30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

162. mál, Íþróttasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að málefni íþróttasjóðs eru í hinu mesta óefni. Þau eru ekki nýkomin í það óefni, heldur hafa þau verið það um margra ára skeið. Mér er nær að segja, að þau hafi verið í óefni, frá því að sjóðurinn var stofnaður. Í íþróttal. frá 1940, nr. 25, eru fyrst sett lagaákvæði um íþróttasjóð. Þar segir, að Alþ. veiti sjóðnum árlega fé til ráðstöfunar eða sjái honum fyrir öruggum tekjum á annan hátt. Í framhaldi af þessu hafa fjárveitingar til íþróttasjóðs verið teknar árlega í fjárlög. Skömmu eftir setningu íþróttalaganna var skipuð íþróttanefnd samkv. lögunum, þriggja manna, og er hv. fyrirspyrjandi einn íþróttanefndarmanna og er því auðvitað nákunnugur málum sjóðsins.

Íþróttanefnd setti sér a.m.k. mjög fljótlega þær starfsreglur, sem hann raunar gat í ræðu sinni áðan, að styrkja íþróttamannvirki með allt að 40% byggingarkostnaðar, flest með 40% byggingarkostnaðar, nokkur með 30% byggingarkostnaðar, en fáein skíðamannvirki með aðeins 20% byggingarkostnaðar. En það er skemmst af að segja, að þessar starfsreglur hafa aldrei verið í samræmi við fjárhagsgetu sjóðsins, eða ef menn vilja orða það á hinn veginn: fjárveitingar Alþ. hafa aldrei — bókstaflega ekki eitt einasta ár frá stofnun sjóðsins 1940 — verið í samræmi við þessar starfsreglur. Það hefur frá upphafi, í meira en aldarfjórðung, verið hróplegt misræmi á milli fjárveitinga Alþ. til íþróttasjóðsins og starfsreglna eða starfshátta íþróttanefndarinnar.

Mér hefur verið þetta mál ljóst, síðan ég tók við forstöðu menntmrn., og átti um það marga fundi með mörgum áhugasömum mönnum um þetta efni, hvaða ráð hér væru til bjargar. M.a. skipaði ég n. þá, sem hv. ræðumaður gat um í ræðu sinni áðan, og eru niðurstöður hennar og till. til athugunar í rn. Þegar ég tók við forstöðu menntmrn. árið 1956, eða fyrir næstum 10 árum, þá þegar voru málefni sjóðsins í svo fullkomnu óefni, að ég fann ekkert ráð til þess að koma þessum málum í fullkomið lag og varð því að gera það sama, sem allir fyrirrennarar mínir höfðu gert, að fara fram á það við Alþ., að árlegar fjárveitingar væru auknar. Hefur tekizt að þoka þeim nokkuð upp á við, án þess þó að nokkuð hafi nálgazt það, að samræmi kæmist við fjárþörf sjóðsins, miðað við starfsreglur n. og fjárveitingar Alþ. Þetta skal ég skýra örlítið nánar með því að gera grein fyrir fjárveitingunum allar götur frá 1940.

1941 var fjárveitingin 40 þús. kr., en á því ári mun n. hafa sett sér þær starfsreglur að veita þann hámarksstyrk, sem hv. ræðumaður gat alveg réttilega um áðan. 1942 er fjárveitingin aukin upp í 75 þús., 1943 í 300 þús., 1944 í 450 þús., 1945 í 600 þús. og 1946 í 1 millj., svo að segja má, að á fyrstu árunum, frá 1941—1946, hafi verið um mjög myndarlega aukningu að ræða, hægt af stað farið með aðeins 40 þús., en kemst á 5 árum upp í 1 millj. Sú fjárhæð er síðan óbreytt á næsta ári, 1947, en er lækkuð á árinu 1948 niður í 700 þús., lækkuð enn 1949 ofan í 500 þús., óbreytt 1950 500 þús., síðan óbreytt í 3 ár, 600 þús., 1951, 1952 og 1953. Hún er hækkuð 1954 upp í 760 þús., kemst aftur upp í 1 millj. 1955, eins og hún hafði verið fyrir tæpum 10 árum, aukin upp í 1200 þús. 1956, upp í 1600 þús. kr. 1957, 1958 og 1959, hún er óbreytt þessi 3 ár, síðan aukin upp í 2 millj. 1960, er aftur 2 millj. 1961, aukin í 2.2 millj. 1962, í 3 millj. 1963, í 4 millj. 1964, aftur 4 millj. 1965, var þá lækkuð um 20%, eins og framlög til opinberra framkvæmda, og er sú sama í fjárl. fyrir næsta ár. En frá 1960, þar sem hún var 2 millj., hafði hún verið tvöfölduð til ársins 1965.

