30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (3192)

147. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal gjarnan taka undir það með hv. þm., að það er í sjálfu sér mjög miður, að íslenzk hagskýrslugerð skuli ekki vera fullkomnari en svo, að ógjörningur skuli vera að fá tiltölulega fljótlega svör við þeim atriðum, sem er spurt um í 4. lið fsp. hans. En það verður að játa hvern hlut eins og hann er, að það eru ekki fyrir hendi neinar upplýsingar, íslenzk hagskýrslugerð er ekki þannig uppbyggð, að unnt sé að veita svör við þessum fsp., nema efnt sé til alveg sérstakrar rannsóknar, sem mundi verða tímafrek og fyrirhafnarsöm, í því skyni. Verðlagsstjóri segir um þetta atriði í bréfi til viðskmrn., með leyfi hæstv. forseta, um 4. tölulið: „Mjög teldi ég æskilegt, að fyrir lægju upplýsingar, sem gerðu fært að svara þessu atriði fsp. Þær eru hins vegar ekki fyrir hendi, svo að mér sé kunnugt.“

Hins vegar vildi ég í tilefni af ívitnun hv. þm. í innflutningsskýrslur fyrr og nú aðeins benda á, að aukning heildarinnflutnings gefur í sjálfu sér ekkert áþreifanlegt til kynna um það, hver vera kunni aukinn hlutur verzlunarinnar vegna viðskipta með innflutninginn. Hann er samsettur af svo mörgum og gerólíkum liðum, sem um gilda svo ólíkar verzlunarvenjur, svo ólíkar verzlunarleiðir og svo gerólíkar álagningarreglur, að breyting á heildarinnflutningnum segir ekkert, sem neinar skynsamlegar ályktanir er hægt að draga af. Langstærsti einstakur þáttur innflutningsins er olíur og benzín, eins og öllum er kunnugt, sem um gildir alveg sérstakur innflutningsmáti og sérstakar verðlagningarreglur. Á þessum lið hefur orðið hvað mest aukning af öllum einstökum liðum innflutningsins, og áhrif hans á heildina eru svo mikil, að engar ályktanir er hægt að draga af heildinni í því sambandi.

Um þá meginniðurstöðu og meginstaðhæfingu hv. þm., að hlutdeild verzlunarinnar í þjóðartekjunum hljóti að hafa aukizt mjög á undanförnum árum, er það að segja, að úr því, hvort svo er eða ekki, verður ekki skorið nema með allsherjarrannsókn á þjóðartekjunum og skiptingu þeirra, og ég er hv. þm. alveg sammála um, að það er mjög æskilegt, að íslenzk hagskýrslugerð verði bætt með þeim hætti, að unnt sé að ganga að skýrum upplýsingum um það ár frá ári, ekki aðeins hverjar heildarþjóðartekjur eru og ekki aðeins hvernig þær skiptast á atvinnustéttir, eins og á síðari árum er þó hægt að fá upplýsingar um í grófum dráttum, heldur einnig hvernig þær skiptast á einstakar atvinnugreinar og undirgreinar hinna einstöku atvinnugreina, og helzt þannig, að þær væru sundurliðaðar í kostnaðarþætti og ágóða. Þannig er hagskýrslugerð komið hjá þeim þjóðum, sem hafa hana fullkomnasta, svo sem á sér stað í nokkrum löndum Vestur-Evrópu, þó engan veginn öllum, og í Bandaríkjunum. Þar liggja fyrir opinberar skýrslur um skiptingu þjóðartekna á tiltölulega mjög sundurliðaða þætti atvinnulífsins og greint á milli kostnaðar og hagnaðar. En því miður óttast ég mjög, að við eigum langt í land hér með að koma okkar hagskýrslugerð í það horf, að unnt væri að fá þessar upplýsingar, en þangað til svo er, verður í raun og veru ekki efnisatriðum 4. fsp. svarað, svo að óyggjandi megi teljast.

Varðandi þá almennu gagnrýni, að létt hafi verið verðlagsákvæðum af ýmsum vörum, eins og ég gat í svari mínu, vil ég að síðustu segja þetta :

