20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

183. mál, hlustunarskilyrði útvarps

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör, og ég fagna því, að þegar er ákveðið að ráða bót á þeim slæmu hlustunarskilyrðum, sem viða eiga sér stað og einkum skv. hans upplýsingum á Norðurlandi. Hins vegar finnst mér, að norðanverðir Vestfirðir hafi verið látnir sitja mjög á hakanum, eftir því sem fram kom í hans ummælum, og ég vil í því sambandi sérstaklega nefna það, að í umr. um þetta mál 10. febr. 1965 sagði hæstv. ráðh., að það væri rétt, að bæði rn. og ríkisútvarpinu hafa borizt kvartanir um hlustunarerfiðleika á Vestfjörðum, og um það hef ég rætt alveg sérstaklega við forráðamenn útvarpsins og verkfræðinga landssimans, og þeir hafa fullvissað mig um það, að þeir erfiðleikar séu algerlega tímabundnir og standi í sambandi við hina lágu orku, sem notuð hefur verið undanfarið til sendinga á dagskrá útvarpsins vegna hinna miklu framkvæmda, sem staðið hafa yfir við hinn nýja aðalsendi útvarpsins á Vatnsendahæð.

Ég verð að segja það, að hæstv. ráðh. auðvitað svaraði ekki þessari fsp. hér í fyrra nema eftir því sem sérfræðingar segja og gefa honum upplýsingar um. En sérfræðingar, sem fullyrða á þennan hátt, eins og þessir sérfræðingar hafa gert, hvað svo sem þeir heita, það hlýtur að vera eitthvað bogið við þeirra sérfræðiþjónustu. Og væri þá ekki rétt að fara að hugsa sér fyrir að leita sérfræðiþjónustu hjá einhverjum öðrum mönnum en þeim, sem fullyrða út í loftið, að úr ákveðnum hlutum verði bætt með komu hins nýja sendis? En það hefur aldrei verið verra ástandið í hlustunarskilyrðum á norðanverðum Vestfjörðum heldur en frá s.l. hausti og þangað til dag fór að lengja.

Á sama tíma og hér við þéttbýlið við Faxaflóa er farið að rífast um það, hvort eigi að fá að horfa á eina eða tvær sjónvarpsstöðvar, þá eiga ákveðnir hlutar landsmanna að búa e.t.v. við það árum saman að geta ekki hlustað á dagskrá ríkisútvarpsins kvöldum saman og þó sérstaklega á vetrum, þegar fólk hlustar mest.

Ég veit, að hæstv. menntmrh. er maður, sem vill framfarir, og hann vill, að þær stofnanir, sem undir hann heyra, standi við sitt. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, en ég vænti þess og treysti honum til þess, að hann herði á þessum málum, og það harma ég mest í sambandi við hlustunarskilyrðin á Vestfjörðum, að skammdegið í vetur var á engan hátt notað, hvorki af ríkisútvarpinu né landssímanum, til þess að gera þar rannsóknir. Það er ekki fyrr en daginn fer að lengja og hlustunarskilyrði fara að batna, sem loksins er rumskað til að senda menn til athugunar.