Hitt er hverju orði sannara, sem hv. þm. sagði, að þessar fjárveitingar hafa aldrei, ekki á einu einasta ári, dugað til þess að greiða 20—40% styrk til þeirra íþróttamannvirkja, sem í byggingu hafa verið. Fyrir þá ráðh., sem með stjórn íþróttasjóðs hafa farið síðan 1940, hefur verið um það tvennt að velja að knýja á um auknar fjárveitingar af hálfu Alþ. eða skera reglur n. niður, þannig að þær samræmdust því fé, sem Alþ. veitir á hverju ári til íþróttasjóðs. Enginn minna fyrirrennara í menntmrh.-sæti vildi gera þetta, heldur vildu láta við það sitja, að fjárveltingin þokaðist eitthvað svolítið upp á við í von um, að aukningin yrði enn þá meiri á næstu árum, en hefur ekki viljað fyrirskipa íþróttan., sem ráðh. hefur auðvitað vald til, að breyta úthlutunarreglum, þ.e. lækka hlutfallslega styrkinn. Ég hef ekki heldur viljað gripa til þess ráðs, frekar en nokkur fyrirrennara minna, að fyrirskipa n. minnkaðan styrk með vísan til ónógra fjárveitinga frá hinu háa Alþ. Ég hef viljað hafa þar sama kostinn fram að þessu, að treysta á það, að fjárveitingin mundi smávegis aukast, þannig að einhvern tíma kæmi að því, að halinn gæti farið að minnka, en þyrfti ekki að aukast, eins og hann hefur gert á hverju einasta ári í 25 ár.

Það vil ég þó taka skýrt fram, að ákvæði íþróttal. eru þannig, að þau heimila íþróttan. að veita allt að 40% styrk til byggingar íþróttamannvirkja. Þau skylda n. ekki til þess og þau veita engum aðila, sem byggir íþróttamannvirki, rétt til 40% styrks úr íþróttasjóði. Þetta er heimildarákvæði fyrir n. til styrkveitinga, en skapar byggjendum þeirra engan rétt. Það ráðstöfunarfé, sem n. hefur yfir að ráða, er takmarkað, og það takmarkar heimild hennar til þess að skuldbinda ríkissjóð. Þess vegna er það mikill misskilningur, sem stundum kemur fram í blöðum og skýrslum, jafnvel hálfopinberum skýrslum, að íþróttasjóður skuldi hinu og þessu íþróttamannvirki svo og svo mikið upp í vangreiddan styrk íþróttasjóðs til hlutaðeigandi íþróttamannvirkis. Hér er um algeran misskilning að ræða. Starfsreglur n. eru til leiðbeiningar, og n. hefur aldrei getað sagt annað en það, að þegar nægilegt fé væri fyrir hendi, þegar nægilegt fé væri í íþróttasjóði, mundi þessi styrkur, stundum 40%, stundum 30% og stundum 20%, verða greiddur.

Íþróttalögin frá 1940 voru endurskoðuð og sett ný lög í þeirra stað 7. apríl 1956. Í þeirri löggjöf eru ákvæðin endurskoðuð að ýmsu leyti, en grundvallaratriðum þeirra þó ekki breytt.

