17.12.1965
Efri deild: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umr., þótt ýmislegt af því, sem sagt hefur verið, gefi tilefni til aths. og hugleiðinga. Að vísu var margt af því

rætt við 1. umr., og þarf því ekki sérstaklega að endurtaka þau atriði.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. taldi mjög vítavert, hvernig hefur verið haldið á þessu máli í n., og það væri orðin venja hjá núv. ríkisstj. að misbjóða AIþ. á einhvern hátt, þannig að það gæfist ekki kostur á að skoða mál. Ég held, að þetta sé ekki makleg ásökun. A.m.k. kannast ég ekki við, að það hafi ekki verið með sæmilegum fyrirvara lögð fyrir þingið flest þau mál, sem nú hafa fyrir það komið. Má að vísu segja um þetta mál hér, að það hafi komið nokkuð seint, en önnur þau frv., sem lögð hafa verið fyrir þingið nú og hefur þurft að afgreiða fyrir áramót, hefur verið fullkomlega nægur tími til þess að athuga. Hitt er svo allt annað mál. að það er ekkert nýtt og raunverulega fullkomlega eðli málsins samkvæmt, að það sé ekki hægt að breyta í stórum stíl meginatriði mála, eftir að þau hafa verið undirbúin, vegna þess að það mundi raunverulega sýna, að undirbúningur þeirra væri ákaflega lélegur og bágborinn, þannig að slíkt er auðvitað ekki neitt að undra. Og þegar talað er um einhverja handjárnun stjórnarstuðningsmanna í því sambandi, er það vitanlega, eins og hv. þm. veit, gersamlega út í hött. Það er nákvæmlega eins og það alla tíð hefur verið hér og er í flestum þingum, að meiri háttar mál eru að sjálfsögðu rædd af stjórnarliði, áður en þau eru lögð fram, hverjir svo sem ríkisstj. skipa á hverjum tíma, þannig að það er almenn venja og er auðvitað alveg út í hött að tala um einhverja handjárnun í því efni. Þegar mál eru lögð endanlega fyrir Alþ., hafa þau auðvitað verið athuguð og stjórnarstuðningsmönnum gefinn kostur á að koma fram með sínar aths. við þau, áður en ríkisstj. leggur þau endanlega fram. Þetta veit ég, að hv. þm. veit, og eru ekkert nýir starfshættir, heldur hafa verið hjá öllum ríkisstjórnum.

Varðandi svo hitt atriðið, að það sé. hneykslanlegt, að n. hlusti ekki á till. þm., sem fyrir fram lýsir sig andvígan máli, en vill samt hafa fríbréf til þess að breyta fram og aftur frv., sem hann er þó staðráðinn í engu að síður að vera á móti, þá sé ég enga ástæðu til þess að taka sérstaklega alvarlega slíkar brtt. Hitt er allt annað mál og má segja, að sé nokkurs annars eðlis, með þær till., sem koma frá hv. framsóknarmönnum, að þeir lýsa því yfir, að þeir muni styðja málið, ef tilteknar breytingar verði gerðar. Það er annað mál og efnislega hægt að taka það öðrum tökum. Hvort menn hins vegar eru með því eða móti, það er önnur saga.

Ég vil enn einu sinni, þó að það hafi sennilega ekki mikla þýðingu, leggja áherzlu á það, að ég tel. að hér sé ekki um neina venjulega tekjuöflun fyrir ríkið að ræða, alls ekki, af því að ég tel ekkert eðlilegt við það, að ríkið greiði halla rafmagnsveitna ríkisins. Þetta var tekið inn í fjárlög í fyrra, — ég vil segja illu heilli. Þessi rekstrarhalli hefur aldrei verið í fjárl. og aldrei gert ráð fyrir því, að ríkið greiddi þennan halla. Hér er um að ræða bágborna afkomu tiltekins fyrirtækis, sem að vísu ríkið á, en aldrei hefur verið gert ráð fyrir að rekstrarhalli þess yrði greiddur úr ríkissjóði. Það var því ósköp einfaldlega hægt fyrir fjmrh. að taka þennan halla út úr fjárl. og segjast ekkí greiða þann halla, og þá varð að sjálfsögðu með einhverju móti að rétta hlut þessa fyrirtækis, þannig að það yrði komið hjá öngþveitisástandi í rekstri þess. Hér er því ekki um neina venjulega skattheimtu eða tekjuheimtu fyrir ríkið sem slíkt eða ríkissjóðinn að ræða.

