24.02.1966
Efri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. 1. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls ræddi ég nokkuð ákveðnar forsendur frv. og þá sérstaklega afkomu frystihúsanna, þeirrar greinar sjávarútvegsins, sem ætlunin er að veita stuðning samkv. þessu frv. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem ég sagði þá, og þeim mun siður þar sem þetta atriði ræður í rauninni ekki afstöðu minni til þessa máls. Ég mundi vera andvígur þeirri lausn, sem lögð er til í þessu frv., enda þótt ég teldi það fullsannað, að frystihúsin gætu ekki risið undir þeirri hækkun á ferskum fiski, sem var ákveðin nú í janúarbyrjun. Ástæðan til þess, að ég er andvígur þeirri lausn, sem hér er lögð til, er fyrst og fremst sú, að ég tel aðferðina bæði óeðlilega og óheppilega, þá aðferð yfir höfuð að skattleggja beint eina framleiðslugrein til að standa undir rekstri annarrar. Fyrir mér er þetta aðalatriði málsins. Það er þess vegna fyrst og fremst, sem ég er andvígur frv.

Hitt vil ég svo aðeins ítreka með fáeinum orðum, að ég tel það engan veginn sannað, að frystihúsaiðnaðurinn geti ekki á þessu ári staðið undir þeirri 17% hækkun á ferskfiski, sem ákveðin var nú um áramótin. Það er í því sambandi aðelns rétt að minna á, að það er staðreynd, að frystihúsin hafa almennt haft dágóðan hagnað árin 1964 og 1965. Það er enn fremur staðreynd, að á afurðum þessarar framleiðslugreinar hefur orðið mjög veruleg verðhækkun á erlendum mörkuðum undanfarin ár og þó allra mest á árunum 1964 og 1965, og hélt sú hækkun áfram síðari hluta árs 1965. Það má að sjálfsögðu segja og það með réttu, að enginn geti fullyrt, að þessi þróun haldi áfram, það sé ekki hægt að segja neitt ákveðið um það, og það er vitanlega rétt. Hins vegar eru líkurnar verulegar, sem betur fer, til þess að þessi þróun haldi eitthvað áfram og það jafnvel lengi enn, hvort sem þar verður um jafnmikla aukningu á verðmæti að ræða og verið hefur síðustu tvö árin. Það er erfitt að spá um það. Hins vegar er það vitað mál, að fiskur er almennt talað viðurkenndur sem mjög holl og góð fæða, og fiskur og fiskafurðir eru einmitt sú fæðan, sem meira en helmingur mannkynsins, sem er vannærður, þyrfti í miklu meiri mæli en um er að ræða á að halda, og þess vegna má vissulega gera ráð fyrir því, að eftirspurn eftir fiskafurðum yfirleitt fari vaxandi, en ekki minnkandi á komandi árum, eins og hún hefur gert undanfarin ár. En sem sagt, þá ætla ég ekki að gera þetta að aðalatriði þess, sem ég segi hér, hvort hraðfrystihúsin kynnu að hafa getað tekið á sig ferskfiskverðshækkunina alla eða ekki, heldur þá aðferð, sem lagt er til með þessu frv. að viðhafa til stuðnings við þessa iðngrein. Ég tel aðferðina, eins og ég áðan sagði, mjög vafasama og raunar ákaflega varhugaverða og það af ýmsum ástæðum. Ég skal nú færa fyrir þessu nokkur rök.

Fyrst vil ég nefna það, að bein yfirfærsla fjármagns frá einni atvinnugrein til annarrar, jafnvel frá einum þætti sömu atvinnugreinar til annars þáttar hennar, hlýtur jafnan að vera mjög verulegum vandkvæðum bundin og er líkleg til þess að valda ýmiss konar ókyrrð og truflunum og jafnvel hreinum vandræðum. Við gætum sett upp ýmis dæmi um það, hvernig hliðstæðar aðgerðir og sú, sem hér er lögð til, kunni að verka. Ég skal aðeins taka eitt dæmi af hraðfrystihúsaiðnaðinum sjálfum. Það er ómótmælanlegt, að mörg stærstu frystihúsin, þau sem hafa skapað sér hagkvæmasta aðstöðu, þau sem hafa mest og bezt hráefnið, þessi frystihús hafa skilað undanfarin ár verulegum ágóða og sum jafnvel umtalsverðum gróða, á sama tíma sem önnur hraðfrystihús, t.d. flestöll húsin á

Norðvesturlandi, þ.e.a.s. minni frystihús og vanbúnari og hús, sem eiga oft við mikinn hráefnisskort að stríða, þessi hús eru sannanlega rekin með tapi, og þau hafa jafnvel verið rekin með tapi ár eftir ár. Engum hefur þó enn þá dottið í hug að skattleggja beinlínis betur stæðu frystihúsin til hagsbóta fyrir þau, sem hafa verri aðstöðu. Ég tel, að slíkt væri ekki heldur skynsamlegt eða heppilegt, og þó væri það sízt fráleitara en sú skattlagning, sem hér á að leggja á síldveiðiflotann til stuðnings við frystihúsaiðnaðinn.