Varðandi það, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hafi í hyggju til þess að greiða úr fjárhagsvandræðum íþróttasjóðs, er það að segja, að undanfarið hefur verið í endurskoðun gildandi löggjöf um greiðslu byggingarkostnaðar skólamannvirkja, þ.e. sú löggjöf, sem fjallar um hlutdeild ríkisins í stofn- og rekstrarkostnaði þeirra skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Öllum hv. þm. er kunnugt, hvernig þau lög eru framkvæmd. Alþ. veitir á hverju ári fé til tiltekinna skólamannvirkja, og skólakostnaðarlögin mæla svo fyrir, að ætluð kostnaðarhlutdeild ríkisins skuli greidd á ekki lengri tíma en 5 árum, heimilt þó að greiða hana á skemmri tíma en 5 árum, en Alþ. hefur fylgt þeirri reglu að greiða áætlaða hlutdeild ríkissjóðs á 5 árum. Að því er snertir skólamannvirki er því allt öðruvísi farið að heldur en um íþróttamannvirkin. Alþ. tekur ákvörðun um, hvaða skóli skuli byggður, tekur fjárveitingu til hans inn á fjárlög og lýkur greiðslu til þessa skólamannvirkis á 5 árum. 1940 var hins vegar sú stefna mörkuð að því er snertir íþróttamannvirkin, að veitt var ein fjárveiting til þess að styrkja öll íþróttamannvirki, látið óbundið, hversu sá styrkur væri mikill, og þá auðvitað líka óbundið, til hvaða mannvirkja þessi styrkur færi.

Ég vil síður en svo ásaka þá, sem að íþróttalöggjöfinni 1940 stóðu. Hún var mjög merk löggjöf á sínum tíma, og ég er algerlega sammála hv. fyrirspyrjanda um, að enginn vafi er á því, að hefðum við ekki fengið þá löggjöf, hefðu framkvæmdir í íþróttamálum ekki orðið eins miklar og öll sú starfsemi ekki orðið jafngiftudrjúg og hún raunverulega hefur orðið. En hins vegar tel ég reynsluna hafa sýnt, að ákvæði l. um kostnaðarþátttöku ríkisins hafa verið mjög ófullkomin og í raun og veru mjög misráðin, algerlega misráðin, og heppilegra hefði verið, miklu heppilegra, að sami háttur hefði verið á um hlutdeild ríkisins í greiðslu kostnaðar við íþróttamannvirki og var þá þegar um greiðslu kostnaðarhlutdeildar ríkisins í skólamannvirkjum, þó að jafnýtarlegar reglur og nú eru til hafi ekki verið komnar á 1940. Ég er því þeirrar skoðunar, að það, sem stefna beri að í þessum efnum, og hið eina, sem í raun og veru geti leyst úr því öngþveiti, sem þessi mál eru þegar komin í, sé, að hliðstæðar reglur verði teknar upp um greiðslu kostnaðarhlutdeildar ríkisins við byggingu íþróttamannvirkja eins og nú gilda um skólamannvirki. Með þessu er ég ekki að segja, að hlutfallstala kostnaðarins eigi að vera hin sama og þar er, heldur aðeins, að hliðstæðar reglur eigi að taka upp. Ég er ekki heldur að segja, að það kostnaðarhlutfall, sem íþróttan. hefur sett sér, eigi að vera bindandi fyrir Alþ. eða ríkisstj. í framtíðinni. Það, sem ég er að segja, er, að sú regla, sem fylgt er um skólana, sé skynsamleg og eðlileg og hana ætti að taka til endurskoðunar og hana ætti að hafa til fyrirmyndar varðandi bráðnauðsynlega endurskipulagningu málefna íþróttasjóðs. Þess vegna hef ég beint því til n., sem nú starfar að endurskoðun skólakostnaðarlaganna, að taka það til athugunar, hvort og með hverjum hætti það gæti talizt skynsamlegt, að hliðstæðar reglur yrðu teknar upp um styrk ríkisins til íþróttamannvirkja, og mundi þá framkvæmdin verða sú, a.m.k. um tiltekin stærri mannvirki, að Alþ. samþykkti árlega ákveðna fjárveitingu til hvers mannvirkis um sig, miðað við áætlun um heildarkostnað mannvirkisins, og síðan yrði sett ákveðið árabil, sem heildarstyrkur ríkisins skyldi greiðast á. Hitt er mér ljóst, að um mörg minni háttar mannvirki er að ræða og fjölmargar minni háttar framkvæmdir einstakra íþróttafélaga, sem ekki hentar að hafa slíka reglu um. Varðandi þau mannvirki mætti þó veita eina heildarfjárveitingu á fjárl., sem væri til úthlutunar hjá ríkisvaldinu eða íþróttanefnd. En enn sem komið er eru þetta persónulegar hugleiðingar mínar um málið, sem eru til afhugunar í skólakostnaðarnefnd. Ég vona, að hún ljúki störfum, hefur unnið mjög mikið undanfarnar vikur. Það hefur alltaf verið tilætlun mín, að frv. að nýjum skólakostnaðarlögum gæti komið fyrir þetta Alþ., og ég vona enn, að það takist, þó að reynslan af nefndarstörfunum hafi að vísu sýnt, að öll þau mál eru mun flóknari en ókunnugir kynnu að halda. Með þessu vona ég, að hv. fyrirspyrjandi telji fyrri fsp. svarað.