Ég er þeirrar skoðunar, að þegar um innflutningshöft er að ræða, þegar utanríkisviðskipti þjóðar eru bundin innflutningshöftum og innflutningur er takmarkaður, þannig að ávallt megi búast við vöruskorti, a.m.k. á vissum sviðum, séu almenn verðlagsákvæði tvímælalaust nauðsynleg og raunar alveg óhjákvæmileg til þess að koma í veg fyrir, að vöruskortur og takmarkaður innflutningur veiti þeim, sem með vöruna verzla innanlands, skilyrði til óeðlilegs hagnaðar á kostnað neytenda. Hins vegar er ég jafnframt þeirrar skoðunar, að ef tekst að tryggja frjálsa innflutningsverzlun og raunverulega frjálsa samkeppni með innfluttar vörur, séu verðlagsákvæði á þeim sviðum í raun og veru óþörf. Þessa sömu skoðun virðist ríkisvald í öllum löndum Vestur-Evrópu hafa haft, algerlega án tillits til þess, hvort við stjórnvölinn hafa setíð flokkar, sem venjulega eru kenndir við hægri stefnu, eða flokkar, sem venjulega eru kenndir við vinstri stefnu. Þess má t.d. geta, að á Norðurlöndunum öllum, þar sem jafnaðarmenn hafa verið við stjórn um langt skeið í öllum löndunum til skamms tíma a.m.k., var nákvæmlega sömu stefnu fylgt í þessum efnum og núv. ríkisstjórn hefur fylgt undanfarin 6 ár, að láta rýmkun verðlagsákvæða sigla hægt í kjölfar rýmkaðra innflutningstakmarkana, rýmkaðra hafta á innflutningsverzluninni. Fyrst hefur það komið, að afnumin hafa verið höft á innflutningsverzluninni. Þegar í kjölfar þess hefur siglt nægilega mikið aukið vöruframboð og nægilega mikil samkeppni, hefur þótt fært og að sumu leyti jafnvel til bóta að létta smám saman, hægt þó, á verðlagshömlunum, sem voru sjálfsagðar, meðan innflutningur var takmarkaður að meira eða minna leyti. Ég vil staðhæfa, en játa að vísu, að þar er um að ræða staðhæfingu á móti staðhæfingu, sem ég get ekki sannað frekar en hv. þm. getur sannað sína vegna skorts á upplýsingum, sem ég var að tala um, — ég vil staðhæfa, að það afnám verðlagsákvæða, sem smám saman, hægt og hægt hefur verið heimilað á undanförnum árum, hafi ekki orðið til þess að færa verzluninni óeðlilegan hagnað. Einu rökin, sem ég get fært fyrir því, að þessi skoðun sé rétt, er sú, að afkoma ýmissa almannafyrirtækja, sem við verzlun fást, bendir ekki í þá átt, að um óeðlilegan hagnað hafi verið að ræða. Hér á ég t.d. við langstærsta verzlunarfyrirtæki landsins, sem er Samband ísl. samvinnufélaga, sem ber höfuð og herðar yfir öll önnur fyrirtæki, sem við verzlun og viðskipti fást í landinu hvað stærð snertir og hvað snertir fjölda þeirra vörutegunda, sem með er verzlað. En á undanförnum árum, t.d. á árinu 1964, sem opinberir reikningar þegar liggja fyrir um, er það alveg ljóst, að afkoma Sambandsins hefur verið mjög slæm, í raun og veru mjög slæm, ef miðað er við heildarveltu Sambandsins. Og svipað virðist vera um ýmis kaupfélög að segja, ekki hvað sízt þau samvinnufélög, sem fást við hreina verzlun í kaupstöðum, svo sem Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, að afkoma þess virðist engan veginn benda til þess, að um nokkra óeðlilega gróðamyndun sé að ræða, ekki í smásöluverzluninni, jafnvel þrátt fyrir það afnám verðlagshafta, sem leyft hefur verið undanfarin ár. Ef svo væri, að í verzluninni almennt væri um óeðlilega gróðamyndun að ræða, eins og hv. þm. virtist telja í ræðu sinni áðan, hlyti það að koma fram í góðri afkomu jafnstórs og umfangsmikils heildsölufyrirtækis og Samband ísl. samvinnufélaga er, og ef um væri að ræða almennan óeðlilegan hagnað í smásöluverzluninni, finnst mér, að það hlyti að koma fram í afkomu jafnstórs fyrirtækis á smásölusviðinu og KRON í Reykjavík er, en það er eitt stærsta vörudreifingarfyrirtæki í höfuðstaðnum. Þessar staðreyndir, sem mér eru vel kunnar og hægt væri að skýra nánar frá, ef tilefni gæfist til, — þessar staðreyndir um afkomu t.d. Sambands ísl. samvinnufélaga, stærsta heildsölufyrirtækis landsins, og KRON, einnar stærstu smásöluverzlunar í landinu, virðast mér eindregið benda til þess, að það sé rétt, sem ég hef staðhæft um þetta, en hins vegar á misskilningi byggt, sem hv. fyrirspyrjandi hefur staðhæft um það, að afnám verðlagsákvæða hafi ekki leitt til neins, sem kalla mætti óeðlilega gróðamyndun í verzlun landsmanna.