30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í D-deild Alþingistíðinda. (3195)

147. mál, verðlagsmál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Því miður duga nú ekki 5 eða 10 mínútur til þess að eiga að fræða hæstv. forsrh. þannig, að hann hefði eitthvert vit á efnahagsmálum. Þar þyrfti lengri tíma til. En minna vil ég hæstv. forsrh. á, af því að hann var nú að tala um alla þessa öld og hvílíkar framfarir hefðu verið, að hann var nýlega að segja þá ágætu setningu hér í þessum þingsal, að munurinn á því, sem hefði verið nú síðustu áratugina hjá okkur, síðustu tvo áratugina, og því, sem var fyrir 1940, hefði verið álíka munur og á helviti og himnaríki, þannig að það er nú ekki langt síðan alþýða Íslands fór að búa við það að losna úr atvinnuleysisprísundinni, sem hún bjó hér undir og varð að slást við bæjarstjórn Reykjavíkur til þess að reyna að rýmka ofurlítið um sína fjötra. Eftir að verkalýðshreyfingin varð nægilega sterk í kringum 1942 til þess að bæta sinn hag, gerbreyttist þetta.

Hvernig er þetta svo í dag? Jú, við erum búnir að skapa gífurlegar heildartekjur fyrir þessa þjóð, þannig að miðað við aðrar þjóðir í veröldinni stöndum við tiltölulega vel. Það þýðir m.a., að við höfum gert okkar yfirstétt mjög ríka og við höfum skapað mjög efnaða millistétt hérna, og með því að vinna 11—12 tíma á dag árið um kring getur verkalýðurinn haft mjög sæmilega afkomu. En raunverulegt tímakaup hans í dag, miðað við 8 tíma vinnudag, er sama og það var fyrir 20 árum, vegna þess að af hálfu valdhafanna í landinu hefur verið séð um að auka dýrtíðina þannig að sama skapi og kaupgjald hefur hækkað, að verkalýðurinn verður að bæta við sig í yfirvinna til þess að ná í þær heildartekjur, sem ég lýsti yfir að væru mjög sæmilegar. Maður var nýlega kallaður fyrir skattayfirvöld, eins og hér var upplýst, út af því, að hann hafði ekki talið fram nema 120—130 þús. sem árstekjur. Það er það, sem mönnum er ætlað að lifa af, 5 manna fjölskyldu. Það þótti svo ótrúlegt.

Við verðum að gá að því, að misskiptingin á auðnum í landinu hefur vaxið á síðustu árum. Hún er meiri núna og hún er að vaxa, og það er það, sem gerir, að hæstv. ríkisstj. mun ekki hafa áhuga á því að gefa upplýsingar um, hver gróði íslenzkrar auðmannastéttar er og hversu gróðinn hefur skipzt. Þess vegna verðum við, þegar til vinnudeilnanna kemur, að berjast í blindni, af því að því er haldið fram þá í áróðri, að atvinnulífið þoli ekki þetta og þetta, en ekki fást neinar skýrslur lagðar fyrir. Þess vegna er það, sem ég hef sagt í þessum efnum, rétt. Við höfum gert stórátak, Íslendingar, og verkalýðshreyfingin og verkalýðsstéttin hefur ekki látið sitt þar eftir liggja. En hún hefur borið skarðan hlut frá borði, og hún neyðist til þess að bæta sér upp þennan skarða hlut með því að þræla lengur en nokkur önnur verkalýðsstétt í Evrópu.