Þá spyr hann, hvað líði störfum n., sem ég skipaði 1963 til að endurskoða lagaákvæðin um íþróttasjóð. Í þeirri n. áttu sæti Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi, formaður n., séra Eiríkur J. Eiríksson sambandsstjóri Ungmennafélags Íslands, Gísli Halldórsson forseti Í.S.Í., Guðjón Einarsson formaður íþróttanefndar ríkisins, Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri í fjmrn. og Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri í menntmrn. N. skilaði álíti 22. sept. 1964, og er það álit til athugunar í menntmrn. En megintillögur hennar voru þessar, með leyfi hæstv. forseta:

1. Ríkisstj. Íslands fái á Alþ. samþykkta þá heimild, að sú vangreidda, áætlaða þátttaka íþróttasjóðs, sem var að lokinni úthlutun úr sjóðnum fyrst í marz 1964 23.7 millj. kr., sú tala er komin upp í 26.4, eins og hv. þm. gat um áðan, verði greidd í jöfnum greiðslum á þrem næstu árum, þ.e. 7.9 millj. kr. ár hvert.

2. Á grundvelli þeirrar áætlunar, sem lögð var fram á 2. fundi n. um uppbyggingu íþróttaaðstöðu þjóðarinnar þessi 20 ár, sé sú stefna samþ. af ríkisstj. Íslands, að íþróttahús og sundlaugar, sem bæjar- og sveitarfélög reisi í samvinnu við íþrótta- og ungmennafélög eða samtök þeirra og fræðsluráð eða skólanefndir í þeim tilgangi, að þau nýti þau á þrennan hátt, þ.e. í skólastarfi, íþróttaiðkunum almennings og starfsemi íþrótta og ungmennafélaga eða samtaka þeirra, séu styrkt af ríkissjóði á sama hátt og önnur skólamannvirki, enda hafi fræðslumálastjórn og íþróttanefnd ríkisins samþ. gerð þeirra. Óski bæjar- eða sveitarfélag, íþrótta- eða ungmennafélög eða samtök þeirra að reisa íþróttahús eða sundlaug, sem eigi kemur í þarfir íþróttaiðkana skóla, en er talið nauðsynlegt af íþróttanefnd ríkisins, fellur styrkveiting til þess eigi undir ákvæði þessarar gr., en mannvirkið skal njóta styrks úr íþróttasjóði.

Eins og sjá má, er hér um sömu meginstefnuna að ræða og ég lýsti áðan, að ég hafi rætt við skólakostnaðarnefndina, og þess vegna má segja, að það sé til athugunar, ekki aðeins í menntmrn., heldur einnig hjá skólakostnaðarnefnd. Með þessu móti vona ég, að hv. fyrirspyrjandi telji fsp. fyllilega svarað.