Hv. framsóknarmenn hafa flutt hér brtt., sem ganga í þá átt að framkvæma fullkomna verðjöfnun á rafmagni með þeim hætti, að verðjöfnunin verði greidd úr ríkissjóði. Mér skilst að vísu, að þeir samkv. till. sínum fallist á þann skatt, sem hér er um að ræða, því að það er ekki gert ráð fyrir, að hann verði niður felldur. En að yfirtaka á skuldum, sem þeir ræða um í sinni fyrri till., eigi að skapa skilyrði til þess, að rafmagnsveiturnar geti lækkað verð sitt frá því, sem nú er, og fært þannig nær því verði, sem er frá Landsvirkjun, — ég skal ekki segja, hversu nálægt það yrði, ég hef ekki reiknað það dæmi út, en það má gera ráð fyrir því, að ef ríkið yfirtæki öll þau lán, sem þarna er um að ræða, mætti ætla, að það yrði ekki fjarri lagi að mæta þeim verðmismun, sem hér er um að ræða. Hins vegar gefur auga leið, að hér er um að ræða viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð, sem mundu nema 21/2 milljónatug. Það kostar það nú að verðjafna þetta, eitthvað nærri, þótt ég taki fram, að þetta er ekki nákvæm tala. Það eru a.m.k. 25 millj. kr., sem væru árleg útgjöld ríkissjóðs til að framkvæma þessa verðjöfnun.

Ég er sammála hv. 4. þm. Norðurl. e. um það, að ég held, að þetta mál þurfi miklu betri athugunar við, áður en hægt er að taka endanlega afstöðu til þess, enda er það í rauninni viðurkennt af hv. flm., því að þeir hafa þetta í heimildarformi, þannig að þeir gera ekki ráð fyrir, að það sé öruggt, að þetta sé heppileg leið, heldur þurfi frekari athugun á málinu. Með hliðsjón af því sýnist mér ekki vera heppilegt að fara að setja þetta sem einhverja stefnuyfirlýsingu í lög núna, vegna þess m.a., að það kemur auðvitað ekki til neinna álita, að slíkt yrði framkvæmt á þessu ári, hvað sem öllum heimildum líður, vegna þess að til þess er ekkert fjármagn veitt og ekki um neitt fé að ræða hjá ríkissjóði til þess að taka á sig slíkar byrðar. Af þessum sökum tel ég ekki auðið að samþykkja þessar brtt.

