16.12.1965
Efri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er sérstaklega eitt grundvallaratriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem ég sé ástæðu til að gera að umtalsefni og ég get ekki, því miður, verið honum sammála um, og það er sú skoðun hans, að hér sé fyrst og fremst um frv. að ræða til þess að afla fjár til ríkissjóðs.

Það má segja um flest þau frv. í sambandi við tekjuöflun til ríkissjóðs, sem hér hafa verið til meðferðar, þótt þau séu til tiltekinna þarfa, að þau hafi verið til þess að jafna halla á fjárl., og þetta er það að vissu leyti líka, af því að halli rafmagnsveitnanna var tekinn inn í fjárl. á s.l. ári. Til þess tíma hefur halli rafmagnsveitna ríkisins ekki verið í fjárl., og hefur engum manni dottið í hug sannast sagna, að það væri eðlilegt, að þessi halli væri tekinn í fjárlög.

Rafmagnsveitur ríkisins eru þjónustufyrirtæki, eins og fjöldamörg önnur, sem eru í eigu ríkisins, og það er talið eðlilegt og sjálfsagt, að þessi fyrirtæki séu rekin þannig, að þau beri sig, og að því hefur verið miðað við þessi þjónustufyrirtæki yfirleitt öll, útvarp, póst og síma og margar slíkar stofnanir, og allt frá því að rafmagnsveiturnar hófu starfsemi sína hefur fjár til þeirra verið að meginhluta til aflað með lánum, að undanteknum þeim framlögum, sem verið hafa í fjárlögum hverju sinni til raforkuframkvæmda, sem aldrei hefur verið nema litill hluti af því, sem rafmagnsveiturnar hafa þurft á að halda, og hefur yfirleitt gengið allt til héraðsveitna, en ekki til rafmagnsveitna ríkisins sjálfra til hinna stærri framkvæmda. Til þeirra allra hefur verið tekið lán, með ríkisábyrgð að vísu, en það hefur aldrei verið gengið út frá því, og ég held, að engum hv. þm. hafi dottið í hug, að ríkið ætti að borga þessi lán. Það hefði þá verið miklu einlægara, að ríkið tæki lánið og hefði þá strax tekið á sig þann vanda, sem þarna var við að glíma. En í tíð allra ríkisstj., síðan þetta kerfi hófst, hefur þetta verið haft með þeim hætti, að rafmagnsvelturnar hafa tekið lán með ríkisábyrgð, og ekki nóg með það, heldur hafa rafmagnsveiturnar fengið lánaða tollana. Það hafa ekki einu sinni verið gefnir eftir tollarnir, heldur talið eðlilegt, að rafmagnsveiturnar nytu þeirrar einu fyrirgreiðslu frá ríkinu, sem víssulega er mikils virði, að fá að borga tollana á allmörgum árum.

