30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

147. mál, verðlagsmál

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég verð víst samkv. venju að þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svör hans, um leið og ég lýsi ánægju minni yfir þeirri breytingu, sem á er orðin, að hann virðist nú fús til þess að stuðla að því, að þingflokkur sá, sem ég á sæti í, eignist fulltrúa í verðlagsnefndinni. Hins vegar verð ég að segja það um svör hæstv. ráðh., að þau eru ekki a.m.k. miklu ýtarlegri en svo, að auðvelt hefði verið að afla sér þeirra með öðrum hætti en bera fram spurningu um það hér á hv. Alþingi. Og það má öllum vera ljóst, sem fyrirspurn mína sjá, að þar er vitanlega aðalatriðið 4. spurningin, þar sem spurt er um það, hvert sé áætlað söluverðmæti þeirra flokka, sem hafa verið leystir undan verðlagsákvæðum, og þeirra flokka, sem álagning hefur verið hækkuð á. Sem sagt það, sem ég er fyrst og fremst með fsp. minni að seilast eftir, eru einhverjar tölulegar upplýsingar, þótt ekki væru nema áætlanir, um það, hvað sú tilfærsla er raunverulega mikil eða stórkostleg, sem þarna hefur átt sér stað. Og undrar mig það ekki, að hæstv. ráðh. kinokar sér við því að lesa hér upp allar þær breyt., sem hér hafa verið gerðar, svo gífurlegar sem þær hafa verið, né heldur að reyna að koma fram með nokkrar ágizkanir um það, hversu mikil tilfærsla hefur hér átt sér stað frá neytendum og til verzlunarinnar. En öll merki eru áreiðanlega uppi um það nú og hafa verið síðustu árin, að þessi tilfærsla sé gífurleg.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri hald kaupmanna og samvinnufélaga, að þrátt fyrir aukna hækkun í prósentutölu stæði verzlunin ekki betur að vígi en áður. Í því sambandi er nokkuð fróðlegt að kynna sér það, hvernig sjálfur álagningargrundvöllurinn hefur breytzt og hversu haldlítil sú mótbára er, sem hér kom fram hjá hæstv. ráðh., að tollalækkanirnar hafi haft gífurleg áhrif til þess að rýra hlut verzlunarinnar. Ég er hér með tölur, sem eru byggðar á verzlunarskýrslum og Hagtíðindum nm þetta, og þær eru þannig, að 1959 er álagningargrundvöllurinn, þ.e. aðfluttar vörur og opinber gjöld á þær, 1870 milljónir, en á árinu 1964 er þessi grundvöllur kominn upp í 6153 milljónir eða hefur hækkað um 229%, og tollalækkanirnar, sem talað er um, hafa ekki haft meiri breytingu í för með sér í þeim efnum en það, að innflutningurinn hefur hækkað á þessu tímabili um 231.7%, en opinberu gjöldin um 220.5%, þ.e.a.s. aðflutningsgjöldin haldast svo til alveg í hendur við innflutninginn. Þess vegna hefur engin sú breyting átt sér stað í þessum efnum, sem væri hægt að nota sem röksemd fyrir hækkun álagningar í prósentutölu.

Á þessu tímabili, sem hér um ræðir, hefur það svo gerzt, að fjárfesting í verzluninni hefur samkv. opinberum heimildum a.m.k. þrefaldazt að krónutölu, en tvöfaldazt hlutur hennar í heildarfjármunamyndun þjóðarinnar. Mannafli hefur á þessu tímabili aukizt í verzluninni úr 11.9% í 14.2%, og er það vissulega glöggt dæmi um það, hvaða aukin ráð verzlunin hefur fengið á þessu tímabili, en bendir hins vegar líka á þann vítahring, sem skapast með auknu álagningarfrelsi, því að þegar álagning er hækkuð, gerist það, að þenslan vex í verzluninni, það koma upp fleiri verzlanir, sem leiðir svo til óhagstæðari verzlunarrekstrar almennt, sem aftur krefst meiri kostnaðar og hærri álagningar, og þarna er einmitt meginástæðuna að finna fyrir því, að mínu viti, að samvinnufélögin t.d. þykjast ekki komast af miklu betur nú en áður þrátt fyrir aukna álagningu. Það fer í aukna fjárfestingu og aukinn mannafla, og ástæðurnar fyrir því er að mjög miklu leyti að rekja einmitt til rýmkunar á verðlagsákvæðunum, því að reynslan hefur í öllum tilfellum orðið sú með auknu álagningarfrelsi, að álagningin hefur stóraukizt. Það munu vera mörg dæmi þess, að heildsöluálagning hefur á einstökum vörutegundum og þeim ekkert fáum af þeim vörum, sem undanþegnar hafa verið verðlagsákvæðum, þrefaldazt á þessu tímabili, og f smásöluverzluninni hefur reynslan alls staðar orðið sú, að um mjög verulegar hækkanir hefur verið að ræða, kannske litlar í fyrstu, en alltaf upp á við með hverju árinu sem líður á þeim vörutegundum, sem ekki eru undir verðlagsákvæðum. Þær vörur aftur á móti, sem undir verðlagsákvæðum eru, eru yfirleitt seldar á hámarksverði.

Allt þetta sýnist mér sanna, að það sé þörf á að taka verðlagningarmálin allt öðrum tökum en verið hefur. Hitt er svo hörmulegt til að vita, að ekki skuli hafa verið gerð nokkur tilraun til þess af hálfu hæstv. ríkisstj. að draga það fram, að sannprófa það, að láta sínar hagstofnanir rannsaka það, hversu mikil sú fjármunalega tilfærsla er, sem hér hefur átt sér stað.