skattlagningin á raforku til hitunar sé í raun og veru eitt allra fráleitasta ákvæði þessa frv., og eins og ég sagði áðan, er tvísýnt, hvort það verður ekki þrautaráðið hjá þeim stöðum, sem hafa þennan hátt á, að selja mikið af orku sinni til hitunar, að þeir verði hreinlega að leggja þennan skatt á með útsvörum. Auk þess er það svo að sjálfsögðu hrein öfugþróun í okkar raforkumálum, ef okkar innlenda hitagjafa er mismunað svo með skattlagningu, að menn hverfi í æ ríl:ara mæli frá því að nota raforku til hitunar, eins og afleiðingin auðsjáanlega verður, ef þetta frv. verður samþ. óbreytt.

Ofan á þessa mismunun, sem sérstaklega kemur fram gagnvart stöðum eins og Akureyri, þá er því svo bætt við í 6. gr. þessa frv., að sérstakt gjald er lagt á Laxárvirkjunina vegna álags, sem stafar af hitanotkun og mun nema hundruðum þúsunda króna. Það er sem sagt allt á sömu bókina lært um réttlætið í sambandi við ákvæði þessa frv.

Um málsmeðferðina í sambandi við þetta mál er svo það að segja, að öllu samráði við rafveiturnar í landinu og samtök þeirra hefur verið hafnað og ekki á nokkurn hátt hlustað á þeirra ráðleggingar, og þeim hefur jafnvel verið neitað um upplýsingar, eins og t.d. um það. hvernig fyrirhugað væri að skipta þessum 35 millj. niður á hinar einstöku greinar orkunotkunarinnar, og þeim hefur einnig verið neitað um að fá tækifæri til þess að geta kynnt sér. hvað það væri, sem þær raunverulega væru að styrkja með þessari skattlagningu, þ.e.a.s. neitað um að fá tækifæri til þess að kynna sér rekstur rafmagnsveitna ríkisins og skoða það, hvort aðrar leiðir eru ekki tiltækari til að ráða bót á því vandamáli, sem hallarekstur þeirra er, heldur en þessi skattlagningaraðferð, sem hér á að beita. Og það mun vera mála sannast. að það sé síður en svo líðum ljóst, hvernig þessum málum er raunverulega varið, hvernig rekstur rafmagnsveitna ríkisins er og hvað mætti gera þar til úrbóta. Og það liggur líka fyrir, það er líka augljóst, að það er engan veginn upplýst, að hve miklu leyti hér er um raunverulegan halla að ræða og að hve miklu leyti er um bókhaldslegan halla að ræða. Þannig er það t.d. vitað, að rafmagnsveitur ríkisins setja upp sitt bókhald að ýmsu leyti talsvert öðruvísi en aðrar rafveitur í landinu, þannig t.d., að þær reikna sér stórkostlegar fjárhæðir í vexti af eigin fé, sem engar rafveitur aðrar í landinu gera, og auka þannig hinn bókhaldslega halla, þó að það breyti ekki um þann raunverulega halla, sem þarna er.

Mér er kunnugt um það, að síðan þetta mál kom á döfina hér á Alþ. án samráðs við þá málsaðila, sem þarna koma helzt til greina, hefur rignt yfir mótmælum til fjhn. þingsins varðandi þetta mál, og ég er hér með nokkurn bunka af þeim. Hér eru t.d. mótmæli frá rafveitunefnd Hafnarfjarðar, hér eru t.d. mótmæli frá Sambandi ísl. rafveitna, hér eru mótmæli frá stjórn rafveitu Siglufjarðar og Skeiðsfossvirkjunar, og hér eru mótmæli frá stjórn Laxárvirkjunar og rafveitustjórn Akureyrar, og allmörg mótmæli önnur liggja hér frammi í lestrarsalnum, þannig að menn geta kynnt sér þau þar.

