30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (3194)

147. mál, verðlagsmál

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv, talaði mjög um það hér s.l. miðvikudag, að hann væri reiðubúinn til þess að fræða þm., sem vildu leita fræðslu hjá honum, og kunnu menn vitanlega mjög vel að meta þann mikla menntunaranda og þekkingu og hógværð, sem lýsti sér í öllum þeim ummælum. En það er alveg ljóst, að frá því að hv. þm. talaði úr þessum sama ræðustóli fyrir hálfum mánuði, hefur hann fengið alveg nýja fræðslu og allt annað viðhorf til mála. Þá gaf hann mjög skorinorða yfirlýsingu hér um það, að Ísland væri, þrátt fyrir það að það væri ekki með allra auðugustu þjóðum heims, — þá væri landið sérstakt að því leyti, að allur almenningur hefði hér háar og miklar tekjur, þ.e.a.s. hversu vel hefði tekizt um eignaskiptingu og tekjuskiptingu í þessu landi. Hv. þm. taldi þetta vera svo frábært afrek og einstætt, að hann vildi, að við gerðum sérstakar ráðstafanir til að kynna þetta fyrir þróunarlöndunum svokölluðu, færum á þing Sameinuðu þjóðanna, ræddum þetta þar og í framhaldi af því hefðum sérstakt samband við þessar þjóðir, sem væru á eftir okkur. Hv. þm. fjölyrti þá um það, að Íslendingar hefðu verið kúgaðir í 600 ár, eins konar nýlenduríki. Nú hefðum við á fáum áratugum brotizt svo fram, að við í dag, eins og hann sagði, værum til sérstakrar fyrirmyndar.

Það tjáir ekki fyrir hv. þm. að segja, að þessi hans boðskapur gæti staðizt, vegna þess að hér væri miðað við heildarþróun og allt hefði tekizt verr hin allra síðustu ár heldur en áður, allt það, sem vel hefði farið, væri að þakka því, að hann hefði sjálfur haldið hér ræðu fyrir 20 árum og upplýst, hvernig fara ætti að því að koma öllum hlutum í lag. Nú vil ég ekki gera lítið úr ráðleggingum þessa hv. þm. Hann segir oft skynsamlega hluti, þó að það komi fyrir inn á milli, að það slái út í fyrir honum, eins og í dag. En við skulum játa, að við eigum allir, allir Íslendingar, allir þingflokkar og allar stéttir, mikinn þátt í þeirri miklu umbreytingu, sem orðið hefur í þessu landi, og okkur væri sæmra að viðurkenna það og hælast um af því sameiginlega afreki, í stað þess að vera að reyna að sá sæði tortryggni og rógs, eins og hv. þm. gerði hér áðan.

Vitanlega standast þessar hans fullyrðingar engan veginn, miðað við það, sem hann sagði fyrir hálfum mánuði. Það er óumdeilanlegt og verður ekki með nokkru móti hrakið, að þó að hér hafi verið samfelldar framfarir alla þessa öld, getum við sagt, með nokkrum afturkippum þó af ýmsum ástæðum á vissum tímabilum, sem ég skal ekki fara að rekja, hafa framfarirnar aldrei verið meiri en það sem liðið er af sjöunda tug aldarinnar, og allur almenningur í landinu hefur aldrei átt við betri kost að búa. Og því fer svo fjarri, að á hann hafi verið hallað, að einmitt það undursamlega og það, sem er til fyrirmyndar, er það, sem hv. þm. lagði á ríka áherzlu hér fyrir hálfum mánuði: Hin mikla umbreyting í lífi almennings, sú almenna tekjuaukning, sem gerir það að verkum, að íslenzkur almenningur á við betri kjör að búa en flestir aðrir. Við þennan lærdóm hefði hv. þm. átt að halda sér, en ekki lepja upp slúðrið, sem hann heyrði úr kommunum úti í Osló fyrir 10 dögum.