Varðandi hitt meginatriði málsins, hvort á að stefna að verðjöfnun með einhverjum hætti, það er, eins og ég vék að við 1. umr., mál, sem er fullkomlega þess virði að íhuga, og ég hygg, að þróunin hljóti að verða sú, eftir því sem raforkukerfið tengist meir saman, að heildsöluverð verði það sama eða svipað frá öllum orkuverunum og þau jafnvel að meira eða minna leyti verði ein heild, einhvers konar landsvirkjun, og þá muni þetta í rauninni leysast með eðlilegum hætti á þann veg, þetta mál. sem vissulega er deilumál og menn skiptast í flokka um, enda er hér um mismunandi hagsmuni að ræða frá einstökum hlutum þjóðfélagsins, sem við öll þekkjum. Meginstefnan hygg ég hins vegar verði að vera sú, að raforkukerfið í heild standi undir sinni uppbyggingu og sínum tilkostnaði, og það sé ekkert eðlilegt við það, að það sé greitt úr almannasjóði, heldur sé það raforkunotkunin, sem undir þessu standi, því að vitanlega verður, eins og hv. 10. þm. Reykv. sagði hér, einhver að borga þetta. Hér er því aðeins spurning um það, með hvaða hætti menn vilja taka það fé, hvort á að taka það með almennum skatti á þjóðfélagsborgarana eða láta raforkusöluna með einhverjum hætti standa undir því. Það er að minni hyggju sú eðlilega leið, að raforkusalan standi undir tilkostnaðinum við þetta. Að öðru leyti hefur það þó verið viðurkennt, að varðandi uppbyggingu dreifiveitna um sveitir sé það af öllum þjóðfélagsborgurunum greitt sem framlag til þess að jafna aðstöðuna í þjóðfélaginu með þeim hætti, og þess vegna er gert ráð fyrir því, að það, sem framvegis verður lagt af dreifiveltum um sveitirnar, verði greitt með beinum fjárframlögum í fjárl., en ekki með lánum.

Ég játa mig ekki færan til þess að fara í skáldlegan samjöfnuð við hv. samþm. minn, 1. þm. Norðurl. e., þannig að ég reyni ekki að fara að feta í fótspor hans um það. En varðandi hugleiðingar hans um búskussa er ég ekki alveg viss um, að það passi nákvæmlega inn í hugleiðingar hans og hv. flokksbræðra hans nú um, hvernig eigi að reka þetta raforkubú okkar og með hverjum hætti hann hugsar sér, að það verði gert. A.m.k. er ég hræddur um, að varðandi heildarfjármálastefnuna verði ekki talin til sérstakra búhygginda sú lína eða sú leið, sem hann og hv. flokksbræður hans hafa markað í þeim efnum, að svo miklu leyti sem er hægt að átta sig á þeirri leið. Og þegar um það er rætt að úthýsa einhverju og talað um að úthýsa hér í fjárl. framlögum til rafmagnsveitna ríkisins, held ég, að það sé miklu lakara að úthýsa skynseminni, en það hefur því miður of oft hent hv. samherja hans að gera það í sambandi við umr. um fjárhagsmálin að undanförnu, og held ég þó, að það hafi verið met slegið í því í þessari hv. þd. hér á síðasta þingi, þegar jafnvel var orðað, að það væri eðlilegt, að ríkissjóður tæki á sig að greiða niður útsvörin til sveitarfélaganna, til þess að það væri hægt að lækka þau. En það má náttúrlega ekki segja það óvinsæla, að einhvers staðar verði sveitarfélögin að fá sína peninga, og þá átti ríkissjóðurinn að leggja fram það fé. Ég veit nú, að hv. þm., sem er mjög glöggur og greindur maður, veit mætavel, að þetta lítur ekki svona út og það verður aldrei fram hjá þeim vanda komizt, og það eru hin sönnu einkenni búhyggindamanns, að menn verða að gera sér grein fyrir staðreyndum sinna fjármála, og það tjóar ekki að segja eingöngu það, sem þessum eða hinum geðjast að heyra í það og það skiptið. Við komumst aldrei fram hjá þeirri staðreynd, að einhver verður að borga þennan brúsa, allt það, sem við viljum gera. Og þegar hann talar um þá mörgu skatta, sem á hafa verið lagðir hér, vil ég vekja athygli á því, að ég held í öllum þessum tilfellum, þar sem um þessa skatta var að ræða, hafi hv. framsóknarmenn stutt það, að út í þær framkvæmdir væri farið, en hins vegar talið alltaf eðlilegt, að það væri greitt úr ríkissjóði. En einhver verður að borga í þennan ríkissjóð. Það verður alltaf að lokum einhver að borga þetta. Það verður aldrei fram hjá því komizt. Það er því alveg sama, hve lengi við þvælum um það mál. Fram hjá lokastiginu verður aldrei komizt, af því að fjárins verður að afla, og það lendir alltaf á þeim, sem í ríkisstj. er í það og það skiptið, að framkvæma það óvinsæla starf að afla fjárins, og þá þykir öðrum gott að geta dregið sig í hlé og sagt, að hér sé verið að framkvæma óhæfuverk, vegna þess að þessara skatta þurfi alls ekki að afla, það sé ríkissjóðurinn, sem geti borgað þetta án þess að sjá honum fyrir fé til að gera það. Þetta eru almennar hugleiðingar, sem ég skal ekki fara lengra út í. Það væri auðvitað fróðlegt að ræða það meira.

