30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

147. mál, verðlagsmál

Lúðvík Jósefason:

Herra forseti. Hér hefur verið spurt um eitt mjög mikilvægt atriði varðandi efnahagsmál þjóðarinnar, og hæstv. viðskmrh. hefur vikið sér undan að svara þessari spurningu. Og hann hefur borið því við, að það væru ekki tök á því að gefa svör við fsp. í þessa átt, vegna þess að ekki lægi fyrir nægilega traust hagskýrslugerð í sambandi við þessi mál. Ég tel, að hér hafi verið gripið á svo þýðingarmiklu máli, að hæstv. ríkisstj. megi ekki komast undan því að gefa sómasamleg svör við þessum spurningum, enda held ég, að hæstv. viðskmrh. hafi skotið sér undan því að svara þessu atriði, sem hér hefur verið rætt um, vegna þess að það hafi að verulegu leyti vantað vilja til þess að finna út það svar, sem hér átti að koma. Um það var spurt, hve miklu mundi nema verðmæti þeirrar vöru og þjónustu, sem heimiluð hefur verið ákveðin álagningarhækkun á á undanförnum árum eða undanþegin hefur verið álagningarákvæði. Það er eflaust rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það liggja ekki fyrir neinar glöggar skýrslur um það, svo að hægt sé að sækja svörin alveg beint í tilteknar töflur um þetta. En það er enginn vafi á því, að ríkisstj. getur látið vinna þetta svar út án þess að leggja þar mjög mikla vinnu í. Ég minni á það, að hæstv. viðskmrh. var í n. fyrir nokkrum árum með tveimur öðrum þekktum hagfræðingum landsins, í svonefndri hagfræðinganefnd, sem hér starfaði og gaf út allýtarlegt álít einmitt varðandi þessi mál. Þar var gerð allrækileg grein fyrir því, hverju öll smásöluálagning í landinu mundi nema á hverju ári og hverju öll heildsöluálagning í landinu mundi nema á hverju ári. Eins og þessi n. gat á sínum tíma gert sómasamlegar áætlanir í þessa átt, er vitanlega hægt að gera grein fyrir því, hverju muni nema álagningin á tilteknum vöruflokkum, sem hafa nú verið undanþegnir verðlagseftirliti. En það er rétt, það þarf vitanlega að setja aðila til þess að taka þetta saman. En það skiptir mjög miklu máli, að þessum spurningum sé svarað. Því vil ég nú fyrir mitt leyti skora á hæstv. viðskmrh. að láta vinna að athugunum á þessum málum, svo að skýr svör fáist um það, hvað miklu þessi álagningarhækkun nemur samanlagt á þeim vöruflokkum, þar sem um álagningarhækkun hefur verið að ræða, og eins á þeim vöruflokkum, þar sem álagningin hefur verið gefin frjáls. En það ætti líka að vera auðvelt fyrir ríkisstj. að láta kanna það með eðlilegum hætti, hver álagningin er nú, eftir að álagningin hefur verið gefin frjáls. Ég fyrir mitt leyti uni ekki við það, að þegar spurt er um jafnþýðingarmikið atriði og þetta, sé svarað nánast út í hött. Svör um það, að einstaka kaupfélög sýni ekki of góða útkomu, m.a. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hafi ekki sýnt mikinn hagnað og það bendi þá líklega helzt til þess, að það sé jafnvel óhætt að hækka enn þá meira álagninguna, til þess að þeir geti bætt reikninga sína e.t.v. eitthvað frá því, sem nú er, slíkt er að svara út í hött. Hæstv. viðskmrh. veit það manna bezt, að Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis og mörg önnur kaupfélög í landinu verzla að mjög miklum hluta með þær vörur einmitt, brýnustu nauðsynjavörur, sem enn eru undir verðlagsákvæðum. Það mun vera hartnær helmingur af umsetningu ýmissa kaupfélaga í landinu, sem er landbúnaðarvörur, sem enn eru undir verðlagsákvæðum og þar sem vitað er, að álagningunni hefur verið haldið tiltölulega lágri borið saman við álagningu á fjöldamargar aðrar vörutegundir.

Það var einkum þetta, sem ég vildi leggja áherzlu á hér í þessum stutta tíma, að ég vildi ítreka það við hæstv. viðskmrh., að hann léti finna út þessi svör, sem hann hefur verið hér beðinn um, því að þau skipta mjög miklu máli varðandi efnahagsmál okkar í heild.