Skoðun mín er sú, að þegar einhver mikilvæg framleiðslugrein þarf á fjárhagslegum stuðningi að halda sannanlega, sé um að ræða þjóðfélagslegt vandamál, sem snertir ekki aðeins þessa atvinnugrein, heldur þegnana yfirleitt og þjóðfélagið sem heild, og það eigi að leysa vanda þessarar atvinnugreinar samkv. því, eins og gert hefur verið í fjölmörgum tilfellum. Þá skeður það einfaldlega, að ríkisvaldið aflar fjár að þeim almennu skattheimtuleiðum, sem það getur gripið til og hefur gripið til, eða þá með lánastarfsemi eða annarri fyrirgreiðslu, sem getur komið þeirri atvinnugrein, sem í vanda er stödd, til góða. Á svipaðan hátt tel ég, að ætti að leysa þann vanda, sem hér kynni að vera fyrir hendi, að því er snertir hraðfrystihúsin í sambandi við það fiskverð, sem nú hefur verið ákveðið.

Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma, hversu raunhæft og eðlilegt það er að gera hinn svonefnda síldveiðigróða að sérstökum skattstofni fyrir annan þátt atvinnurekstrar í landinu. En það hlýtur þó að skipta máli í þessu sambandi, hvort hér er um að ræða atvinnugrein, sem hefur verið og ætla má að muni verða mikill gróðavegur yfirleitt, a.m.k. í náinni framtíð. Það er rétt, að heildarafli á síldveiðum hefur verið mikill og mjög mikill s.l. 2—3 ár. En menn ættu nú tæplega að vera búnir að gleyma því, að áður hafði verið nær tveggja áratuga síldarleysi og á þeim tímum höfðu tekjur síldveiðisjómanna verið með fádæmum rýrar og útgerðarmenn síldveiðiskipa í endalausu basli, enda þurfti hvað eftir annað að fá aðstoð, til þess að útgerðin gæti haldið áfram. Er nú líklegt, að sú gífurlega síldveiði, sú metsíldveiði, sem verið hefur s.l. 2 ár, haldist lengi? Það er engin leið að spá um þetta. Sem betur fer hefur tæknin breytzt mjög til bóta og möguleikarnir til að sækja á ýmis fjarlægari mið en áður hafa vaxið. En þó verðum við að hlusta á þau orð fiskifræðinga, sem segja, að í síldveiðum hljóti alltaf að verða mjög miklar sveiflur. Þeir benda á það, að íslenzki síldarstofninn sé nú í lágmarki og ógerlegt að segja um það, hvenær hann nær sér aftur verulega á strik, þó að það sé vonandi, að ekki verði þess langt að bíða, en tæplega verður það þó fyrr en eftir nokkur ár.

Norski síldarstofninn svonefndi, þ.e.a.s. sá síldarstofn, sem m.a. hefur verið veiddur út af Austfjörðum undanfarin ár, hefur verið í hámarki, að því er fiskifræðingar segja, og það má væntanlega gera sér vonir um, að árið í ár verði hann enn nálægt þessu hámarki. En þeir spá því, að þessi stofn fari minnkandi úr því, þangað til nýir og sterkir árgangar kunna að koma í gagnið, en á því getur, eins og dæmin sanna, verið allveruleg bið.