En varðandi till. hv. framsóknarmanna um verðjöfnun, eins og það er .framsett hér, tel ég ekki mögulegt að fallast á, að það þurfi miklu nánari athugunar við, enda þýðingarlaust að vera að samþykkja slíkar till., þar sem þær eru eingöngu í heimildarformi og sýnilegt, að slíkar heimildir er með engu móti hægt að nota, a.m.k. á þessu ári.

Varðandi svo bráðabirgðaákvæði, sem þeir flytja till. um, er ég því efnislega alveg sammála, að það þarf að taka allt þetta mál til heildarathugunar, og ég get sagt frá því hér, að ríkisstj. hefur ákveðið það og hæstv. raforkumálaráðh.. að fram fari heildarendurskoðun á raforkulöggjöfinni. Það er orðin hin brýnasta nauðsyn og auðvitað mjög eðlilegt í því sambandi, að þær rafveitur í landinu, sem sérstaklega eiga að bera baggana af þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að gera, geri kröfu um það, að rannsakað verði alveg ofan í kjölinn, að rafmagnsveiturnar séu reknar með þeirri hagkvæmni, að það sé ekki beðið um meira fé en brýnasta þörf er að fá. Þetta tel ég sjálfsagt og eðlilegt og það sé sanngjarnt, að með því sé fylgzt og kynnt sér, hvað í þessu efni er að gerast. Ég tel því ekki þörf á því að samþykkja þá till. sérstaklega, sem hér er um að ræða, því að mér er kunnugt um, að hæstv. raforkumrh. hefur þegar í undirbúningi endurskoðun þessa, og mér er mjög ljúft að koma á framfæri við hann þeim aths. og ábendingum, sem hér hafa komið fram um þetta vandamál í heild, einnig um að sú löggjöf, sem sett var á síðasta þingi um Landsvirkjun og Laxárvirkjun, verði tekin til athugunar og sérstakrar meðferðar í því sambandi. Og ég get gjarnan skýrt frá því, að fyrir tveimur árum var sérstök nefnd starfandi til þess að rannsaka fjárhagsmálefni rafmagnsveitna ríkisins, og að nokkru leyti á grundvelli niðurstöðu þeirrar nefndar hefur sú stefna verið mörkuð, bæði með myndun landsvirkjunarfyrirtækisins og jafnframt með því að leggja á sérstakt raforkugjald, sem hér er um að ræða. En það er alveg rétt, að það er hin brýnasta nauðsyn, að rafmagnskerfið allt sé tekið til endurskoðunar. Raforkul. eru þegar orðin gömul og eðlilegt, að þau þurfi athugunar við. Ekki hvað sízt þegar sýnilegt er, að menn standa andspænis þeim vanda, að það er ekki hægt að reka þetta með eðlilegum hætti, heldur þarf að taka upp sérstök gjöld til að aðstoða einn þátt kerfisins, þá er það mjög sanngjörn og eðlileg ósk af allra hálfu, að þetta sé skoðað niður í kjölinn til þess að forðast, að nokkur tortryggni sé um það, að hér sé ekki allt með eðlilegum og skynsamlegum hætti gert.