16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (3170)

86. mál, félagsheimilasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Málefni félagsheimilasjóðs hafa verið til ýtarlegrar athugunar í menntmrn., og þau hafa verið rædd í ríkisstj. Á s.l. ári var gerð mjög viðtæk athugun á byggingu félagsheimila í landinu og skýrsla um þann styrk, sem félagsheimilasjóður hefur þegar greitt til þeirra. Jafnframt var athugað, hver skilyrði væru til áframhaldandi styrkveitinga miðað við lögbundnar tekjur félagsheimilasjóðs. Samkv. gildandi l. um félagsheimili fær félagsheimilasjóður helming skemmtanaskatts. Á s.l. ári námu tekjur félagsheimilasjóðs rúmum 6 millj. kr., en á yfirstandandi ári verða þær væntanlega mun meiri eða um 7 1/2 millj. kr. Félagsheimili þau, sem félagsheimilasjóður hefur styrkt, eru 71 talsins. 19 þeirra eru fullgerð, en 52 í smíðum. 20. sept. 1964 hafði stofnkostnaður allra þessara félagsheimila numið 127 millj. kr. Heimild er til þess, að félagsheimilasjóður greiði allt að 40% byggingarkostnaðar í byggingarstyrk. Félagsheimilasjóður hefur þegar veitt þessum félagsheimilum 21.6 millj. kr. í styrk. En eigi styrkveiting til þeirra allra að nema 40% byggingarkostnaðar, þyrfti að greiða 28.8 millj. kr. til viðbótar, til þess að 40% styrk yrði náð, miðað við þann kostnað, sem þegar hafði verið lagt í á s.l. hausti. Áætlaður kostnaður við að ljúka byggingu þeirra 52 félagsheimila, sem voru í smíðum, nam 126.6 millj. kr. Eigi félagsheimilasjóður að styrkja öll þessi félagsheimili með 40% byggingarkostnaðar, nema þær greiðslur 50.7 millj. kr. Til þess að félagsheimilasjóður geti greitt 40% byggingarkostnaðar allra félagsheimila, sem nú eru í smíðum, þyrfti, miðað við áætlaðan byggingarkostnað á s.l. ári, að greiða samtals tæpar 80 millj. kr. í byggingarstyrk. Er þar um að ræða u.þ.b. 11 ára tekjur félagsheimilasjóðs, miðað við áætlaðar tekjur hans í ár. Er augljóst, að hér er um mikið fjárhagsvandamál að ræða og torleyst. Ýmsar leiðir hafa verið athugaðar í því sambandi. Innan ríkisstj. hefur fyrst og fremst verið rætt um þá leið að heimila félagsheimilasjóði að gefa út ríkistryggð skuldabréf, t.d. til 15 ára, og yrðu þau endurgreidd með lögbundnum tekjum félagsheimilasjóðs, sjóðurinn greiddi síðan félagsheimilunum styrkveitingarnar með þessum skuldabréfum, sem einstök félagsheimili ættu væntanlega auðvelt með að koma í peninga til þess að leysa úr brýnni fjárþörf sinni. Endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar í þessu máli, en ég geri ráð fyrir, að þær verði teknar innan skamms.