Ég ætla ekki að fara nákvæmt út í þessi mótmæli, en ég vil þó, vegna þess að annaðhvort komu þau mótmæli það seint, að fjhn. Nd. gat ekki tekið þau til meðferðar, vegna þess að hún hafði þá lokið málsmeðferðinni, eða það var alls ekki tekið fyrir í n., ég veit ekki, hvort heldur var, þá vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp mótmæli stjórnar Laxárvirkjunarinnar og rafveitu Akureyrar, því að ég tel, að þau mótmæli sýni raunverulega í aðalatriðum, hvað rafveiturnar og framámenn í rafveitumálunum heima í héruðunum hafa helzt að athuga við þetta mál. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar samþykkt sameiginlegs fundar Laxárvirkjunarstjórnar og rafveitustjórnar Akureyrar svo:

„Sameiginlegur fundur Laxárvirkjunarstjórnar og rafveitustjórnar Akureyrar, haldinn 15. des. 1965, gerir svofellda ályktun:

Fundurinn lítur svo á, að fjáröflunarleið sú, sem fram kemur í frv. ríkisstj. til að mæta halla á rafveitum ríkisins, sé mjög hæpin og hljóti að torvelda mjög rekstur einstakra rafveitna í landinu. Fundurinn bendir á, að ekki liggur fyrir nokkur viðhlítandi greinargerð um rekstur ríkisrafveitnanna, þar sem gert er ljóst, af hverju hinn mikli halli stafi. Þannig er með frv. verið að heimta skatt af rafmagnsnotendum. án þess að kunnugt sé, til hvers honum sé varið. Fundurinn leggur því til:

2) Að fram fari nákvæm rannsókn á öllum rekstri ríkisrafveitnanna og gerðar verði á honum þær skipulagsbreytingar, sem lækkað geta kostnaðinn, t.d. með því að fela bæjarrafveitum rekstur héraðsrafveitnanna, eins og rafveita Sauðárkróks hefur þegar boðizt til. Sama hátt má hafa víðar.

2) Með frv. verður raforkusala til hitunar skattlögð svo mjög, að slík rafmagnssala er stórfelldlega torvelduð, en hún er mikilvægur þáttur í rekstri og afkomu sumra rafveitna, einkum þó rafveitna Akureyrar og Hafnarfjarðar. Skapar þetta vandkvæði, bæði í augnablikinu og í sambandi við framtíðarvirkjanir, en í framtíðinni verður sala raforku til hitunar sífellt mikilvægari þáttur í rekstri rafveitnanna, en með umræddri skattlagningu á þennan eina hitagjafa getur rafmagn til hitunar torveldlega keppt við olíu í því efni, og þannig hefur hún í för með sér bæði aukna dýrtíð og gjaldeyriseyðslu.

3) Þá bendir fundurinn á, að óeðlilegt sé með öllu að undanþiggja Áburðarverksmiðju ríkisins umræddum skatti, með tilliti til undanfarandi athugasemda og þess, að endurskoðun á rekstri ríkisrafveitnanna tekur verulegan tíma. Leggur fundurinn áherzlu á, að ef nefnt frv: verður samþykkt nú þegar, verði sett inn í það ákvæði um, að lögin gildi aðeins til ársloka 1966 og verði sá tími notaður til þess að gera ýtarlega rannsókn á rekstri rafveitna ríkisins og hagræðingu á skipulagi þeirra til ódýrari og hagkvæmari rekstrar.“

Undir þetta skrifa Arnþór Þorsteinsson, Steindór Steindórsson, Árni Jónsson, Þorsteinn Jónatansson, Magnús J. Kristinsson, Jón Sólnes, Jón Þorvaldsson og Knútur Otterstedt. Meðal þessara manna eru allir helztu forustumenn Sjálfstfl. og Alþfl., núverandi stjórnarflokka, á Akureyri, og ég ætla af þessum og fleiri andmælum, sem þetta frv. hefur hlotið, að þetta sé frv., sem í raun og veru sé fordæmt um land allt og

af mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum. Ég held þess vegna, að það sé ekki aðeins nauðsynlegt, heldur sjálfsagt fyrir þá n., sem fær málið hér til athugunar, að hún endurskoði það og að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hér í hv. þd. reyni að fá á þessu frv. þær allra nauðsynlegustu umbætur, sem óhjákvæmilegt er að gera á því.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín öllu lengri. Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég viðurkenni fúslega, að halli á rafmagnsveitum ríkisins hafi verið vandamál. sem vafalaust verður að snúa sér að því að leysa, og sömuleiðis er það vandamál. hvert misrétti landsmenn búa nú við í raforkuverði. Ég hef á nokkrum undanförnum þingum flutt till. um það, að þessi mál yrðu rannsökuð og það yrði leitað leiða til þess að jafna verð raforkunnar, og ég er enn sama sinnis í því efni, að ég tel það nauðsynjamál, en það er hins vegar auðsætt, að þetta frv. leysir engan vanda í þessum efnum.