02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (3177)

126. mál, dánar- og örorkubætur sjómanna

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans og fagna því, að nú að lokum skuli hafa verið skilað þeim till., sem samkv. ályktun Alþingis áttu að liggja fyrir, áður en þingi var slitið vorið 1965. Um efnisatriði tillagna þeirrar nefndar, sem athugun hefur haft á því, hvernig megi tryggja, að allir íslenzkir sjómenn njóti sértryggingarinnar, er að sjálfsögðu ekki hægt að ræða að þessu sinni. En tilgangurinn með fsp. minni, bæði í fyrra og nú, var fyrst og fremst sá að reka á eftir því, að þessi athugun yrði framkvæmd. Það er svo annað mál, sem kemur síðar til athugunar, hvernig nefndin hefur unnið þetta verk sitt, hversu heppileg sú lausn er á málinu, sem hún hefur lagt til.

Eins og ég tók fram áðan, er ekki vandalaust að leysa þetta mál varðandi þá sjómenn, sem ekki eru lögskráðir. En ég legg áherzlu á það, að ég tei eðlilegt og sjálfsagt, að sjómenn njóti hærri tryggingar en aðrir landsmenn, a.m.k. á meðan almennar tryggingar eru ekki fullnægjandi. Þeir eiga að njóta sérstakrar tryggingar vegna þeirrar sérstöku hættu, sem þeir taka á sig við þjóðnauðsynleg störf, — hættu, sem er meiri en aðrir þjóðfélagsþegnar eru að jafnaði í við sín störf. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir, að slys hendi á sjónum. En þeirri sérstöku hættu, sem sjómenn ganga í, á að mæta með sérbótum til þeirra og aðstandenda þeirra, ef illa tekst til.

Það er eitt höfuðatriði þessa máls, að þótt þessi sértrygging sé staðreynd varðandi meginhluta sjómanna, er nokkur hópur þeirra afskiptur, og ef Alþingi lýkur þessu máli ekki á þann veg að tryggja öllum íslenzkum sjómönnum þessar sérbætur, heldur það áfram að gerast, sem hefur átt sér stað til þessa, að við sjóslys fá aðstandendur sumra sjómanna aðeins hinar venjulegu bætur almannatrygginganna, en aðstandendur annarra sérbætur að auki, 200 þús. kr. sérbætur. Úr þessu misrétti verður að bæta, og í þáltill. frá 4. marz 1969 kemur fram vilji Alþ. til þess, að það verði gert. Og þótt sú athugun, sem þáltill. gerði ráð fyrir á hugsanlegum lausnum á málinu, hafi dregizt lengur en þörf hefði verið á, vænti ég þess, að nú þurfi ekki að líða langur tími, þar til þetta mál verður farsællega til lykta leitt.