17.12.1965
Efri deild: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

97. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1966

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hér er eingöngu um að ræða formlegt mál. sem allir eru sammála um og er nauðsynlegt að afgreiða. Skiptir ekki máli út af fyrir sig, hvort það verður afgreitt nú eða eftir að þingið kemur saman aftur. Ég hreyfði því í Nd. til athugunar, hvort ekki væri skynsamlegra að breyta þessu í eitt skipti fyrir öll, menn kæmu sér saman um að setja í lög, að þingið skyldi koma saman að hausti, í stað þess ákvæðis, sem er í stjórnarskránni nú, en má breyta með einföldum lögum, að það komi saman um miðjan febrúar. Þetta frv. er eingöngu um að breyta þessu að þessu sinni, eins og venja hefur verið til. Ég hygg, að skynsamlegra væri, ef menn væru sammála um það næst að flytja frv. um, að þessu verði breytt til frambúðar, til þess að ekki þurfi á hverju ári að flytja þetta formlega frv., sem allir eru sammála um. Ég sé ekki ástæðu til, að málið gangi til n., en legg til, að frv. verði afgreitt til 2. umr. nefndarlaust.