27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

111. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgmrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur flutt um þær athuganir, sem gerðar hafa verið á þessu máli, og þær upplýsingar, sem hann veitti. Niðurstaðan af þessum athugunum er sú, að þetta mál muni verða fjárhagslega mjög hagstætt eftir fá ár, eins og það er orðað. Í sambandi við niðurstöður á kostnaðaráætlunum verð ég að játa það, að stofnkostnaður er allmiklu meiri en ég hafði búizt við. Hins vegar hefur ferjustaðurinn verið færður töluvert utar í Hvalfirði. Við það styttist leiðin enn þá meira, verður hagkvæmarí frá því sjónarmiði, en hafnarmannvirki verða auðvitað allmiklu dýrari, þannig að ég hygg, að rétt væri að gera nákvæmari kostnaðaráætlun um, hvernig rekstur og aðstaða kæmi út, ef ferjan væri á nokkrum mismunandi stöðum. Einnig gera sérfræðingarnir ráð fyrir því þegar í upphafi að kaupa tvær ferjur, sem kosta 20 millj. hvor, en ég gæti ímyndað mér, að það væri hægt að komast af með eina ferju fyrst og kaupa aðra ferju 2—3 árum síðar. Ég hygg, að fyrri ferjan mundi fá miklu meira en 50% af þeirri umferð, sem þær koma til með að hafa báðar, því að seinni ferjan kemur óneitanlega fyrst og fremst að notum við toppumferð, eins og kallað er.

Í sambandi við þær áætlanir, sem sérfræðingarnir nefna um umferðaraukningu, verður það ljóst, sem ég benti á í fyrri ræðu minni, að eftir sárafá ár, eftir e.t.v. 5—6 ár, verður umferðin um Hvalfjarðarveginn orðin svo mikil, að samkv. reynslu vegamálastjórnarinnar verður illmögulegt að halda malarvegi við, svo að vandamálið er komið að dyrum okkar og engin skynsemi í því að fresta því. Ég vil leggja á það áherzlu, sem sérfræðingarnir einnig benda á, að það tekur 2–3 ár að koma þessu mannvirki upp, ef tekin væri ákvörðun um það, þannig að undirbúnings- og byggingartími mundi þegar ná yfir helming þess tíma, sem þeir telja fram að því umferðarmagni, að fjárhagslegur grundvöllur væri örugglega fyrir hendi.

Ég vil svo að lokum benda á það, að engum dettur annað í hug en ferjurnar verði að svara kostnaði, þær eru komnar þegar í þann flokk umferðar- og samgöngumannvirkja á Íslandi, að það er ætlazt til þess, að þær borgi sig í beinum rekstri. En það kemur nú sjaldan fyrir, að talað er um mannvirki eins og vegi eða brýr, sem ferjurnar eru samkv. íslenzkum lögum hluti af, þær eru hluti af vegakerfinu, og það er sjaldan, sem talað er um þessi mannvirki á þann hátt. En ég skal ekki mótmæla því, að það verði að taka mikið tillit til þess, að skipin sjálf geti borið sig þegar í upphafi, þó að ég telji, að það verði líka að meta það út frá málinu í heild og það geti sannarlega borgað sig fyrir okkur að koma þessu mannvirki upp 2—3 árum fyrr frekar en siðar, enda þótt svo færi, að einhver halli yrði á rekstri ferjanna fyrstu 2—3 árin. En samt er ég ekki viss um, að það yrði nokkurn tíma halli á þeim þrátt fyrir þá útreikninga, sem ég hef heyrt, og þótt svo færi í byrjun, held ég, að það yrði aldrei lengi.

Ég vil því fagna þeirri niðurstöðu hæstv. ráðh., að rannsóknin sýni, að hér sé um raunhæfa hugmynd að ræða, sem líkur séu til þess, að verði nokkuð hagstæð, og ég vil vænta þess, að hann framkvæmi þá skoðun sína, að málið verði áfram í alvarlegri rannsókn á næstunni, þannig að það verði ekki látið bíða, þangað til algert umferðaröngþveiti er komið í Hvalfirði.