Efnislega er það því alveg ljóst, að það hefur aldrei vakað fyrir Alþ., að rafmagnsveitur ríkisins eða rekstur þeirra yrði með þeim hætti, að þær gætu ekki staðið undir sér. Það hefur hins vegar komið í ljós, eftir því sem þróunin hefur orðið, að þetta hefur orðið miklu þyngri byrði á rafmagnskerfinu eða þessari sérstöku deild þess heldur en það fékk undir risið, og af þessu hefur sá vandi skapazt, að það hefur safnazt saman um árabil halli, sem hefur farið vaxandi ár frá ári, og þessi halli hefur komið fram í því, að það hafa safnazt skuldir við ríkisábyrgðasjóð eða vanskil á ríkisábyrgðarlánum. En það er alls ekki rétt, að það hafi nokkurn tíma verið, fyrr en sem sagt á þessu ári, talið eðlilegt, að ríkissjóður sjálfur greiddi þennan halla, þannig að að þessu leyti held ég, að hv. þm. hljóti í rauninni við nánari athugun að geta verið mér sammála um, að þetta er ekki sambærilegt og almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð, vegna þess að það er ekki eðlilegt, að ríkissjóður greiði þennan halla, ekki á nokkurn hátt, og það er fullkomlega eðlilegt, að það séu könnuð úrræði til þess að leysa hann með öðrum hætti. Og hér á hinu háa Alþ. hafa á undanförnum árum verið uppi till., sem má segja að séu fullkomlega raunsæjar, till., fluttar af ýmsum þm., um jöfnun raforkuverðs, og þá hefur alitaf verið gengið út frá því, þar til á síðasta þingi, að það komu slíkar till. með nokkuð öðrum blæ, en þær till., sem áður höfðu verið fluttar um þetta efni, höfðu allar gengið út frá því, að tekið yrði upp jöfnunarverð á rafmagni, þ.e.a.s. að það yrði selt með sama verði um land allt, þannig að þeir, sem betri aðstöðuna hafa, tækju á sig hallann af þeim veitum, sem geta ekki risið undir sér sjálfar. Þetta hefur alltaf verið grundvallarskoðunin, og um þetta hafa verið skiptar skoðanir, og ég býst við, að hvorki fólki hér í Reykjavík né á Akureyri eða öðrum þéttbýlissvæðum þætti það neitt æskilegri leið en þetta frv. að taka upp allsherjar jöfnunarverð á raforku. Ég er hræddur um, að hækkunin yrði þá æðimiklu meiri en hér er um að ræða. Og þegar hv. þm. talar um, að það sé óhæfilegt misræmi í raforkuverði, skil ég ekki í, að hann vilji í neinni alvöru halda því fram, að það misræmi eigi að leiðrétta með því, að ríkissjóður eigi að borga það, sem á vantar, til þess að náist rekstrarjöfnuður hjá rafmagnsveitum ríkisins, miðað við að notendur þeirra greiði t.d. sama raforkuverð og í Reykjavík. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að það sé hugmynd nokkurra hv. þm., þó að þeir varpi því fram, þegar þeir þurfa ekki að bera ábyrgð á lausn mála, að það sé sjálfsagt að fara þá leið, af því að það þykir vinsælla í þéttbýlinu en að segja fólkinu, að það eigi að taka á sig hallann, eins og hugmyndirnar um jöfnunarverð á raforku hafa alltaf falið í sér á undanförnum árum.

Ég tel þetta frv. því alls ekki venjulegt tekjuöflunarfrv. fyrir ríkissjóð, heldur sé til þess að finna ákveðið skipulag á að leysa vanda, sem skapazt hefur hjá þjónustufyrirtæki, sem ríkið hefur að vísu sett upp, en getur ekki með neinu móti talizt eðlilegt, að ekki geti staðið undir eðlilegum kostnaði sínum sjálft. Og ég geri ekki ráð fyrir, að neinn hv. þm. telji, að sú leið væri fær, a.m.k. er ég ekki þeirrar skoðunar, og það er ekki skoðun ríkisstj., að sú leið væri fær að hækka svo raforkuverð til notenda hjá rafmagnsveitum ríkisins, að þeir notendur gætu tekið á sig þennan halla. Hér má því segja að sé nokkur millileið farin frá þeim hugmyndum að taka upp jöfnunarverð á raforku, sem hefur ekki átt fylgi að fagna til þessa, þannig að hér er gert ráð fyrir að leggja gjald á alla, sem raforkuna nota, en þó jafnt gjald, þannig að það raski ekki þeim kostnaðarhlutföllum, sem eru nú milli einstakra veitna, og þetta gjald er lagt á heildsöluverð á raforku, þannig að hinar einstöku rafveitur hafa það að sjálfsögðu á sínu valdi, hvernig þær hagræða þessu á milli einstakra notkunartegunda raforku skv. sínum gjaldskrám. Hér er um heildsöluverð að ræða, sem þetta leggst á, þannig að þar má færa á milli, eftir því sem hinum einstöku rafveitum þóknast. Það kann svo að vera, og það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það kunna að koma fram ýmis einstök dæmi, sem leiði í ljós, að þarna geti orðið um vandamál að ræða, sem segja má að séu ranglát, og þá þarf að sjálfsögðu að skoða það í framkvæmdinni, hvernig til tekst með það. Og það er svo sem ekkert, sem hindrar það, að þessum lögum megi breyta. Þau eru ekki sett þannig, að eilíflega megi ekki breyta þeim, heldur er sjálfsagt, að það sé skoðað, eftir því sem reynslan leiðir í ljós. En hitt, að fara að ákveða það nú, að þau gildi aðeins í eitt ár, svo sem stjórn Laxárvirkjunarinnar bendir á, það tel ég að sé ákaflega óheppilegt og hitt sé annað mál. ef menn innan eins árs komast að þeirri niðurstöðu, að hægt sé að koma þessu fyrir með einhverjum öðrum hætti, þá er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt, að það sé tekið til athugunar.