Þetta eru að vísu allt spádómar um óorðna hluti. En þeir byggjast þó á ýmsum líkum, og það, sem styður þá, er það, sem áður hefur skeð í þessum efnum. Síldveiðar eru, eins og ég hef áður lagt nokkra áherzlu á, einhver óöruggasti atvinnuvegur okkar, eins og þær hafa verið stundaðar fram til þessa, þó að þess megi vænta, að með því móti smám saman að þurfa ekki að leggja eins mikið upp úr hinu gífurlega magni, en auka verðmætið að sama skapi, megi draga verulega úr þessum sveiflum og gera síldveiðarnar miklu öruggari en þær hafa verið og eru í dag. En áður en það er orðið, hlýtur að líða nokkur tími, og þarf að gera ýmislegt, til þess að það geti orðið. En nú er a.m.k. stundum látið í það skína, að undanfarin 2—3 ár hafi þó a.m.k. flestir eða allir grætt og það stórlega, sem á síldveiðum hafa verið eða við síldarútgerð fengizt. Þarna skýtur þó að ýmsu leyti mjög skökku við. Rétt er það, að margir hafa grætt í sambandi við síldveiðar og síldariðnað á undanförnum 2—3 árum. Síldarverksmiðjurnar hafa grætt allverulega. Síldarsaltendur hafa grætt, að því er manni skilst, allverulega. Og sjómenn á góðum og ágætum aflaskipum hafa haft prýðilegar tekjur þessi ár. Þetta er staðreynd, og við þetta virðist nokkuð oft vera miðað. Það er ekki litið á hina hliðina, skuggahliðina, í þessu sambandi. En það er jafnframt staðreynd, að alveg á sama hátt og hægt er að benda á, að það hefur verið og er erfið afkoma einstakra hraðfrystihúsa, sem búa við erfiða aðstöðu, á sama hátt hefur afkoma margra síldarbáta og síldarskipa, jafnvel þessi metaflaár, verið bágborin. Það er töluverður hópur skipa, nokkrir tugir síldveiðibáta, sem þessi árin hafa fengið svo lítinn afla, að þeir hafa orðið að leita til aflatryggingasjóðs og fengið styrk úr honum. Og þessi sömu ár, 1964 og 1965, hafa nokkur hundruð síldveiðisjómanna ekki borið annað og meira úr býtum á síldveiðunum heldur en hlutatrygginguna eina eða í bezta falli eitthvert lítilræði umfram hana.

Nú má að vísu segja, að í krónutölu komi sú hækkun útflutningsgjaldsins, sem hér um ræðir, minnzt við þá, sem lítið afla. En hlutfallslega er þessi hækkun hin sama og bitnar því einnig á þeim, sem raunverulega og sannanlega mega einskis í missa. En hvað er þá að segja um hin stóru og nýju síldveiðiskip, þau skip, sem mörg hver hafa aflað vel og jafnvel afburðavel síðustu 2—3 árin? Er ekki ofsagróði á útgerð þessara skipa? Þar eru nú að vísu ekki fyrirliggjandi eða mér tiltækar mjög aðgengilegar tölur. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér, mun mega segja, að örfáir tugir síldveiðiskipa hafi sýnt góða afkomu síðustu tvö ár, en svo er ekki um allan þorra síldveiðiflotans. Ég býst varla við, að menn geri sér það almennt ljóst, hversu gífurlega mikið þarf að aflast á spánnýtt 300—350 smál. skip, ef reksturinn á að vera bærilegur, þ.e.a.s. rekstur skipsins sjálfs. Slíkt skip kostar nú, 1965—1966, með öllum tækjum og veiðarfærum einhvers staðar á bilinu frá 20 og upp undir 25 millj. kr., og mér er tjáð, að útgerð slíks skips, 300—350 tonna, sem kostaði um eða yfir 20 millj., beri sig ekki, nema skipið fiski fyrstu árin a.m.k. fyrir 16—18 millj. brúttó yfir árið. Hversu mörg skip hafa náð því gífurlega aflamagni á þessum metaflaárum? Þau eru ekki ákaflega mörg. Hitt er svo annað mál, að eigendur töluvert margra síldveiðiskipa eru einnig aðilar að síldarsöltun eða síldariðnaði, og þar hefur afkoman verið góð, eins og kunnugt er, þessi árin, og margir hafa getað rétt hag sinn þar, en það á ekki við um þá, sem eingöngu fást við útgerð.

Ég skal svo ekki fjölyrða öllu meira um þetta mál, nema sérstakt tilefni gefist til. Mér er ljóst, að í sambandi við fiskverðsákvörðunina í janúar tók meiri hl. yfirnefndar og hæstv. ríkisstj. á sig skuldbindingar gagnvart fiskiðnaðinum. Ég hef að vísu dregið í efa, að slíkt hefði verið nauðsynlegt. En hvað sem því líður, tel ég víst, að hæstv. ríkisstj. muni standa við þær skuldbindingar, sem hún tók á sig gagnvart frystihúsaiðnaðinum. En ég tel, að hún gæti gert það á hentugri og eðlilegri hátt með öðru móti en því, sem hér er lagt til, og þó með þeim hætti, að það geti komið frystihúsaiðnaðinum alveg eins til góða og það, sem er lagt til með þessu frv., en stofni ekki í þá tvísýnu og jafnvel áhættu um vinnufrið, sem gæti orðið afleiðing þessa frv., ef það verður samþ.