Varðandi rekstur ríkisrafveitnanna hefur það oft og tíðum verið gagnrýnt, að þær væru ekki reknar nógu hagkvæmlega, og það er ósköp eðlilegt, að þær raddir komi upp í því sterkari mæli sem rekstrarafkoma fyrirtækja verður verri, að það sé nauðsynlegt að skoða niður í kjölinn, hvort allt sé með þeirri hagkvæmni, sem þar ætti að vera. Þetta hefur ítrekað verið skoðað af stjórnskipuðum nefndum, sem hafa farið ofan í þetta mál. og það hefur rækilega verið kannað, áður en þetta frv. var flutt, hvort þar væru einhverjir verulegir annmarkar á. Auðvitað er það aldrei svo, að það sé ekki eitthvað, sem til betri vegar megi færa, og það var lengi vel höfuðgagnrýnin móti jöfnunarverði á raforku, sem á mikið til síns máls, að það væri ekki hægt að taka það upp nema setja þá upp eitthvert allsherjar rafveitukerfi, vegna þess að ella væri hætta á því, að það drægi úr aðhaldi hjá þeim, sem verst væru settir, ef þeir gætu þá bara varpað þunganum af sínum halla yfir á aðra. Fyrir þetta er girt hérna með því, að það er sett ákveðið hámark, þannig að það fer ekki yfir 35 millj. kr., sem tekið verður í þessu jöfnunargjaldi, þannig að það er ljóst, að rafmagnsveitur ríkisins verða í senn að gera ráðstafanir með hækkunum á sínu raforkuverði eða með bættum rekstri til þess að mæta þeim vanda, sem þar er við að glíma. Ég tel það hins vegar alveg sjálfsagt og fullkomlega réttmæta kröfu frá stjórn Laxárvirkjunarinnar og reyndar öðrum þeim, sem eiga að taka á sig kvaðir í þessu efni, að þeir ætlist til þess, að rafmagnsveitur ríkisins séu reknar með hinni fyllstu hagsýni, og ég tel alveg sjálfsagt, að það sé að fullu tekið til greina og verði kannað algjörlega ofan í kjölinn, hvort hægt er með einhverjum hætti að koma þeim málum fyrir á hagkvæmari hátt en nú er.

Það er vitanlegt, að hér er um kvaðir að ræða, bæði fyrir Reykvíkinga og Akureyringa og aðra í þéttbýlinu, og það er ekkert launungarmál. og auðvitað er það aldrei vinsælt að taka á sig slíkar kvaðir. En ég mundi þó a.m.k. halda, að þessar kveðir væru litlar á móts við það, að það væri tekið upp allsherjar jöfnunarverð á raforku, sem er, eins og ég sagði, hin leiðin, sem komið hefur til álita og oft hefur verið rætt hér á þingi að fara til þess að skapa fullkominn jöfnuð í þessu efni, en það hefur ekki þótt fært að leggja til, að sú leið yrði farin hér. En mér sýnist, eins og ég áðan sagði, að ef menn skoða þetta mál niður í kjölinn, hljóti menn að geta fallizt á þá skoðun, að það sé ekkert óeðlilegt við það og a.m.k. brjóti ekki í bága við neina venju, sem hafi verið mörkuð af Alþ., að rekstrarhalli rafmagnsveitna ríkisins eigi að borgast úr ríkissjóði, og það sé þar af leiðandi verið beinlínis að brjóta einhverja hefðbundna venju með því að leggja nú til, að þessu máli sé skipað með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir.